Landvernd fagnar kaupum á Felli

Landvernd fagnar kaupum ríkisins á Felli við Jökulsárlón og hvetur nýja ríkisstjórn til að leggja Breiðamerkursand og Jökulsárlón undir Vatnajökulsþjóðgarð.

Landvernd fagnar því að ríkissjóður hafi fest kaup á jörðinni Felli við Jökulsárlón. Að mati samtakanna hefur ríkisstjórnin með þessu stigið mikilvægt skref í náttúruvernd og gefið þjóðinni afar viðeigandi gjöf á síðasta starfsdegi sínum. Samtökin hvetja nýja ríkisstjórn til að taka þessa ákvörðun skrefi lengra og gera Jökulsárlón og Breiðamerkursand að hluta Vatnajökulsþjóðgarðs.

Árið 2015 skoraði aðalfundur Landverndar á stjórnvöld, ríkisstjórn og Alþingi að vernda Jökulsárlón á Breiðamerkursandi og Breiðamerkursand í heild sinni. Hvatt var til þess að svæðið yrði hluti af Vatnajökulsþjóðgarði. Þá sagði í ályktuninni að mikilvægt væri að stuðla að og veita fjármagni í rannsóknir á einstöku lífríki Jökulsárlóns, vakta og vernda sandana sem umlykja lónið og nærsvæði þess.

ólíkt öðrum íslenskum jökullónum er Jökulsárlón kvikt af lífi og ræður þar einna mestu nálægðin við hafið. Náttúrufarsaðstæður eru mjög sérstæðar og má vænta þess að þær endurspeglist í tegundasamsetningu lífvera og þróun vistkerfa, bæði í lóninu sjálfu og næsta nágrenni þess. Rannsóknir á þessu merkilega heimskautalífríki eru skammt á veg komnar og lónið því að mestu óplægður akur sem rannsóknavettvangur. Þá eru Jökulsárlón og Breiðamerkursandur með bestu stöðum til að rannsaka jökla og kelfingu þeirra, jöklasögu og landmótun jökla.

Jökulsárlón er fjölmennasti ferðamannastaður á landsbyggðinni, á eftir Gullfossi, Geysi og Þjóðgarðinum á Þingvöllum. Það hefur verið á náttúruminjaskrá frá árinu 1974. Með því að lónið og Breiðamerkursandur yrðu hluti af Vatnajökulsþjóðgarði væru komnar betri forsendur til þess að hafa þar landvörslu á heilsársgrundvelli, vernda og vakta svæðið og fræða og mennta gesti um einstaka náttúru þess.

Ert þú í Landvernd?

Taktu afstöðu með náttúrunni og gakktu í Landvernd