Grænfánaverkefnið verði eflt

Áhersla er lögð á nemendalýðræði og valdeflingu nemenda í grænfánaskólum. Nemendur Ártúnsskóla taka við grænfána af Björt Ólafsdóttur umhverfisráðherra.
Aðalfundur Landverndar ályktaði um menntun til sjálfbærni í skólum landsins og styrkingu grænfánaverkefnis samtakanna.

Aðalfundur Landverndar, haldinn 13. apríl 2013, ályktaði um menntun til sjálfbærni í skólum landsins og styrkingu grænfánaverkefnis samtakanna:

Aðalfundur Landverndar 2013 fagnar auknu fjármagni á fjárlögum ársins 2013 til menntunar til sjálfbærni með tilkomu fjárveitinga til Græna hagkerfisins . Aðalfundurinn telur afar brýnt að að íslensk menntayfirvöld – ráðuneyti, sveitarstjórnir og skólar landsins – setji innleiðingu þessa grunnþáttar nýrrar aðalnámskrár í algeran forgang sökum mikilvægis hans fyrir framtíð Jarðar.
Aðalfundur Landverndar fagnar því einnig að gefið hefur verið út þemahefti um sjálfbæra þróun en leggur jafnframt áherslu á að markmiðum um grunnþætti menntastefnu í aðalnámskrá þarf að fylgja eftir með víðtækari stuðningi. Það er reynsla verkefnis Landverndar Skólar á grænni grein að bein ráðgjöf, stuðningur við starf á vettvangi og handleiðsla kennara sé vænlegasta leiðin til að tryggja farsæla innleiðingu grunnþáttarins. Mikilvægt er að tryggja rekstrargrundvöll verkefnisins með auknum fjárframlögum til lengri tíma.


Greinargerð
Í nýrri aðalnámskrá fyrir leik-, grunn- og framhaldsskóla birtist ný menntastefna sem hefur það meginmarkmið að rækta með markvissum hætti þá þekkingu, leikni og viðhorf sem styrkir getu einstaklinga í framtíðinni til að verða gagnrýnir, virkir og hæfir þátttakendur í jafnréttis- og lýðræðissamfélagi. Kjarni menntastefnunnar er settur saman úr sex grunnþáttum: læsi, sjálfbærni, lýðræði, jafnrétti, heilbrigði og velferð og sköpun. Námskrárnar voru staðfestar af mennta- og menningarmálaráðherra í maí 2011 og tóku gildi um haustið það sama ár. Innleiðingu skal ljúka á þremur árum.

Aðalfundur Landverndar hefur áður fagnað því að sjálfbærni sé einn sex grunnþátta í íslenskri menntastefnu. Hið alþjóðlega verkefni Landverndar, Skólar á grænni grein – grænfánaverkefnið, vinnur ötullega að því að styðja skóla í að tileinka sér hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar í skólastarfi. Mikil aukning hefur orðið á þátttöku skóla í verkefninu og mörg spennandi viðfangsefni framundan við þróun þess. Skólar á grænni grein er eitt fárra verkefna sem rekið er á landsvísu sem vinnur að þessu markmiði.

Með samstarfssamningi Landverndar, mennta- og menningarmálaráðuneytisins og umhverfis- og auðlindaráðuneytisins árið 2011 var rekstrargrundvöllur verkefnisins styrktur til muna. Sökum mikillar fjölgunar skóla í verkefninu og aukinnar þarfar skólanna á aðstoð við innleiðingu á menntun til sjálfbærni er mikilvægt að efla verkefnið enn frekar.

Lesa ályktun Landverndar

Ert þú í Landvernd?

Taktu afstöðu með náttúrunni og gakktu í Landvernd