Hætt verði við Bjarnarflagsvirkjun

Lífríki Mývatns og Laxár er einstakt og ber að vernda, landvernd.is
Aðalfundur Landverndar ályktaði að hætta ætti við Bjarnarflagsvirkjun í Mývatnssveit.

Aðalfundur Landverndar, haldinn 13. apríl 2013, ályktaði að hætta ætti við Bjarnarflagsvirkjun í Mývatnssveit:

Aðalfundur Landverndar hvetur stjórn Landsvirkjunar og sveitarstjórn Skútustaðahrepps til að hlífa lífríki Mývatns við auknu álagi sem óhjákvæmilega mun fylgja fyrirhugaðri Bjarnarflagsvirkjun við Mývatn. Það verður einungis gert með ákvörðun um að hætta við byggingu virkjunarinnar fyrir fullt og allt.


Umhverfisstofnun hefur sett Mývatn á rauðan lista yfir svæði sem eru talin í verulegri hættu á að tapa verndargildi sínu. Í yfirlitsskýrslu Umhverfisstofnunar segir m.a. um ógnir sem steðja að Mývatni: ,,Áform eru um að virkja í Bjarnarflagi og óvissa ríkir um áhrif virkjanaframkvæmda á vistkerfi Mývatns.’

Þá hvetur aðalfundur Landverndar verkefnisstjórn 3. áfanga rammaáætlunar og Alþingi til að endurskoða flokkun Bjarnarflags í rammaáætlun, þannig að svæðið færist að minnsta kosti í biðflokk á meðan möguleg áhrif Bjarnarflagsvirkjunar á lífríki Mývatns eru rannsökuð. Alþingi er einnig hvatt til að lögleiða að nýju vernd Mývatns- og Laxársvæðisins sem var afnumin með lögum nr. 97/2004.
Minnt er á að einstakt lífríki Mývatns skapar því sérstöðu á heimsvísu. Þess vegna segir í verndaráætlun fyrir Mývatn og Laxá að það sé skylda núlifandi kynslóðar að varðveita sérstöðu svæðisins og þar með að tryggja komandi kynslóðum sama aðgengi og svipaða upplifun og við getum notið nú í dag.’

Lesa áskorun Landverndar

Ert þú í Landvernd?

Taktu afstöðu með náttúrunni og gakktu í Landvernd