Bláfáninn dreginn að húni

Smábátahafnirnar í Stykkishólmi og á Borgarfirði eystri og baðströndin í Bláa Lóninu stóðust öll kröfur bláfánans 2012 og flagga nú bláfánanum í tíunda skipti. Auk þeirra hafa Elding og Sérferðir undirritað

Bláfánahafnir og strendur á Íslandi fengu afhentan bláfánann á dögunum. Um er að ræða smábátahafnirnar á Borgarfirði eystri og í Stykkishólmi sem nú flagga fánanum í tíunda skipti. Á myndunum má sjá þegar bláfáninn var dreginn að húni í Stykkishólmi í blíðskaparveðri og á Borgarfirði eystri með leikskólabörnum. Þá er stefnt að því að halda hátíð í Bláa Lóninu í lok ágúst í tilefni af því að ströndin þar hefur einnig flaggað fánanum í tíu ár.

Bláfáninn er veittur þeim smábátahöfnum og baðströndum sem uppfylla ákveðin skilyrði um umhverfisstjórnun, vatnsgæði, öryggismál og umhverfisfræðslu. Fáninn er vel þekktur víða erlendis og trekkir að ferðamenn enda tákn um að vel sé gert í umhverfis- og öryggismálum. Margar byggðir út um allt land byggja á hreinleika hafsins og ferðamennsku og því ætti það að vera keppikefli þeirra að flagga fánanum. Landvernd stefnir að því að fjölga handhöfum bláfánans á Íslandi um 4-6 á næstu tveimur árum.

Í sumar flagga einnig hvalaskoðunarskip Eldingar og Sérferða hinni svokölluðu bláfánaveifu. Til að fá bláfánaveifu undirrita rekstraraðilar yfirlýsingu um umhverfismál og þurfa að sýna fram á að því sé fylgt eftir. Fyrirtækin hafa reglur bláfánans til viðmiðunar.

Ert þú í Landvernd?

Taktu afstöðu með náttúrunni og gakktu í Landvernd