Áskorun á Alþingi Íslendinga vegna Bakkalína

Höfnum lagafrumvarpi sem leyfir byggingu háspennulína frá Kröflu að Bakka!

Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála fjallar nú um lögmæti framkvæmda við háspennulínur frá Kröflu að Bakka. Landvernd og Fjöregg í Mývatnssveit kærðu framkvæmdaleyfi sveitarfélaga fyrir lagningu raflína til nefndarinnar. Hlutverk nefndarinnar er að úrskurða í kærumálum vegna ákvarðana stjórnvalda. Lögum samkvæmt á úrskurðarnefndin að vera sjálfstæð í störfum sínum.

Um mikil náttúruverndarverðmæti er að ræða á línuleiðinni, sem liggur um víðerni, svæði á náttúruminjaskrá og nútímahraun sem njóta sérstakrar verndar samkvæmt náttúruverndarlögum. Framkvæmdir voru stöðvaðar á hluta leiðarinnar í sumar vegna kæru samtakanna á meðan úrskurðarnefndin lýkur störfum.

Frumvarpið sem ríkisstjórn Íslands hefur nú lagt fyrir Alþingi myndi leyfa framkvæmdirnar og gera að engu kærur Landverndar og Fjöreggs. Þetta felur í sér grafalvarleg pólitísk afskipti framkvæmdavaldsins af störfum óháðrar úrskurðarnefndar. Spyrja má hvort stjórnvöld myndu grípa inn í störf dómstóla með sama hætti. Þessi gjörningur er aðför að réttarkerfinu, þrískiptingu valds og réttlátri málsmeðferð. Það er skýlaus réttur fólks að geta borið ákvarðanir stjórnvalda undir sjálfstæðan og óháðan aðila og fá úrskurð um lögmæti ákvarðana, í þessu tilviku úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Um er að ræða mannréttindi sem tryggð eru með Árósasamningnum og EES-samningnum þegar um umhverfisvernd er að tefla.

Hugmyndum Landverndar og Fjöreggs um náttúruvænni leiðir fyrir raflínur á svæðinu sem ekki liggja yfir viðkvæm hraun hefur óðara verið hafnað án raunverulegrar skoðunar. Það hefur verið gert á þeim forsendum að útfærsla þeirra taki of langan tíma.

Senda áskorun: Ég skora á alþingismenn að hafna lagafrumvarpi sem leyfir byggingu háspennulína frá Kröflu að Bakka!

Ert þú í Landvernd?

Taktu afstöðu með náttúrunni og gakktu í Landvernd