Endurnýjun á Græna lyklinum

Radisson Blu Hótel Saga og Radisson Blu Hótel 1919 hlutu endurnýjun á umhverfisvottuninni Græna lyklinum. Hótelin flögguðu viðurkenningunni fyrst hér á landið árið 2015 og er þetta því þriðja viðurkenningin þeirra. Handhöfum vottunarinnar er skylt að sækja um endurnýjun á hverju ári, skila úrgangstölum, mælingum á rafmagni og vatnsnotkun, tölum um innkaup á vottuðum matvælum og aðgerðaáætlun. Auk þess fá hótelin úttekt á hverju ári.
 
Græni lykillinn (e. Green Key) er alþjóðleg umhverfisvottun fyrir fyrirtæki og rekstraraðila á sviði afþreyingar og þjónustu og er vottunin veitt til hótela og gististaða, ráðstefnuhúsa, veitingastaða, safna, tjaldstæða og skemmtigarða um heim allan. Græni lykillinn hefur verið starfræktur í 20 ár og er ein útbreiddasta alþjóðlega umhverfisviðurkenningin sem snýr að hótelum og gististöðum í heiminum. Græni lykillinn er systurverkefni Grænfána (menntaverkefni í skólum) og Bláfána (umhverfisvottun fyrir smábátahafnir, baðstrendur og sjávarferðamennsku) sem Landvernd hefur rekið á Íslandi síðastliðin 17 ár.
 
Árið 2016 hlutu 2600 staðir viðurkenningu Græna lykilsins í 55 löndum um heim allan. Til þess að hljóta viðurkenninguna verða rekstraraðilar að uppfylla umhverfisskilyrði er lúta að tólf umhverfisþáttum, s.s. vistvænum innkaupum, úrgangsstjórnun, orkusparnaði og umhverfisfræðslu. Græni lykillinn leggur áherslu á að minnka umhverfisáhrif með kerfisbundnum hætti, draga úr rekstrarkostnaði og stuðla að sjálfbærum málefnum.

Tögg
Hotel Saga1.JPG  Hotel Saga2.JPG  Hotel 1919.jpg 

Vista sem PDF