Ályktun aðalfundar um sameiginlegt umhverfismat háspennulína

Verndum náttúruna, landvernd.is
Ályktun aðalfundar um sameiginlegt umhverfismat háspennulína

Aðalfundur Landverndar haldinn í Reykjavík 12. maí 2012 samþykkti eftirfarandi ályktun um sameiginlegt umhverfismat háspennulína:

Aðalfundur Landverndar telur nauðsynlegt og skynsamlegt að sameiginlegt umhverfismat fari fram á fyrirhugaðri uppbyggingu hringtengingar raforkuflutningskerfis á Íslandi og hvetur Landsnet, Skipulagsstofnun og umhverfisráðherra til að beita sér fyrir því. Það er mat aðalfundarins að meta verði sameiginlega áhrif af styrkingu flutningskerfisins í samræmi við 2. mgr. 5. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum. Þetta á við um fyrirhugaða 220kV Blöndulínu 3 og aðra áfanga í byggðalínuhringnum sem hugmyndir eru uppi um. Þá leggst aðalfundur Landverndar alfarið gegn byggingu háspennulína á hálendi Íslands.

Greinargerð
Frummatsskýrsla um mat á umhverfisáhrifum Blöndulínu 3 gerir ráð fyrir 220kV háspennulínu frá Blöndustöð um hluta Skagafjarðar, Norðurárdal, Öxnadal og inn til Akureyrar. Markmið Landsnets hf. með lagningu línunnar er tvíþætt. Annarsvegar að styrkja meginflutningskerfi raforku á Norðurlandi og hinsvegar er línan fyrsti áfanginn í byggingu hringtengds 220kV flutningskerfis hérlendis, sem auka á flutningsgetu byggðalínuleiðarinnar.

Í umsögn Landverndar um frummatsskýrsluna frá 4. maí sl. kalla samtökin eftir ítarlegri rökstuðningi við þá tillögu Landsnets að byggja svo stóra hápsennulína á svæðinu. Ef litið er til raforkuspár Orkustofnunar fram til ársins 2050 er talið að orkuaukning á Norðurlandi fyrir almenna notkun verði rétt rúmlega 40%, eða að jafnaði um 1% á ári. Ekki verður séð að línu með jafn háa spennu þurfi til að anna þessari auknu raforkuþörf á svæðinu. Að mati Landverndar er því ekki nauðsynlegt að byggja 220kV háspennulínu til þess að uppfylla markmið Landsnets um að styrkja flutningskerfið á Norðurlandi.

Það er því einsýnt að meginástæða fyrir byggingu Blöndulínu 3 með svo hárri spennu er hringtenging raforkukerfisins. Almenn aukning í raforkuþörf kallar ekki á slík mannvirki og því er það fyrst og fremst byggt til að uppfylla þarfir stórnotenda og stóriðju í landinu. Niðurstaðan er sú að Blöndulína 3 stendur því ekki sjálfstætt sem framkvæmd heldur er hluti af stærri heild. Yfirlýstur tilgangur 2. mgr. 5. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum er að gefa skýrari mynd af heildarumhverfisáhrifum framkvæmda. Skipulagsstofnun ætti því í samráði við Landsnet hf. og leyfisveitendur að ákveða að umhverfisáhrif hinnar fyrirhuguðu styrkingar leiðarinnar allrar verði metin sameiginlega.

Ert þú í Landvernd?

Taktu afstöðu með náttúrunni og gakktu í Landvernd