Kröflulína 4 stöðvuð til bráðabirgða

Landvernd fagnar ákvörðun úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála um að yfirvofandi lagning 220kV háspennulínu í lofti um Leirhnjúkshraun verði stöðvuð.

Landvernd fagnar ákvörðun úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála um að yfirvofandi lagning 220kV háspennulínu í lofti um Leirhnjúkshraun verði stöðvuð. Framkvæmdir eru óheimilar á meðan nefndin tekur kæru Landverndar og Fjöreggs í Mývatnssveit á framkvæmdaleyfi línunnar til efnislegrar meðferðar. Í niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar felst mikilvæg viðurkenning á stöðu náttúruverndarsvæða gagnvart framkvæmdum, þ.m.t. svæða sem njóta sérstakrar verndar samkvæmt náttúruverndarlögum. Ekki var fallist á kröfu samtakanna um stöðvun framkvæmda við Þeistareykjalínu 1.

Forsaga málsins er sú að Landvernd og Fjöregg kærðu í maí s.l. framkvæmdaleyfi Skútustaðahrepps til lagningar 220kV loftlínu frá Kröflu að Þeistareykjum, Kröflulínu 4. Landsnet er framkvæmdaraðili. Í kærunni byggðu samtökin á því að Leirhnjúkshraun nýtur sérstakrar verndar sem eldhraun samkvæmt náttúruverndarlögum. Samtökin byggðu einnig á því að friðlýsa ber hraunið samkvæmt lögum um verndun Mývatns og Laxár, en friðlýsingu er enn ekki lokið. Þá taldi Umhverfisstofnun í umsögn um umhverfismat háspennulína frá Kröflu að Bakka árið 2010 að loftlína myndi hafa talsverð neikvæð og óafturkræf áhrif á Leirhnjúkshraun og veruleg neikvæð áhrif á landslagsheild svæðisins.

Fyrir meira en ári síðan, í mars 2015, fóru Landvernd og Fjöregg fram á að umhverfismat Kröflulínu 4 færi fram að nýju, að öllu leyti eða hluta, þar sem mun minni raforkuþörf væri á iðnaðarsvæðinu á Bakka við Húsavík eftir að áform um álver á Bakka voru slegin af. Forsendur eldra umhverfismats væru brostnar. Landsneti var í lófa lagið að láta slíkt mat fara fram, eftir að forsendur breyttust endanlega árið 2012 þegar Alcoa féll frá álversáformum sínum. Við hinar breyttu aðstæður á Bakka opnuðust möguleikar á minni og umhverfisvænni mannvirkjum, ekki síst jarðstrengjum sem ekki fari um hraun. Ekkert mat hefur enn verið lagt á umhverfisáhrif jarðstrengja og mögulegar lagnaleiðir þeirra. Að mati Landverndar styðja nýgengnir dómar Hæstaréttar í eignarnámsmálum á Suðurnesjum vegna lagningu Suðurnesjalínu 2 enn frekar kröfu samtakanna vegna Kröflulínu 4. Hæstiréttur ógilti með dómunum eignarnámsákvarðanir ráðherra þar sem Landsnet lét ekki við undirbúning framkvæmdanna fara fram sérstaka athugun á þeim möguleika að leggja jarðstreng vegna línunnar og kannaði meðal annars ekki hvar slíkur strengur gæti legið eða hver yrðu umhverfisáhrif hans.

Úrskurði nefndarinnar frá 30. júní 2016 má finna í viðhengi með þessari fréttatilkynningu, annarsvegar um framkvæmdaleyfi Skútustaðahrepps (Kröflulína 4) og hinsvegar framkvæmdaleyfi Norðurþings (Þeistareykjalína 1).

Bráðabirgðaúrskurður um Þeistareykjalínu

Bráðabirgðaúrskurður um Kröflulínu

Ert þú í Landvernd?

Taktu afstöðu með náttúrunni og gakktu í Landvernd