Drögum að Náttúruverndaráætlun fagnað

Okkar hlutverk er að vernda einstaka náttúru Íslands, landvernd.is
Stjórn Landverndar fagnar framkomum drögum að tillögu að náttúruverndaráætlun fyrir tímabilið 2004-2008. Áætlunin er metnaðarfull og byggir á vísindalegum grunni. Nái þessi áætlun fram að ganga og komist hún til framkvæmda mun hún styrkja stöðu náttúruverndar á Íslandi.

Afstaða stjórnar Landverndar til draga að náttúruverndaráætlun 2004-2008

Stjórn Landverndar fagnar framkomum drögum að tillögu að náttúruverndaráætlun fyrir tímabilið 2004-2008. Áætlunin er metnaðarfull og byggir á vísindalegum grunni. Nái þessi áætlun fram að ganga og komist hún til framkvæmda mun hún styrkja stöðu náttúruverndar á Íslandi. Þessu til staðfestingar má vísa í áætlunina sjálfa, þar sem segir að miðað við áætlunina muni friðlýst svæði ná yfir um 21% af heildarflatamáli landsins í árslok 2008.

Þó stjórn Landverndar lýsi yfir almennum stuðningi og fagni tillögunni, telur hún skynsamlegt að gerðar verði á henni eftirfarandi viðbætur og breytingar:

Í fyrsta lagi er bæði tímabært og nauðsynlegt að treysta verndun Þjórsárvera. Náttúrufarslegt mikilvægi Þjórsárvera er óumdeilt. Verin hafa afar hátt verndargildi, bæði á landsvísu og alþjóðlega. Það er jafnframt staðreynd að núverandi mörk friðlandsins eru alls ófullnægjandi þar sem þau endurspegla hvorki náttúrufarslega né landfræðileg heild Veranna. Í þeim drögum að náttúruverndar- áætlun sem Umhverfisstofnun kynnti s.l. vor var lagt til að friðlandið yrði stækkað með framangreind sjónarmið að leiðarljósi.

Undanfarin misseri hefur verið litið til veitu í Þjórsárverum sem hagkvæms virkjunarkosts til að mæta eftirspurn eftir orku til álversins í Hvalfirði. Þessi áform um virkjun er tímabært að leggja til hliðar þar sem fram hafa komið upplýsingar um að fyrir hendi séu aðrir og betri kostir til að útvega orku til stækkunar álversins. Að mati stjórnar Landverndar ætti ekki að koma til greina að virkja í Þjórsárverum nema í húfi séu ríkir þjóðarhagsmunir. Þessir hagsmunir eru ekki til staðar. Stjórn Landverndar leggur því til að stækkun friðlandsins í Þjórsárverum verði felld inn í áætlunina.

Í öðru lagi vekur stjórn Landverndar athygli á því að í framlögðum drögum að áætlun eru aðeins tvö svæði sem vernduð eru vegna jarðhita. Jarðminjar á Íslandi eru margar hverjar fágætar eða einstakar á jörðinni. Má þar nefna móbergshryggi, gossprungur, móbergsstapa, dyngjur og íslenskar megineldstöðvar, en margs konar jökulminjar eru annað hvort fágætar á heimsvísu eða sérlega aðgengilegar hérlendis. Því er ástæða til að nota tímann vel á næstu árum til að kanna, flokka og forgangsraða íslenskum jarðminjum með náttúruvernd í huga

Í fyrstu drögum að náttúruverndaráætlun, sem Umhverfisstofnun kynnti s.l. vor, var greint frá hugmyndum um verndun Grændals og Reykjadals og Brennisteinfjalla – Herdísarvíkur. Þessi svæði eru síðustu jarðhitasvæðin í nágrenni við þéttbýlasta hluta landsins sem ekki hefur verið mikið raskað af mannavöldum. Það er fyrirsjáanlegt að þessi svæði verða eftirsótt til mannvirkjagerða af ýmsum toga. Af þessum ástæðum er aðkallandi að vernda þau. Dragist það lengi enn getur það orðið um seinan. Stjórn Landverndar leggur því til að svæðin Grændalur-Reykdalur og Brennisteinsfjöll-Herdísarvík verði færð inn í áætlunina.

Í þriðja lagi telur stjórn Landverndar tímabært að tekið verði tillit til verndunar náttúrlegs landslags og búsetulandslags. Það er alkunna að landslag skiptir miklu máli fyrir upplifun á fegurð náttúrunnar. Landslag á Íslandi kann að vera ein helsta ástæðan fyrir því hve margir ferðmenn sækja landið heim og jafnframt mikilvæg ástæða fyrir ferðalögum Íslendinga í eigin landi.

Landvernd hefur lagt fram hugmyndir um verndun búsetulandslags og komið fram með heildstæðar tillögur um verndun þess í Árneshreppi á Ströndum. Þá hefur undanfarin misseri talsvert verið rætt um verndun búsetulandslags og minjar við Núpstað í Vestur-Skaftafellssýslu. Við gerð rammaáætlunar um nýtingu vatnsafls og jarðvarma hefur faghópur I unnið brautryðjandi starf við þróun aðferða til að bera saman verndargildi landslags. Í þeirri vinnu hafa komið fram upplýsingar um svæði sem virðast hafa mjög hátt verndargildi vegna landslags, m.a. svæðið við Langasjó. Stjórn Landverndar telur því að í náttúruverndaráætlun beri að hafa ákvæði um að á tímabilinu verði mótaðar tillögur um verndun svæða vegna landslags og nái sú vinna bæði til náttúrulegs landslags og búsetulandslags.

Stjórn Landverndar telur mikilvægt að öll þau svæði sem tilgreind eru í fyrstu drögum Umhverfisstofnunar (frá því í maí 2003) fá sérstaka stöðu, ígildi þess að þau séu skráð á náttúruminjaskrá.. Með því má tryggja þeim lágmarks vernd og draga úr líkum á því að þeim verði raskað nema að vel athuguðu máli og einungis ef ríkir hagsmunir séu í húfi.

Að lokum telur stjórn Landverndar ástæðu til að minna á að reynslan sýnir að ekki er nægjanlegt að friðlýsa svæði og vernda. Svo vernd á friðlýstum svæðum sé markviss og árangursrík þarf að ráðstafa til hennar nægjanlegs fjár til að merkja svæðin, til að veita upplýsingar og til að sinna eftirliti. Einnig verða verndunarskilmálar að vera með þeim hætti að ekki sé auðsótt að aflétta vernd þó upp komi áform um framkvæmdir á viðkomandi svæði. Hafa ber í huga að náttúruvernd er byggð með langtímahagsmuni að leiðarljósi en framkvæmdir oft á tíðum vegna stundarhagsmuna.

Ert þú í Landvernd?

Taktu afstöðu með náttúrunni og gakktu í Landvernd