Ályktanir

Aðalfundur Landverndar sem haldinn er árlega sendir frá sér nokkrar ályktanir. Oftast beinast þær að stefnumótun og ákvarðanatöku stjórnvalda. Milli aðalfunda sendir stjórn samtakanna frá sér ályktanir og fréttatilkynningar um umhverfismál sem efst eru á baugi hverju sinni.

Næstu skref í rammaáætlun

Aðalfundur Landverndar 13. apríl 2013 samþykkti eftirfarandi ályktun um verndar- og orkunýtingaráætlun og næstu skref í rammaáætlun:

"Aðalfundur Landverndar telur það vera áfangasigur í náttúruvernd á Íslandi, að rammaáætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða hafi verið samþykkt á Alþingi . Aðalfundurinn telur þó að enn þurfi að tryggja vernd hálendis Íslands með friðlýsingu svæðisins gegn frekari röskun. 

Fundurinn ítrekar það mat Landverndar að fleiri virkjanahugmyndir í jarðvarma færist úr nýtingarflokki í biðflokk í næsta áfanga áætlunarinnar, þar til meira er vitað um umhverfis- og heilsufarsleg áhrif jarðvarmavirkjana og lausnir hafa fundist á vandamálum sem tengjast förgun affallsvatns og brennisteinsvetnis. 

Auk þess áréttar aðalfundur Landverndar mikilvægi þess að svæði með hátt náttúruverndargildi eins og vatnasvið jökulsánna í Skagafirði, Hólmsá og Skaftá í Skaftárhreppi og Skjálfandafljót verði settar í verndarflokk í næsta áfanga áætlunarinnar. Þá álítur aðalfundurinn að endurskoða þurfi sérstaklega flokkun sumra jarðvarmavirkjana sem nú eru í orkunýtingarflokk, m.a. þeirra sem ógnað geta einstökum náttúruperlum líkt og í tilfelli Bjarnarflagsvirkjunar við Mývatn og á Reykjanesskaga."

Alyktun adalfundar Landverndar um rammaaetlun og naestu skref_Samthykkt

Tögg

Vista sem PDF

Leita í gagnasafni