Fréttir

Norræn strandhreinsun þann 5. maí 2018

Margrét  Hugadóttir    14.3.2018
Margrét Hugadóttir

Norðurlöndin taka höndum saman annað árið í röð, og skipuleggja strandhreinsanir þann 5. maí 2018, enda ekki vanþörf á. Í fyrra var áhersla lögð á strandhreinsanir á Snæfellsnesinu en í ár verður fókusinn settur á Reykjanesið og Landvernd heldur áfram góðu samstarfi við Bláa herinn. Landvernd hvetur þó fólk um allt land til að taka þátt í Hreinsum Ísland átakinu og skipuleggja sína eigin strandhreinsanir vikuna 25. apríl - 6. maí. Skráðu þína strandhreinsun hér.

Af hverju hafa áhyggjur af plasti?

Árlega notar hver Íslendingur að meðaltali 40 kíló af plastumbúðum á ári. Þá eru ekki með taldir hlutir úr plasti sem notaðir eru eins og leikföng, raftæki, húsgögn leirtau og fleira. Alls eru þetta um 13.000 tonn árlega. Sem jafngildir 13.000 Yaris bifreiðum, eða 112 stútfullum Boeing 757-200 flugvélum! Af þessum 13.000 tonnum skilast aðeins 25% í endurvinnslu (þar með taldar allar endurgjaldsskyldar drykkjarumbúðir) eða rúmlega 10 kg/íbúa. Það þýðir að 9.750 tonn af plastumbúðum eru urðuð á ári. Urðun merkir að ruslinu er þjappað saman í bagga og hann grafinn í jörðu. Þar heldur svo plastið að vera til um ókomna tíð enda brotnar það aðeins niður í smærri einingar, örplast en eyðist ekki. Plast sem fer ekki réttar leiðir til endurvinnslu eða förgunar lendir oft úti í náttúrunni (höfum, ám og vötnum) þar sem það getur valdið skaða á lífríki náttúrunnar. Hluti plasts er létt efni og flýtur sem gerir það að verkum að það getur borist um hundruði kílómetra og valdið þannig skaða langt frá upprunastað sínum. Það er því mikils að vinna með því að endurvinna plast og minnka notkun á plasti.

Talið er að um milljón sjófuglar og 100 þúsund sjávarspendýr og skjaldbökur drepist árlega vegna þess að þau festast í eða éta plast. Risastórir plastflákar finnast í heimshöfunum og plast safnast þar saman vegna hafstrauma. Plastið í sjónum er því mikið til hlutir eins og einnota umbúðir, plasthnífapör, plastflöskur, plastpokar, föt, sogrör, tannburstar og leikföng. Þessir hlutir brotna svo niður í smærri agnir sem kallast örplast og skapa enn meiri hættu fyrir lífríkið. Hér áður fyrr var oft sagt „lengi tekur sjórinn við“ en nú er jafnvel talið að það verði meira af plasti en fiski í sjónum árið 2050.

Project Image

Hvað getur þú gert?

Taktu þátt í strandhreinsun á Reykjanesinu þann 5. maí eða skráðu þína eigin strandhreinsun í vikunni 25. apríl - 6. maí 2018.

Skrá mína hreinsun

Tögg

Vista sem PDF

 

Stöndum vörð um náttúru Íslands

Taktu afstöðu og vertu með!

Leita í fréttumÞátttaka í ákvarðanatöku

Mynd/Mannvit
Nýtt framkvæmdaleyfi Brúarvirkjunar kært og krafist stöðvunar framkvæmda
Samtökin telja að málsmeðferð Bláskógabyggðar við veitingu nýs framkvæmdaleyfis sé andstæð lögum og að á henni séu bæði form- og efnisannmarkar sem eigi að leiða til ógildingar. Krafa samtakanna um stöðvun framkvæmda byggir m.a. á frétt í Morgunblaðinu frá í gær (26. mars 2018) um að byrjað verði að setja niður vinnubúðir á virkjunarstað í þessari viku og að strax eftir páska muni starfsmenn Ístaks hefjast handa um framkvæmdir.