Nýting jarðhita. Eru ráðgjafar á hálum ís?

Kristján Jónasson og Sigmundur Einarsson jarðfræðingar fluttu erindið „Nýting jarðhita – Eru ráðgjafar á hálum ís?“ þar sem þeir gagnrýndu forsendur og vinnubrögð við ráðgjöf í jarðhitanýtingu á síðustu árum.

Á haustráðstefnu Jarðfræðafélags Íslands, 23. nóv. sl., flutti Kristján Jónasson jarðfræðingur erindið „Nýting jarðhita – Eru ráðgjafar á hálum ís?„ Höfundur ásamt Kristjáni er Sigmundur Einarsson jarðfræðingur.

Í erindinu gagnrýndu höfundar ýmsar yfirlýsingar íslenskra jarðhitaráðgjafa þar sem látið hefur verið í veðri vaka að gríðarlegar orkulindir séu fólgnar í háhitasvæðum landsins. Vísað var til kynninga á svonefndum djúpborunum þar sem væntingar voru gefnar um margföldun jarðhitavinnslu í náinni framtíð. Einnig var vísað til óraunhæfra yfirlýsinga um gnótt orku sem ekki verður unnin með þekktum aðferðum.

Þá voru gerðar athugasemdir við þau vinnubrögð að telja jarðvarmaorku til endurnýjanlegra orkulinda og vinnslu þeirra sjálfbæra. Í nýlegri skýrslu er nýting jarðhita skilgreind sem sjálfbær ef hægt er að halda sama vinnslustigi í a.m.k. 100 ár. Samkvæmt því teldist nýting skógarauðlindarinnar á fyrstu öldum Íslandsbyggðar sjálfbær. Slíkt sé einfaldlega ekki í samræmi við raunveruleikann og andstætt þeim skilgreiningum sem kynntar eru m.a. á grunnskólastigi.

Að lokum var gagnrýnd kynning Landsvirkjunar á hugsanlegri þróun raforkuvinnslu á næsta áratug í tengslum við mögulegan sæstreng til Evrópu. Þar er gert ráð fyrir að á næstu 9 árum verði reistar hér vatnsafls- og jarðvarmavirkjanir sem framleiða muni um þrefalda orkuframleiðslu Kárahnjúkavirkjunar og að á sama tíma komi til framkvæmda allar helstu stóriðjuhugmyndir sem verið hafa til umfjöllunar á síðustu árum ásamt sæstreng til Evrópu og tilheyrandi flutningskerfi fyrir raforkuna. Höfundar töldu þessar hugmyndir með öllu óraunhæfar. Þá mætti spyrja hvernig þær samræmist yfirlýsingum Landsvirkjunar um að fyrirtækið hyggist fara hægt í frekari nýtingu á jarðvarma.

Framangreind vinnubrögð telja þeir Kristján og Sigmundur snúast um sölumennsku og jafnvel pólitíska misnotkun fagþekkingar. Gerður var góður rómur að erindinu, en það má finna hér að neðan.

Skoða kynninguna Nýting Jarðita – Eru ráðgjafar á hálum ís? Sigmundur Einarsson og Kristján Jónasson. 

Ert þú í Landvernd?

Taktu afstöðu með náttúrunni og gakktu í Landvernd