Leita

utanvegaaksturUtanvegaakstur í hlíðum Hverfjalls

Landverðir við eftirlit í Mývatnssveit komu að ljótum utanvegaakstri í hlíðum Hverfjalls eða Hverfells síðastliðinn fimmtudag. Athæfið verður ekki skrifað á holótta vegi.

Continue Reading→

Málþing um miðhálendið 16. maí

Þann 16. maí næstkomandi munu Landvernd og Náttúruverndarsamtök Íslands standa fyrir málþingi um miðhálendið. Miðhálendi landsins hefur verið töluvert í umræðunni síðustu misseri. Sú umræða hefur meðal annars átt sér stað í tengslum við hinar ýmsu framkvæmdir sem fyrirhugaðar eru á hálendinu og hvernig þær myndu hafa neikvæð áhrif á einstaka náttúru svæðisins og mikilvægi þess fyrir útivist og ferðaþjónustu.Markmið málþingsins er að vekja athygli á virði miðhálendisins frá ýmsum hliðum, ræða mikilvægi þess að vernda svæðið sem eina heild, og hvernig þá vernd megi tryggja.Málþingið fer fram í ráðstefnusal Laugardalshallar (Engjavegi 8) og hefst klukkan 10:30. Dagskrá: Fyrri hluti Hvers vegna að vernda miðhálendið - Hvað er í húfi? Þóra Ellen Þórhallsdóttir, prófessor í grasafræði - Náttúrufarslegt virði/gildi hálenisins Sigurður Jóhannesson, hagfræðingur á Hagfræðistofnun HÍ - Hagfræðilegt gildi hálendisins - Er hægt að meta það? Helga Árnadóttir, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar - Hvaða hagsmuni hefur ferðaþjónustan af verndun hálendisins? Þórunn Eyfjörð, formaður Útivistar - Mikilvægi óraskaðs hálendis fyrir útivistarfólk Páll Líndal, doktor í umhverfissálfræði - Hvers virði er náttúra hálendisins fyrir heilsu og vellíðan? Hádegismatur Seinni hluti Hvernig tryggjum við verndun miðhálendisins Sýn sveitarstjórnarmannsins á vernd hálendisins - óstaðfest Ásdís Hlökk Theodórsdóttir, forstjóri Skipulagsstofnunar - Skipulagsmál miðhálendisins Dr. Peter Prokosch - Linking tourism to conservation Edward Huijbens, sérfræðingur hjá Rannsóknarmiðstöð ferðamála - Stýring ferðamanna á hálendi Íslands Kaffihlé Umræður Í lok fyrirlestra er stefnt að því að efna til umræðna meðal málþingsgesta um hvernig tryggja eigi vernd miðhálendisins. Skipulegar umræður munu eiga sér stað þar sem þátttakendur verða beðnir að koma skoðunum sínum á framfæri. Þær verða svo dregnar saman í lok málþingsins.

Continue Reading→

Drög að breytingum á lögum um náttúruvernd til kynningar

Umhverfis- og auðlindaráðuneytið leggur fram til kynningar drög að frumvarpi til breytinga á lögum um náttúruvernd. Markmiðið með endurskoðun laganna er að skýra betur framkvæmd þeirra og ná fram betri samstöðu um efni þeirra. Unnið var að endurskoðuninni með nefndarálit umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis að leiðarljósi.Lög nr. 60/2013, um náttúruvernd, voru samþykkt á Alþingi 28. mars 2013 og áttu að taka gildi 1. apríl 2014. Þáverandi umhverfis- og auðlindaráðherra lagði fram á haustþingi 2013 frumvarp til laga þar sem gert var ráð fyrir að þau yrðu endurskoðuð frá grunni. Umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis skilaði nefndaráliti 19. febrúar 2014 þar sem hún, að höfðu samráði við umhverfis- og auðlindaráðherra, lagði til að í stað þess að fella lögin úr gildi yrði gildistöku þeirra frestað til 1. júlí 2015 og umhverfis- og auðlindaráðherra falið að endurskoða lögin og gera nauðsynlegar breytingar.Í nefndarálitinu kemur m.a. fram að „þótt einstakir þættir laga nr. 60/2013 séu umdeildir telja allmargir að ávinningur felist í þeirri vinnu sem lögð hefur verið í heildarendurskoðun laganna.“  Komst nefndin að samkomulagi um að leggja áherslu á endurskoðun tiltekinna ákvæða laganna.  Byggja skyldi á fyrirliggjandi vinnu og þeirri heildarhugmyndafræði sem lá að baki með það að markmiði að ná aukinni samstöðu um lokaniðurstöðu.Í álitinu vísaði umhverfis- og samgöngunefnd til þess að þeir þættir laganna sem hefðu komið til sérstakrar skoðunar varði a) ákvæði um varúðarregluna b) kaflann um almannarétt, c) kaflann um utanvegaakstur og kortagrunn, d) ákvæði um sérstaka vernd og e) kaflann um framandi lífverur.  Nefndin bendir einnig á að „vera kunni að ýmislegt fleira þurfi að athuga betur“ og „að reynt verði að ná samstöðu um lögin með breytingartillögum eða samkomulagi um útfærslu sem þörf þykir vera á“.Umhverfis- og auðlindaráðuneytið hefur unnið að endurskoðun laganna með þessi meginsjónarmið að leiðarljósi.  Hefur ráðuneytið haft samráð við fjöldamarga aðila við endurskoðunina og hefur jafnframt átt fundi með umhverfis- og samgöngunefnd í upplýsingaskyni.Ráðuneytið kynnir hér drög að endurskoðuðu frumvarpi til laga um náttúruvernd, þar sem leitast hefur verið við að skýra framkvæmd laganna og vinna með þær ábendingar og athugasemdir sem komið hafa fram.Athugasemdir og ábendingar um frumvarpið skulu sendar á netfangið postur@uar.is eða í bréfpósti, á umhverfis- og auðlindaráðuneytið, Skuggasundi 1, 101 Reykjavík, eigi síðar en 21. mars nk. Word-skjal með breytingum sýnilegum Nefndarálit umhverfis- og samgöngunefndar frá 19. febrúar 2014.

Continue Reading→

Með náttúrunni – Ómar Ragnarsson í eldlínunni - 4. þáttur

Komið þið sælir kæru náttúruunnendur! Ómar Ragnarsson skemmtikraft, fréttamann, rithöfund, flugmann, lagasmið og kvikmyndagerðamann þarf ekki að kynna fyrir þjóðinni. Hann sagði upp störfum á fréttastofu Ríkisútvarpsins árið 2006 vegna stöðugra ásakanna um hlutdrægni í fréttaflutningi af Kárahnjúkamálinu. Síðan hefur hann helgað líf sitt baráttunni fyrir náttúruvernd og verið óþreytandi á því sviði. Að kvöldi 26. september 2006  leiddi Ómar ríflega 10 þúsund manns í mótmælagöngu niður Laugaveginn gegn stóriðjustefnu ríkisstjórnarinnar. Í kosningum Rásar 2 og Stöðvar 2 um mann ársins sama ár varð Ómar hlutskarpastur. Hann ferðaðist til Bandaríkjanna Noregs og víðar til að kynna sér þjóðgarða og skipan náttúrverndarmála og heimsótti 28 þjóðgarða og 18 virkjanasvæði. Hann hefur gert fjölmarga þætti og myndir um náttúruvernd, meðal annars myndina In merorian um Kárahnjúka og svæðið fyrir norðan Vatnajökul. Ómar tók þátt í baráttunni um verndun Gálgahrauns og vakti það þjóðarathygli þegar hann var borinn út í lögreglubíl vegna mótmælasetu sinnar þar. Ómar er í eldlínunni þessar vikurnar og segir frá áhrifavöldum í lífi sínu og augnablikum sem skiptu sköpum fyrir hann. Honum er mikið niðri fyrir þegar hann fjallar um handtökuna í Gálgahrauni. Hann segir frá ferðum í þjóðgarða erlendis. Hann segir frá uppblæstri og ástandinu á Kárahnjúkasvæðinu í dag en hann er þar mikið á ferðinni. Hér talar hann um græðgina, ofnýtingu jarðvarmans, sæstreng og nýtt hrunæði og veg og línu yfir Sprengisand. Hlusta á viðtalið. Útdráttur úr viðtalinu Orkufrekur iðanaður og fullnýting orkunnar á Íslandi Ofnýting jarðvarmanns á HellisheiðiKárahnjúkavirkjun var alveg ótrúlegt fyrirbrigði og við lærðum ekkert af henni segir Ómar. Varðandi  Hellisheiðarvirkjun kemur í ljós að öll loforðin þar voru merkingarlaus. Hún átti að vera hagkvæm og orkan átti að vera hrein og endurnýjanleg. Það átti að vera tækni sem hreinsaði loftið og það var aldrei minnst á manngerða jarskjáfta. Það er ekki búið að leysa neitt af þessum vandamálum og það er alltaf verið að biðja um fresti og framlengingar varðandi lausnir þeirra. Varðandi Gálgahraun var það svipað eða verra því menn trúðu líklega sumu af því sem þeir settu fram varðandi Hellisheiði. Kannski hafa ráðamenn sem stóðu fyrir Gálgahraunsveginum trúað einhverju sjálfir en þá var það áunnin vanþekking. Enn er haldið áfram varðandi blekkingar um endurnýjanlega orku. Verst er að allar jarðvarmavirkjanir sem settar hafa verið í nýtingarflokk verða nýttar og má gera ráð fyrir að þær endist í 50 ár.  Bragi Árnason gerði merkilega tilraun á Hellisheiðar- og Nesjavallasvæðinu sem ekki er talað um. Niðurstaða hans var að til þess að hægt væri að nýta svæðið á sjálfbæran hátt mættum við ekki nýta nema einn þriðja af þeirri orku sem hægt er að fá á 50 árum. Næstu 50 ár væri hægt að nýta annan þriðja hlutann og þegar komið væri hringinn mætti byrja aftur á fyrsta hlutanum. Það ætti að vera svona áættlun fyrir allt Ísland. Fegurstu orðin eru „orkufrekur iðanður“Ólafur Flóvens og Guðni Axelsson skrifuðu grein í Morgunblaðið og sögðu að til að hægt væri að nýta jarðvarmaorku á sjálfbæran hátt yrði að byrja mjög smátt og fara rólega af stað, sjá hver þróunin yrði og nýta aldrei meira en svo að fyrirsjáanlegt væri að þetta væri sjálfbær orka. Ef slíkt hefði verið gert þá væri Hellisheiðarvirkjun aðeins 60 megavött eins og á Nesjavöllum, ekki 303 megavött til að hægt sé að gera bindandi orkusamning við álver sem mun pumpa þessu upp á 50 árum. Orkan er þegar farin að dvína og því þarf að fara í Hverahlíð og áfram. Rammaáætlun er ónýt því það er farið af stað og lofað að hin og þessi svæði séu í biðflokki þó fyrirséð sé að þau muni lenda í nýtingarflokki og Reykjanesskagi verður einn samfelldur ruslahaugur. Komandi kynslóðir verða að halda áfram á sömu braut og við, þeim er stillt upp við vegg og munu ganga á rétt komandi kynslóða og þannig koll af kolli. Ein fegustu orðin sem notuð eru af Íslendingum eru „orkufrekur iðnaður“. Nú eru það kísilver, þau eru skárri en álver en það virðist vera skilyrði að fá hingað orkufrekan iðnað. Það er enn talað um það sem svo ofboðslega gott mál. Enn ríkir sama hugarfarið. Við erum á 21. öldinni og þegar orkulindir jarðar munu ganga til þurrðar vilja menn bruðla sem mest með orkuna og selja hana á sem lægstu verði til að geta örugglega nýtt hana. Þetta er ódýrasta orka í heimi og áherlan er á að moka henni út því magnið á að vera svo mikið. Þegar á heildina er litið er allt orkumagn Íslands minna en 1 % af orkuþörf Evrópu. Árið 2007 var í Mogganum Reykjavíkurbréf um Ísland sem Barein norðursins. Við vorum kölluð Arabar norðursins og ættum að geta stjórnað orkuverði í Evrópu. Okkur var talið trú um þetta. Sæstrengur er ávísun á aðra hrungræðgiSæstrengurinn er ávísun á aðra hrungræðgi, það þarf að selja sem mest af orkunni í gegnum þennan streng, þá verður fyrst virkjanaæði. Það er hættan. Það er margt bæði með og á móti þessum sæstreng. En það er mikið verið að gylla þetta. Verðið mun hækka en forstjórinn segir að það verði eins og með fiskinn, þegar farið var að flytja hann ferskan út með flugi hækkaði fiskverðið svo mikið að við græðum á því í heildina þó við verðum að borga meira fyrir fiskinn úti í fiskbúð. Gallinn er bara sá að við þurfum ekki svo oft að kaupa fisk svo það skiptir engu máli en við þurfum ljós og hita á hverjum degi, sá er munurinn. Ég óttast þessa sæstrengs umræðu, sé svo margt sem er að henni og óttast mest æðið, að það verði allt virkjað sundur og saman. Það koma alltaf nýjar kröfur, við þurfum alltaf að skaffa meiri og meiri orku. Það er ekki alveg sami þrýstingur núna því það þarf svolítið til að reisa mengandi álver. Því er hugsanlegt að ef maður stendur frammi fyrir tveimur arfavondum kostum að maður muni  frekar berjast fyrir álverum en hinu en ég verð nú sennilega ekki sakaður um það segir Ómar og hlær. Sprengisandur næsturÞað er búið að sökkva Kárahnjúkum, nú á að taka Sprengisand. Það hefur verið gerð skoðanakönnun meðal erlendra ferðamanna um hvað trufli þá mest þegar þeir vilja upplifa víðáttu og ósnortna náttúru hér á Íslandi, sem ekki er að finna annars staðar í Evrópu og erfitt er að nálgast í Ameríku, því þar þarf að fara lengri leið. Ef ferðamenninrir vissu mikið um umhverfismál þá myndu þeir náttúrulega segja að Kárahnjúkavirkjun truflaði  þá mest. Þegar þeir ferðast um Sprengisandsleið sjá þeir Hvíslarvötn en vita ekki alveg hvort þau eru manngerð eða ekki, það truflar þá ekki mikið. Kannske þó ef þeim væri sagt að þeim fylgir mikið sand- og leirfok og drulla sem annars væri ekki til staðar en þeir vita það ekki. Vegir trufla ekki heldur mikið nema þá kannski stórar hraðbrautir. Nú á að leggja veg um Sprengisand sem á að vera svo umhverfisvænn og lítil truflun af en það á að vera 90 km hámarkshraði og þá þarf ekki að vita meira um það. Vegir eru verri en ferðamennirnir hafa verið í þjóðgörðum erlendis þar sem eru vegir. Það sem truflar þá mest eru háspennulínur, vegna þess að slíkar línur inni á hálendinu eru merki um að þetta sé virkjanasvæði, hreinlega iðnvæðing og ekkert annað. Ef þeir sjá háspennulínu í Skagafirði þar sem á að leggja Blöndulínu truflar það ekki eins vegna þess að þar eru bæir, tún, skurðir og vegir og fleira manngert. Þegar við höfum þessar upplýsingar þá er fáránlegt að ætla að leggja háspennulínu yfir það svæði þar sem það truflar ferðaþjónustuna mest. Sem betur fer hefur ferðaþjónustan lagst gegn þessu núna þó hún hefði ekki gert það fyrir 10 árum. Ég fagna yfirlýsingu Ragnheiðar Elínar ráðherra um að þetta sé ekki á dagskrá á næstu 10 árum. Viðhald á núveradi vegum mjög ábótavant, sumir heilsuspillandi þvottabrettiÞegar ég var spurður um það í Mogganum hvers vegna ég væri á móti Sprengisandsvegi benti ég á að það vegakerfi sem við höfum er svo vanrækt að ferðaþjónustan stynur undan því. Það vantar 30-40%  upp á að vegirnir sem við eigum fyrir eyðilegist ekki, þeir eru að grotna niður. Hvers vegna í ósköpunum á þá að rjúka til og gera nýja vegi, eins og alltaf rjúka í að gera eitthvað nýtt en halda því svo ekki við. Inni í sveitafélögum eins og Árborg eru vegir sem eru algjört þvottabretti  og að ekki sé talað um Kjalveg. Auðvitað er fólk að fara í safarí þar en ekki svona safarí. Vegurinn er svo vondur að það fer gífurlegur tími í  þennan hristing. Þegar loksins er komið í Kerlingarfjöll má fólk ekki vera að því að gera neitt. Rútan ætti að geta keyrt fólki og leyft því að horfa  niður í Hveradalinn en það er engin tími.  Samkvæmt lækni er ferðin yfir Kjalveg heisuspillandi og nýjustu rúturnar missa alla fjöðrun á leiðinni þarna yfir ef farið er yfir 20 km því tölvurnar í þeim þola ekki  þvottabrettið. Menn eru enn á sama stigi og fyrir 60 árum. Það verður að byggja, það verða að koma mannvirki hvar sem því verður fyrir komið eða orkufrekur iðanaður. Menn eru enn á sama stigi og 1960 þegar hér voru bara malarvegir og yfir 95% af útflutningi var fiskur. Við vorum vanþróuð að þessu leiti þó við værum menningarþjóð með fínt flug en þó bara malarvelli þar. Þá samþykkti ég og var eindregið fylgjandi álveri í Straumsvík. Það var talin risa framkvæmd en þó aðeins 33 tonn, nú getur ekkert álver byrjað minna  en með 360 tonn. Við erum eins og fíkniefnaneytendur, skammtarnir verða alltaf stærri og stærri það sem var risaskamtur 1965 er bara ekki neitt í dag segir Ómar að lokum. Steinunn Harðardóttir. Hlusta á viðtalið. Náttúruverndarsjóður Pálma Jónssonar styrkir þáttagerðina.

Continue Reading→

Landsins forni vandi

Undafarna daga hefur ferðaþjónusta og landnýting verið áberandi í umræðunni. Enda hefur ferðaþjónusta farið fram úr öðrum atvinnugreinum hvað varðar öflun gjaldeyristekna. Fjöldi ferðamanna hefur aldrei veri meiri og allt bendir til þess að fjölgunin haldi áfram um hríð. Þessi fjölgun hefur verið fyrirsjáanleg undanfarna áratugi og ekki alveg að óvörum þvi miljörðum hefur verið varið til markaðssetningar á landinu og það kynnt með fjölbreyttri náttúru sem tæta má í á torfærutækjum og spilltum stúlkum sem kosta lítið. Höfðað til neyslu og nautna. Þó lýsa flestir ferðamenn því að þeir komi hingað til að njóta náttúrunnar og þá óspilltrar.  Uppblásnar væntingar - vonbrigði Óspillt helst viðkvæm náttúran ekki lengi ef níðst er á henni og sama á við um fólkið hvort heldur það eru lífsglaðar stúlkur eða aðrir. Norðuljósin eru seld með svipuðum hætti, mydir teknar á tíma með vönduðum myndvélum, unnar í myndvinnslu, birta ímynd sem enginn mun geta séð með eigin augum.  Það má vera ljóst að þegar fólki eru seldar uppblásnar væntingar fylgja vonrigðin ókeypis með. Það má líka vera ljóst að vonbrigði ferðamanna verða aldrei góður grunnur uppbyggingar ferðaþjónustu til lengri tíma. Þannig verður ferðamannaævintýrið bara annað síldarævintýri og tóm, hálfkláruð hótel mundu standa sem minnisvarðar offar og græðgi. Ábygrðarlaus markaðsstjórnun Þessi markaðssetingn er ein birtingarmynd eins helsta vanda hins efnaða hluta mannkyns. Allt er blásið upp, fegrað með fölsun og sett í óraunverulegt samhengi til þess eins að fá neytendur til að kaupa vöru og þjónustu frá einum aðila frekar en öðrum. Þessi aðferð er réttlætt með kenningum um heibrigða samkeppni á öllum sviðum og greinilega með öllum ráðum. Þessi hugmyndafræði er vel þekkt í þeim staðalmyndum sem markaðsheimurinn hefur byggt upp af konum. Og nú er sama uppi á teningnum í markaðsetningu landa í ferðamennsku. Ísland engin undantekning og svo sannarlega ekki barnanna best. Árangur Stjórvöld veita verulegu fé í þessa markaðssetningu enda er auðvelt að mæla árangur og sýna fram á tekjur sem skila sér í beinu framhaldi. Seld flugsæti, gistinætur, kredirkortanotkun og önnur neysla er mælanleg. Og nú hefur ferðaþjónusta náð því að verða sú atvinnugrein sem skilar mestum gjaldeyristekjum. Veltan er gríðarleg. Margir í veislunni og mikið fjör en enn hefur ekki verið rætt hver tekur reikninginn í lokin. Ríki og sveitarfélög hafa brugðist við með aðgerðum svo sem stígagerð þar sem of mikill fjöldi ferðamanna miðað við aðstæður hafa troðið út drullusvað og annað ekki boðlegt en breðgast við. Salernisaðstaðu hróflað upp á allra verstu stöðunum. En enn er fé til uppbyggingar innviða af skornum skammti. Enginn vill borga. Annað ófyrirséð Uppbygging innviða er verkefni sem hægt er að hanna og reikna út hvað kostar og með samningum má komast að niðurstöðu um hver ber þann kostnað. En á meðan skipulag, innviðir og stýring álags er ekki fyrir hendi bíða fjölmargir viðkæmir staðir tjón og liggja undir skemmdum. Rof í gróðuþekju eða yfirborði verða farvegir vatns sem rýfur enn dýpri sár sem opna fyrir uppblástur og valda óafturkræfum breytingum. Sumstaðar alger eyðing á fegurð staðarins. Þennan kostnaðarlið vill enginn sjá og hvað þá taka á sig. Fjárvana hreyfingar Aðilar sem vekja athygli á þessari hlið eru helst félög á sviði umhverfisverndar sem byggð eru upp af áhugafólki sem ver frítíma sínum í umhverfisbaráttu en umhverfissamtök á Íslandi hafa í raun aðeins tvo einstaklinga í fullu starfi við umhverfisvernd. Aðrir starfsmenn samtaka eru í verkefnum á sviði fræðslu með sérstaka tekjustofna og þannig ekki í beinni umhverfisbáráttu. Þessir tveir einstaklingar, með fulltyngi fólks sem stundum getur varið tíma utan vinnu sinnar til aðstoðar þurfa að sinna umsögnum um skipulagsmál, lagasetningu, kærum og kynningu málefna.  Fjársterkir framkvæmdaaðilar Framkvæmdaaðilar vegagerðar, virkjana, línulagna og í ferðaþjónustu hafa hundruðir á launum og ríkulegt fé til að ráða markaðsfólk til að kynna og selja almenningi, kjósendum og neytendum, einhæfa mynd, oft vísvitandi ranga og falska, sem þjónar hagsmunum þeirra.  Ríkisvaldið beitir meira að segja ofbeldi og fer á skjön við íslensk og fjölþjóðleg lög sem hér eiga að gilda til að þjóna hag framkvæmdaaðila. Staðlaus stefnumótun Það sem gerir stöðu umvherfissamtaka og þeirra sem vilja byggja upp þjónustu í ferðaþjónstu verri er ómarkviss stefnumótun. Vissulega eru settir á fót starfshópar og jafnvel stofnanir sem eiga að vinna að stefnumótun og vissulega koma endrum og sinnum fallegir textar og fögur fyrirheit. En eftirfylgni skortir. Ábygrðin er óskýr og fjárveitingar rýrar ef einhverjar. Skilningur og áherslur stjórnvalda kúvenda við stjórnarskipti. Áherslum og áætlunum er kastað, fjármagni veitt í áhugamál og lögum frestað, þau brotin eða umturnað.  Það er augljóslega ómögulegt að byggja upp stjórnsýslu og þess þá heldur þjónustu við þessar kringumstæður sem minna helst á íslenskt veðurfar. Gullgrafarar Þessar aðstæður stefnuleysis, skorts á lögum og reglum eru aftur á móti kjörlendi gullgrafara og tækifærissinna sem geta féflett ferðamenn án nokkurar ábyrgðar á umhverfi og stundum án ábyrgðar gagnvart starfsfólki, tryggingum og opinberum gjöldum.  Aðilar í þessum flokki valda tjóni með ýmsum hætti. Nátturuspjöllum, vonsviknum eða algerlega sviknum viðskiptavinum auk þess að miðla ranghugmyndum um hvað má og hver ber ábyrgð. Stofnanangjáin  Starfsfólk sjtórnsýslu og stofnana er almennt meðvitað um þessi vandamál. En sakir ómarkvissrar og óskýrrar strenumótunar til viðbótar við sífelldan niðurskurð fjráveitinga með tilheyrandi undirmönnun reyna stofnanir að vísa ábyrgð á verkefnum, sem lenda á óskýru ábyrgðarsviði, hver á aðra svo verkefni týnast djúpt í skúffum eða hreinlega í ruslinu. Það er ekki áhugaleysi þeirra sem þar starfa um að kenna. Starfsfólk hefur yfirleitt þegar of mikið á sinni könnnu og það er lítt hvetjandi að verja eigin tíma í gerð áætlana eða aðra vinnu sem sennilegst hverfur í skúffur á öðrum stöðum eða verða marklausar næst þegar löggjafinn eða ríkisstjórn breytir um stefnu. Hentistefna stjórnvalda Hentistefna stjórnvalda skapar ófrjóan jarðveg fyrir markvisst skipulag sem þarf að geta horft langt til framtíðar og hafa fjárhagslega burði og byggja á faglegri þekkingu byggðri á samvinnu allra aðila sem málefnið varðar. Sú staðreynd að málefni ferðaþjónustu liggja vítt og breytt um ráðuneyti og stofnanir skapar vissulega vanda. Enginn hefur faglega yfirsýn um allar hliðar málsins og enginn hefur stöðu til að leiða saman hagsmunaaðila og faghópa til árangursríkrar samvinnu um skýra stefnu. Snjóhengjan Hættan sem við blasir er sú að farið verði offari. Fyrirhyggjuleysið, smákóngaveldið og sérhyglin, landsins forni vandi, ráði för með, því miður, fyrirsjánalegum afleiðingum. Að enginn hafi kjark til að hlífa viðkvæmum stöðum með friðun. Hvort heldur algerri eða með fjöldastýringu.  Að þegar fram í sækir verði náttúruperlur landsins úttroðnar og ónýtar til ófyrirsjáanlegrar framtíðar. Og þá sitjum við eftir með skaðann, særða náttúru og særða samvisku.  

Continue Reading→

Að ferðast innanlands

Af hverju að fara langt þegar þú getur notið góðs sumarfrís í næsta nágrenni. Alltof margir ferðast um hálfan hnöttinn en gleyma að ferðast um sitt eigið land. Útivera er ein skemmtilegasta leiðin til að halda sér og fjölskyldu sinni heilbrigðri og léttri í lund. Ferðalög þurfa ekki að vara lengi en það getur verið yndisleg upplifun fyrir fjölskylduna að komast aðeins út fyrir borgina eða bæinn og út í náttúruna. Keyrið varlega og njótið þess að skoða út um gluggan það sem fyrir augum ber. Áður en þið leggið af stað er ráðlagt að gera lista yfir hluti sem þarf að taka með, staði sem á að sjá o.fl. Best er að reyna að takmarka hluti sem þið takið með. Ráðlegt er að notast aðeins við fjölnota umbúðir fyrir matvæli og hluti. Ef að vaska þarf upp eða þvo föt úti í náttúrunni er best að notast við umhverfismerkt þvottaefni og uppþvottalög. Mikilvægt er að reyna að þvo ekki mikið upp úr ám eða lækjum, hægt er að notast við vaska á tjaldstæðum. Mikilvægt er að sýna náttúrunni virðingu, í því felst að skilja ekki eftir rusl á drasl á jörðinni, best er að taka það heldur með ykkur í bílinn og henda því svo í næsta ruslagám. Einnig er mikilvæg að skilja náttúruna við sig eins og maður kom að henni. Í ferðalaginu er sniðugt að reyna að nota bílinn sem minnst, hægt er að fara í gönguferðir eða jafnvel taka reiðhjól með í ferðalagið. Ef að fara á í gönguferðir er best að hafa í huga að ganga eftir merktum gönguleiðum, annað getur verið slæmt fyrir jarðveginn, þú gætir lent inná einkalóð eða lent í ógöngum eða hættu. Sama á við um bíla. Mikilvægt er að keyra aldrei utanvega, það er vanvirðing við náttúruna, hjólför geta rist jarðveginn djúpt og eyðilagt gróður. Myndin er af Daníel Tryggva Guðrúnarsyni og Vilhjálmi Hjálmarssyni að baða sig í heitum læk í Reykjadal. Ljósmynd: Guðrún Tryggvadóttir.

Continue Reading→

Skotvísi Arne Sólmundssonar

Að undanförnu hafa jeppaklúbburinn 4×4, Samút og Skotvís beitt sér mjög gegn nýju frumvarpi til laga um náttúruvernd. Grein Arne Sólmundssonar, varaformanns Skotvíss, í Morgunblaðinu 13. feb. vekur spurningar sem vert er að beina til Arne, með von um svör. Arne segir: „Nú stöndum við hins vegar frammi fyrir ofurtrú stjórnvalda á að leysa sameiginlegan vanda með boðum og bönnum, enda er það eina lausnin sem er í boði, stundi menn ekki samráð.” Um hvaða boð og bönn ertu að tala, Arne? Vera má að jeppakarlar viti hvað Arne á við en lesendur Morgunblaðsins hljóta að spyrja, hvað á maðurinn við? „Aðalatriðið er að aðgengi sé tryggt án þess að spjöll hljótist af, óháð ferðamáta.” Hverjar eru tillögur Skotvíss um hvernig skuli koma í veg fyrir náttúruspjöll? Utanvegaakstur er stórt vandamál, hefur valdið miklum spjöllum og Arne Sólmundsson bendir réttilega á að um „sameiginlegan vanda“ sé að ræða. Hvernig vill stjórn Skotvíss leysa málið? Frumvarpið snýst um að vernda náttúruna en ekki að tryggja mönnum frjálsa för um landið óháð ferðamáta. Leggst Skotvís gegn þeirri forgangsröðun? Ólíkir ferðamátar hafa mismunandi áhrif á náttúruna. Er þá ekki eðlilegt að mismunandi ákvæði eigi við um ólíka  ferðamáta? Vaxandi umferð vélknúinna ökutækja er ógn við öræfanáttúru hálendisins og væntanlega erum við sammála um að akstur utan vega skemmir og/eða eyðileggur ásýnd lands, jarðmyndanir og gróður. Er það ekki hinn sameiginlegi vandi? Ekki verður heldur deilt um að umferð vélknúinna ökutækja veldur hávaða sem rýfur þá kyrrð öræfanna sem margir eru að sækjast eftir. Skotvís hlýtur að vera okkur sammála um nauðsyn þess að takmarka umferð vélknúinna ökutækja og setja skýrar reglur um umferð þeirra í náttúru landsins. Er ekki svo? „Drög að nýjum náttúruverndarlögum eru nú til umfjöllunar á Alþingi og sagan virðist vera að endurtaka sig. Stjórnvöld hafa ekkert lært af reynslunni þrátt fyrir alla gagnrýnina um skort á samráði og að ekki sé leitað í þekkingarbrunn almennings í gegnum frjáls félagasamtök á sviði útivistar, þ.e. þeirra sem eru að nýta sér þau lífsgæði sem felast í útivist og ferðalögum um landið.” Vill Skotvís meina að frjáls félagasamtök á sviði útivistar hafi ekki átt þess kost að koma sínum skoðunum á framfæri við gerð þessa frumvarps? Hvar misstuð þið af lestinni? „… þ.e. að innleiða boð og bönn, auka réttaróvissu meðal almennings og útbúa löggjöf sem gengur út á refsingar en ekki hvatningu og fræðslu þar sem almenningur í gegnum frjáls félagasamtök ætti að vera hluti af lausninni.” Aftur, hvaða boð og bönn eru það sem Skotvís er andvígt sérstaklega? Hvers konar réttaróvissa mun skapast verði frumvarpið samþykkt? Sannarlega er það óskemmtilegt að refsa fólki sem ekki fer að settum lögum og reglum en hvernig skal virða umferðareglur ef engin viðurlög eru við umferðabrotum? Hvernig vill Skotvís tryggja að ekki verði ekið utan vega? „Það er því ekki að ástæðulausu sem við höfum innleitt Árósasamninginn sem ítrekar einmitt aðkomu almennings þegar kemur að þessum málum. En hvað hefur breyst eftir innleiðingu Árósasamningsins, nákvæmlega ekkert!” Aldrei nokkurn tíma varð ég þess var að Skotvís styddi innleiðingu Árósasamningsins sem ekki varð fyrr en haustið 2011 – 13 árum eftir að Guðmundur Bjarnason, umhverfisráðherra undirritaði hann fyrir Íslands hönd. Ekki heldur 4×4 eða Samút. En, gott og vel, ákvæði samningsins eru fyrir öll almannasamtök sem vilja beita sér fyrir náttúruvernd og mjög alvarlegt mál er ef umhverfisráðuneytið hefur brotið á þeim sem vilja njóta náttúrunnar. Því verður að fara fram á að Arne Sólmundsson geri grein fyrir hvaða ákvæði Árósasamningsins voru brotin á félagsmönnum Skotvíss. „Stjórnvöld styðjast mest við „Hvítbækur“ sem meginheimildir fyrir lagasetningu,” Hvaða hvítbækur er verið að tala um? Eftir því sem næst verður komist hafa ekki verið gefnar út neinar hvítbækur á vegum stjórnvalda fyrr en árið 2011 þegar bókin Náttúruvernd. Hvítbók um löggjöf til verndar náttúru Íslands var gefin út, vandað rit og til mikillar fyrirmyndar. Vera má að Arne Sólmundsson þekki söguna betur en ég og gott væri þá að heyra af því. Bestu kveðjur, Árni Finnsson. Ljósmynd: Jeppi í fjallaferð, ©Árni Tryggvason.

Continue Reading→

Náttúruverndarsamtök Suðvesturlands fagna stofnun jarðminjagarðs á Reykjanesskaga

Náttúruverndarsamtök Suðvesturlands fagna nýlegri ákvörðun Grindavíkurbæjar um stofnun jarðminjagarðs  (Geopark) á Reykjanesi. Sveitarfélögin á Suðurnesjum hafa nú  ákveðið að ganga til samstarfs um stofnun slíks garðs. Er það mikið fagnaðarefni þar sem slík ráðstöfun er vel til þess fallin að auka almenna vitund um mikilvægi náttúruverndar á svæðinu. Huga þarf vandlega að þeim málaflokki, t.d. með tilliti til virkjana og þeim mannvirkjum sem þeim fylgja. Einnig  þarf að gera ráðstafanir til að koma í veg fyrir utanvegaakstur, sem verið hefur mikið vandamál á Reykjanesskaga. Slíkur jarðvangur, Katla Geopark, hefur nú verið stofnaður á Suðurlandi og þar sér fólk  fram á margvísleg tækifæri honum tengdum. Við erum sannfærð um að svo verði einnig á Suðurnesjum. Verði rétt á málum haldið getur slíkur garður auðveldlega skapað fjölda starfa og tækifæra í ferðaþjónustu enda liggur Reykjanesskaginn vel við slíku vegna nálægðar við alþjóðaflugvöll og ekki síst vegna þeirrar jarðfræðilegu sérstöðu sem svæðið hefur. Náttúruverndarsamtök Suðvesturlands minna á að 83% þeirra erlendu ferðamanna sem sækja landið heim eru hingað komin í þeim tilgangi að upplifa ósnortna náttúru. Þeir eru ekki komnir hingað til að skoða stöðvarhús, borstæði, háspennulínur, línuvegi, hitaveiturör og önnur þau mannvirki sem fylgja jarðvarmavirkjunum. Ljósmynd: Grænavatn á Reykjanesi, Árni Tryggvason.

Continue Reading→