Ráðherra tryggi fjárveitingar til friðlýsinga í virkjana- og verndaráætlun

Hágöngur og Skrokkalda, Landvernd hefur sett fram kröfu um að hálendinu – hjarta landsins – verði hlíft við frekara raski. landvernd.is
Landvernd fagnar því að umhverfisráðherra ætli ekki að leggja fram breytingar á virkjana- og verndaráætlun (rammaáætlun) á yfirstandandi þingi, en gagnrýnir fjársvelti til friðlýsinga í verndarflokki.

Stjórn Landverndar skorar á umhverfis- og auðlindaráðherra að tryggja fjármagn til friðlýsinga svæða í verndarflokki núgildandi virkjana- og verndaráætlunar (rammaáætlunar) sem samþykkt var á Alþingi í janúar 2013. Þrátt fyrir að rúm tvö og hálft ár séu nú liðin frá samþykktinni hefur ekki eitt einasta svæði í verndarflokki  enn verið friðlýst. Landvernd bendir á að samkvæmt lögum um áætlunina þá ber stjórnvöldum þegar í stað að hefja undirbúning að friðlýsingu svæða sem lenda í verndarflokki eftir að ætlunin hefur verið samþykkt á Alþingi.

Umhverfisstofnun sinnir friðlýsingum. Í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2014 var fellt niður framlag til stofnunarinnar til friðlýsinga svæða í verndarflokknum. Ekkert frekara framlag hefur borist stofnuninni á kjörtímabilinu til þessara verka og engar breytingar á því boðaðar í nýframkomnu fjárlagafrumvarpi. Að mati Landverndar verða stjórnvöld að standa við skuldbindingar sínar þegar kemur að friðlýsingu svæða í virkjana- og verndaráætlun. Stjórn Landverndar skorar á ráðherra og alþingismenn að auka fjárframlög til friðlýsinga í verndarflokki áætlunarinnar svo framfylgja megi lögum og skapa meiri sátt um virkjanamál á Íslandi. 

Stjórn Landverndar fagnar jafnframt því að umhverfis- og auðlindaráðherra ætli ekki að leggja fram breytingar á virkjana- og verndaráætlun á yfirstandandi þingi, heldur leyfa faghópum og verkefnisstjórn áætlunarinnar að vinna í friði. Stjórn Landverndar hvetur þingmenn til að fylgja fordæmi ráðherra.

Ert þú í Landvernd?

Taktu afstöðu með náttúrunni og gakktu í Landvernd