Fjöll og fjölskrúðug hverasvæði Kerlingarfjalla

Fjöll og fjölskrúðug hverasvæði Kerlingarfjalla eru einstök á heimsmælikvarða, landvernd.is
Enn eru nokkur sæti laus í gönguferð Landverndar og Ferðafélags Íslands um fjöll og fjölskrúðug hverasvæði Kerlingarfjalla 8-10. júlí. Sigmundur Einarsson jarðfræðingur leiðir hópinn og fræðir um þau fyrirbæri sem á vegi hans verða.

Enn eru nokkur sæti laus í gönguferð Landverndar og Ferðafélags Íslands um fjöll og fjölskrúðug hverasvæði Kerlingarfjalla 8-10. júlí. Sigmundur Einarsson jarðfræðingur leiðir hópinn og fræðir um þau fyrirbæri sem á vegi hans verða. Sigmundur hefur einstakt lag á því að miðla fróðleik á máli sem allir skilja og því um að ræða einstakt tækifæri til að fræðast um náttúru Kerlingarfjalla og njóta hennar um leið.
SKRÁNING í ferðina er hjá Ferðafélagi Íslands í síma 568 2533.

Ferðaáætlun er sem hér segir:

1. dagur: Reykjavík – Ásgarður
Lagt verður af stað frá Mörkinni 6 í Reykjavík kl. 16.00 og ekið sem leið liggur um Hellisheiði og Kjöl í Ásgarð í Kerlingarfjöllum þar sem gist verður í tjöldum/skálum og snæddur kvöldverður. Ferðatími er um 5-6 klst eða ræðst af ástandi vega.
2. dagur Snækollur
Eftir morgunverð fer hópurinn að gamla skíðasvæðinu þaðan sem gengið verður á Snækoll. Af tindinum er einstakt útsýni yfir Efri-Hveradali og fjöllött líparítsvæðið í Kerlingarfjöllum þar sem tindar skaga upp í 1200-1500 m hæð. Sigmundur gerir grein fyrir jarðfræði Kerlingarfjalla og tengingu við nærliggjandi umhverfi. Síðan gengið tilbaka í náttstað og snæddur kvöldverður.
3. dagur Hveradalir-Grænatjörn-Reykjavík
Að morgunverkum loknum verður ekið að Hveradalaþröskuldi þaðan sem gengið er um Neðri-Hveradali en þar getur að líta margbreytilegustu tegundir hvera, m.a. mikilfenglega brennisteinshveri. Áfram gengið í suð-vestur upp á Hverahjalla fyrir ofan háhitasvæðið í Hverabotni. Horft niður í Hverabotn og til líparítfjalla í austri og vestri. Fjallsriminn sem hér er gengið eftir er jafnframt öskjubrot. Haldið áfram niður fyrir Löngufönn suður að Grænutjörn og þaðan tilbaka að Hveradalaþröskuldi. Að snæðingi loknum ekið til Reykjavíkur. Heimkoma áætluð um kl. 21.00 sunnudaginn 10. júlí.

SKRÁNING hjá Ferðafélagi Íslands í síma 568 2533.

Verð kr. 30 000/33 000.

Ert þú í Landvernd?

Taktu afstöðu með náttúrunni og gakktu í Landvernd