Vistheimtarverkefni Landverndar á suðurlandi

Vistheimtartilraunir voru lagðar út í tveimur Grænfánaskólum á Suðurlandi.

Undirbúningur að fræðsluverkefni Landverndar um vistheimt með grunnskólum á Suðurlandi hófst í fyrra en í síðustu viku voru fyrstu vistheimtartilraunirnar lagðar út í tveimur skólum á Suðurlandi og sá þriðji bætist við síðar í þessari viku.

Landvernd stýrir verkefninu og er það unnið í samstarfi við Landgræðslu ríkisins og þrjá Grænfánaskóla á Suðurlandi, Grunnskólann á Hellu, Hvolsskóla og Þjórsárskóla. Starfsfólk Landverndar og Landgræðslu ríkisins heimsóttu Hvolsskóla og Þjórsárskóla í síðustu viku og hjálpuðu nemendum og kennurum þeirra að skipuleggja tilraunirnar, leggja þær út og koma aðgerðum í rétta reiti. Á meðal aðgerða voru áburðargjöf, kindaskítur, melgresissáning, grasfræ, heyþakning og trjálauf. Í haust verða aðgerðirnar teknar út og árangur tilraunanna mældur og borinn saman við viðmiðunarreiti, þar sem engar aðgerðir fóru fram.

Það var mikið um að vera þessa daga og gleðin og áhuginn hjá krökkunum var smitandi. Verkefninu er ætlað að auka skilning nemenda á ýmsum stórum umhverfismálum með því að vinna með þeim í vistheimt, en vistheimtin tekur á vandamálum tengdum gróður- og jarðvegseyðingu, líffræðilegum fjölbreytileika og loftslagsbreytingum.