IUCN-þing markar stefnuna fyrir áherslur í náttúruvernd

Fremrinámar, eru í hættu vegna virkjan, stöðvum eyðileggingu lands fyrir stóriðju, ljósmyndari: Jens Bachmann, landvernd.is
Um 5.000 fulltrúar sóttu þing Alþjóðanáttúrverndarsamtakanna sem haldið var í Bangkok dagana 17. til 25. nóvember 2005. Á þinginu var fjallað um rúmlega 100 ályktanir sem snerta verndun náttúru og líffræðilegs fjölbreytileika. Í þessum ályktunum er að finna stefnumörkun fyrir náttúruvernd á næstu árum.

Hafið helsta uppspretta líffræðilegrar fjölbreytni
Á þingi Alþjóðanáttúrverndarsamtakanna (IUCN) var mikið fjallað um mikilvægi lífríkis hafsins. Í hafinu er stærri hluti af líffræðilegri fjölbreytni Jarðar en menn hafa áður gert sér gerin fyrir. Talið er að vikulega uppgötvist að jafnaði um tvær nýjar tegundir í hafinu sem áður voru óþekktar. Mikið var rætt um verndarsvæði í hafinu og leiðir til að koma í veg fyrir að þessari auðlind verði spillt.

Innflutningur á afurðum sela verði ekki bannaður
Þing Alþjóðanáttúrverndarsamtakanna samþykkti tillögu þess efnis að sjálfbær nýting verði höfð að leiðarljósi við selveiðar og að ekki verði settar takmarkanir á viðskipti með afurðir sela ef veiðar þeirra eru sjálfbærar. Þetta eru mikilvæg skilaboð til selveiðimanna sem lengi hafa litið svo á að náttúruverndarsamtök ógnuðu afkomu þeirra með körfum um friðun og bann við viðskiptum.

Stórar stíflur og bankar
Þingið samþykkt tillögu þess efnis að bankar og þróunarstofnanir veiti ekki fjárhagslega aðstoð við uppbyggingu á stíflum í vatnsföllum nema að undangenginni ítarlegri athugun á því hvaða afleiðingar þær hafi fyrir umhverfi og samfélag og að unnið sé í samræmi við leiðbeiningar sem World Commission on Dams hefur samþykkt.

Fátækt og náttúruvernd
Meirihluti Jarðarbúa býr í löndum þar sem fátækt er landlæg. Oft á á tíðum er náttúruvernd og fátækt stillt upp sem andstæðum. Sagt er að náttúruvernd dragi úr möguleikum fólks til að skapa sér gott lífsviðurværi. Innan IUCN hefur mikið verið unnið að því að þróa reglur og viðmið sem geri kleift að nýta náttúruvernd til að bæta lífsafkomu.

Lífstíll og mannfjölgun ógna
Lífstíll og vaxandi mannfjöldi er talin ein helsta ástæðan fyrir því að sífellt gengur á náttúrulega arfleið Jarðar. Ef ekki tekst að draga úr fólksfjölgun og stuðla að sjálfbærri neyslu og framleiðslu verður sífellt erfiðara að taka frá svæði þar sem náttúran fær að þróast á eigin forsendum. Innan IUCN er lögð áherlsa á að sýna hvaða þjónustu vernduð svæði veita manninum. Sú þjónusta er oft ekki sýnileg, s.s. hreinna andrúmsloft og aðgangur að hreinu vatni. Manninum hættir til að einblína á beina nýtingu náttúrunnar en gleymir því að náttúran veitir honum óbein not með ýmsum hætti og þau not eru oft best tryggð með verndun og friðun svæða.

Of stór fótspor

Friður og umhverfisvernd
Á þinginu koma fram að umhverfisvernd getur verið forsenda friðar í heiminum. Eyðing náttúru og umhverfis dregur úr getu íbúa til að finna sér gott lífsviðurværi og við það skapast spenna sem getur leitt til ófriðar. Ástandið í Súdan er talið eiga rætur að rekja til þess að langvarandi þurrkar og ósjálfbær landnýting hafa eytt gróðurlendi og þar með breytast forsendur til búsetu til hins verra. Við þær aðstæður leysast úr læðingi deilur þjóða- og trúarhópa sem geta enda með vopnuðum átökum.

Ert þú í Landvernd?

Taktu afstöðu með náttúrunni og gakktu í Landvernd