Varðliðar umhverfisins árið 2016

Nemendur í Grunnskóla Borgarfjarðar eystri hlutu útnefninguna Varðliðar umhverfisins árið 2016! Verðlaunin fá þau fyrir ljósmyndaverkefni sem allir nemendur skólans, í 3. – 10. bekk, unnu sameiginlega í tveggja daga gönguferð um Loðmundarfjörð.

Nemendur í Grunnskóla Borgarfjarðar eystri hlutu útnefninguna Varðliðar umhverfisins árið 2016! Verðlaunin fá þau fyrir ljósmyndaverkefni sem allir nemendur skólans, í 3. – 10. bekk, unnu sameiginlega í tveggja daga gönguferð um Loðmundarfjörð. Nemendum var skipt í hópa þvert á árganga og átti hver hópur að finna myndefni í náttúrunni sem tengdist níu hugtökum sem nemendur og kennarar ákváðu í sameiningu. Sem dæmi um hugtök má nefna gleði, frelsi, orka, kyrrð, auðlind og samspil manns og náttúru. Nemendur unnu myndirnar síðan í tölvu og útbjuggu myndasýningu sem kynnt var fyrir öðrum nemendum skólans.

Valnefnd þótti verkefnið frumlegt og taka á umhverfismálum með óhefðbundnum hætti, þar sem markmiðið var öðru fremur að nemendur fengju að upplifa og njóta þeirrar vellíðunar sem fylgir því að vera úti í náttúrunni. Verkefnið einkenndist jafnframt af samvinnu þvert á aldurshópa en samvinna ólíkra aðila er einmitt mikilvægur hluti af sjálfbærnimenntun. Nemendurnir lögðu mikið á sig við úrvinnslu verkefnisins þar sem þeir gengu um 17 kílómetra leið frá Húsavíkurheiði inn Loðmundafjörð og tókust þannig á við umhverfið og náttúruna um leið og þeir öðluðust dýpri skilning á þeim hugtökum sem verkefnið spannaði.

Fjórir nemendur í 9. bekk Dalvíkurskóla hlutu einnig einstaklingsviðurkenningu, þeir Helgi Halldórsson, Ragnar Freyr Jónasson, Sveinn Margeir Hauksson og Viktor Hugi Júlíusson. Viðurkenninguna fá þeir fyrir rapplagið Ekki menga! sem þeir sömdu í náttúrufræði og gerðu myndband við. Rapplagið hefur jafnframt verið valið sem umhverfissáttmáli skólans. Skilaboðin í myndbandinu eru skýr, við þurfum að hætta að menga til að eyðileggja ekki vistkerfi og umhverfi.

Viðurkenningarnar voru afhentar á hátíðarathöfn sem haldin var í dag á Degi umhverfisins þann 25. apríl í Listasafni Sigurjóns. Landvernd óskar viðurkenningarhöfum innilega til hamingju!

Ert þú í Landvernd?

Taktu afstöðu með náttúrunni og gakktu í Landvernd