Sveitarstjórnir hvattar til að fresta framkvæmdaleyfi fyrir Suðurnesjalínu 2

Sveitarstjórnir hvattar til að fresta framkvæmdaleyfi fyrir Suðurnesjalínu 2

Landvernd hefur sent sveitarstjórnum Grindavíkur, Hafnarfjarðar, Voga og Reykjanessbæjar bréf þar sem samtökin hvetja þau til að fresta afgreiðslu á umsókn Landsnets um framkvæmdaleyfi til að reisa nýja 220 kílóvolta (kV) Suðurnesjalínu 2 a.m.k. á meðan kærumál eru í gangi.

Landsnet áætlar að leggja nýja Suðurnesjalínu 2 í lofti frá Hamranesi í Hafnarfirði að Rauðamel norðan Svartsengis. Í desember sl. gaf Orkustofnun Landsneti leyfi til að reisa og reka línuna og nýverið leyfði iðnaðarráðherra eignarnám jarða á línuleiðinni, en þeirri ákvörðun ráðherra eru landeigendur nú að skjóta til dómsstóla, samkvæmt heimildum Landverndar.

Náttúruverndarsamtök Suðvesturlands og Landvernd kærðu ofangreinda ákvörðun Orkustofnunar til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála hinn 5. janúar 2014, þar sem þess var krafist að ákvörðunin yrði felld úr gildi. Einnig var þess krafist að Orkustofnun yrði gert að meta flutningsþörf fyrir raforku á umræddri línuleið og krefja framkvæmdaraðila um að líta til fleiri valkosta við kerfisútfærslu línunnar, þ.m.t. til jarðstrengja. Samtökin töldu ekki nægilega vel rökstutt hvers vegna þyrfti raflínu með svo mikilli flutningsgetu, en Landsnet gerði ráð fyrir að ráðist yrði í virkjun allra hugmynda í bæði nýtingarflokki og biðflokki núverandi rammaáætlunar. Það verður að teljast afar óraunhæft mat m.a. með hliðsjón af því að sérfræðingar telja að orkugeta svæðanna sé mjög ofmetin, þ.m.t. í Krýsuvík og Trölladyngju. Ekki hefur verið kveðinn upp úrskurður í málinu. Þá hafa landeigendur í Sveitarfélaginu Vogum kært ákvörðun Orkustofnunnar til dómstóla. Einnig má benda á að Skipulagsstofnun er með til athugunar beiðni um endurupptöku umhverfismats Suðurnesjalínu 2 á grundvelli tækniframfara í jarðstrengjalögnum.

Landvernd vonast til að beðið verði með afgreiðslu framkvæmdaleyfis á meðan að kæru- og dómsmál eru í gangi, enda engan veginn útséð um niðurstöður þeirra. Bréfið í heild sinni og fylgigögn má finna hér að neðan.

Skýrsla um loftlínur og jarðstrengi frá Metsco 2013. 

Ert þú í Landvernd?

Taktu afstöðu með náttúrunni og gakktu í Landvernd