Um verkefnið

Landvernd hvetur einstaklinga og hópa til að skipuleggja sína eigin strandhreinsun og veitir góð ráð og aðstoð fyrir þá sem hyggjast taka til hendinni, m.a. með upplýsingaveitu á síðu verkefnisins. Hægt er að skrá sína strandhreinsun á hreinsumisland.is og birtist hún á Íslandskorti Landverndar á sömu síðu. Með þessu vill Landvernd vekja athygli á mengun sjávar af völdum sorps og að við getum bæði hreinsað og spornað gegn henni. Rík áhersla er á að vekja fólk til umhugsunar um allt það magn af plasti sem við notum í daglegu lífi og finna leiðir til að draga úr því. Í ár ber Alþjóða strandhreinsunardaginn upp á dag íslenskrar náttúru, þann 16. september 2017 og er því tilvalið að vekja athygli á því að plastmengun í hafi er ekki eitthvað sem á sér aðeins stað erlendis heldur er raunveruleg áskorun á Íslandi líkt og öðrum löndum í heiminum.