Search

Mengunarmælir

Á Græna kortinu er hægt að fá upplýsingar um mengunarmæla. Skilgreiningin sem við flokkum eftir er eftirfarandi: Staðsetningar mæla sem sýna magn mengandi efna í andrúmsloftinu. Stofnanir sem standa að mengunarmælingum. Sjá nánar um mengunarmæla hér á Græna kortinu undir flokknum „Mengunarmælir". Grafík: Myndtákn Green Map® System flokksins „Mengunarmælir“.

Continue Reading→

Flugeldar og umhverfið

Náttúran.is skoraði á söluaðila flugelda á landinu öllu fyrir áramótin 2007 (sjá áskorunina) að sýna ábyrgð og taka það upp hjá sér að upplýsa viðskiptavini sína um umhverfisáhrif er af flugeldum og blysum hljótast og hvetja til réttrar meðhöndlunar á því mikla magni úrgangs sem hlýst af sprengigleði landans. Því er skemmst frá að segja að margir dyggir stuðningsmenn björgunarsveitanna tóku þetta illa upp og fannst að sér vegið, nokkuð sem alls ekki var meiningin. Umræðan um umhverfisáhrif af bruna flugelda og rétta förgun hrökk í gang og mikill fjöldi fólks sá ástæðu til að setja orði í belg hér á vefnum auk þess sem viðtal var tekið við mig á Rás 2. Með því að taka málið til umræðu virtist Pandoru-boxið hafa verið opnað upp á gátt. Það verður því áhugavert að fylgjast með því hvort að neikvæð umhverfs- og heilsuáhrif af flugeldum verði til umræðu annars staðar í þjóðfélaginu þetta árið. Málið snýst fyrst og fremst um það að allir taki ábyrgð á sínum gjörðum, þeir sem selja, þeir sem kaupa, þeir sem sjá um sorpið og ekki síst þeir sem eiga að sjá um umhverfismennt í þjóðfélaginu. Náttúran.is er einmitt einn af þeim aðilum sem að vilja sjá um það síðastnefnda, þ.e. upplýsa um umhverfismálaþáttinn. Hluti af upplýsingagjöf og skapandi umræðu byggir á því að velta upp möguleikum um úrlausnir eða betrumbætur. Þúsund tonn af eiturefnum og úrgangi kemur okkur öllum við og fyrst á dagskrá er að skoða stöðuna eins og hún er í dag. Undanfarin ár hefur mikil aukning orðið í sölu flugelda en jafnframt hafa einkaaðilar komið inn á svið sem að björgunarsveitirnar töldu sitt áður. Þetta gremst þeim því að sala flugelda er aðaltekjulind sveitanna. Þó má segja að með aukinni samkeppni hafi aukning í sölu fylgt í kjölfarið svo það er ekki víst að minni peningar komi í kassann en áður. Nú á tímum mikillar umhverfisvakningar um allan heim og á öllum sviðum neyslu og viðskipta þarf að taka til endurskoðunar þá mengun sem mennirnir bera ábyrgð á. Einstaklingar jafnt sem fyrirtæki í framleiðslu, þjónustu og sölu verða því að taka ábyrgð á gjörðum sínum. Ef allir taka ábyrgð gengur dæmið upp, annars ekki. Það er staðreynd málsins. Umhverfisáhrif af sprengingum flugelda, hvort sem er hljóðmengun, loftmengun eða efnamengun er nokkuð sem að þarf að róta upp og rannsaka. Framleiðsla og flutningar valda einnig gífurlega neikvæðum áhrifum. Flugeldar eru flestir framleiddir í Kína, við aðstæður sem að ekki teljast til fyrirmyndar út frá heilsu- og siðgæði. Í grein á vef Neytendasamtakanna sem birtist fyrir tveim árum síðan er m.a. talað um þetta atriði og að sjálfsögðu um mengunina og ábyrgð innflytjenda. Þar segir m.a.: Púður er auðvitað mikilvægt hráefni í flugeldaframleiðslu en til að flugeldar geti skartað fallegum litum eru notuð ýmis kemísk efni og þungmálmar. Til að fá grænan lit er notað baríum, rauður fæst með strontíum, gulur fæst með því að nota natríum og hinn vandasami blái litur krefst þess að notaður sé kopar sem er varasamur í meðförum. Fyrirspurnir okkar til Sorpu bs. í ár hafa leitt í ljós að í raun sé ekkert hægt að gera til að flokka rakettu- og sprengikökuruslið þannig að það fer allt til urðunar eða eyðingar. Varað er við að fólk fylli almennar ruslatunnur af rakettum því það orskar vandamál við sorphirðuna. Frekar eigi að koma ruslinu beint á endurvinnslustöðvarnar. Heilar rakettur skal setja í spilliefnagáminn en rakettu ruslið fer í óendurvinnanlegt, því það er svo mikill leir í botninum á tertunum að ekki er hægt að setja það í pappagáminn. Ef að við reiknum með að 50% af dótinu komist í ruslið, 30% hafi eyðst við bruna og 20% sé skilið eftir á viðavangi þýðir það að 500 tonn af sprengiefnaafgöngum séu urðuð hér á landi árlega. Nærri má geta að kostnaður við að urða 500 tonn af sprengiefnaafgöngum sé nokkuð hár fórnarkosntaður en sveitarfélögin sjálf þurfa að reiða fram það fé vegna sprengigleiði landsmanna. Sveitarfélögin eru að sjálfsögðu að stórum hluta rekin af útsvari okkar, s.s. við greiðum brúsann að lokum. Að sögn Guðmundar Tryggva Ólafssonar framkvæmdastjóra Sorpstöðvar Suðurlands eru urðunarstaðir flestra sveitarfélaga þannig úr garði gerðir að þungmálmar og önnur skaðleg efni komast ekki í grunnvatn svo draga má þá ályktun að áhættuþátturinn liggi aðallega í því rusli sem liggur óhirt á víðavangi. Guðmundur Tryggvi segir ennfremur að ekki sé sannað að flugeldarusli (nema það ósprengda) skapi neina sérstaka umhverfislega áhættu sem slíkt og að í flestum tilfellum sé allt eitur fuðrað upp. Áhættuþátturinn liggur að hans mati aðallega í slysahættunni, sérstaklega fyrir börnin sem fyrir utan auðvitað að heillast af sprengingu flugeldanna á Gamlárskvöld, laðast þau að flugeldaruslinu dagana á eftir, eins og mý á mykjuskán. Eins og flestir muna sjálfsagt eftir frá barnsárum sínum. Svifryksmengun í Reykjavík fór á síðustu þremur árum upp í 500 míkrógrömm á rúmmetra en heilsuverndarmörk liggja á bilinu 50 míkrógrömm á rúmmetra. Fólk almennt, ekki bara börn og asmtasjúklinar eru því í bráðri hætti við slík skilyrði. Á vef Umhverfisstofnunar er hægt að fylgjast með loftmengun. Tölur um loftmengun liggja ekki fyrir en miðað við að þúsund tonn af sprengiefni fuðri upp á gamlárskvöldi og nýársnótt ætti að vera hægt að fá tölur um koltvísýringslosun og losun annara skaðlegra efna. Sprurning hve mikið að losunarkvóta Íslands rúmist þar í? Sjá viðmið Náttúrunnar fyrir þungmálma. Sjá meira um endurvinnslu um jól og áramót. Grafík: Flugeldar, brunnir flugeldar, sprengiterta og brunnin sprengiterta, Guðrún Tryggvadóttir ©Náttúran.is.

Continue Reading→

Náttúruverndarsamtök Suðvesturlands fagna stofnun jarðminjagarðs á Reykjanesskaga

Náttúruverndarsamtök Suðvesturlands fagna nýlegri ákvörðun Grindavíkurbæjar um stofnun jarðminjagarðs  (Geopark) á Reykjanesi. Sveitarfélögin á Suðurnesjum hafa nú  ákveðið að ganga til samstarfs um stofnun slíks garðs. Er það mikið fagnaðarefni þar sem slík ráðstöfun er vel til þess fallin að auka almenna vitund um mikilvægi náttúruverndar á svæðinu. Huga þarf vandlega að þeim málaflokki, t.d. með tilliti til virkjana og þeim mannvirkjum sem þeim fylgja. Einnig  þarf að gera ráðstafanir til að koma í veg fyrir utanvegaakstur, sem verið hefur mikið vandamál á Reykjanesskaga. Slíkur jarðvangur, Katla Geopark, hefur nú verið stofnaður á Suðurlandi og þar sér fólk  fram á margvísleg tækifæri honum tengdum. Við erum sannfærð um að svo verði einnig á Suðurnesjum. Verði rétt á málum haldið getur slíkur garður auðveldlega skapað fjölda starfa og tækifæra í ferðaþjónustu enda liggur Reykjanesskaginn vel við slíku vegna nálægðar við alþjóðaflugvöll og ekki síst vegna þeirrar jarðfræðilegu sérstöðu sem svæðið hefur. Náttúruverndarsamtök Suðvesturlands minna á að 83% þeirra erlendu ferðamanna sem sækja landið heim eru hingað komin í þeim tilgangi að upplifa ósnortna náttúru. Þeir eru ekki komnir hingað til að skoða stöðvarhús, borstæði, háspennulínur, línuvegi, hitaveiturör og önnur þau mannvirki sem fylgja jarðvarmavirkjunum. Ljósmynd: Grænavatn á Reykjanesi, Árni Tryggvason.

Continue Reading→

Áramótabrennur - tímaskekkja eða nauðsyn?

Nú fara  sjálfboðaliðar og sveitarfélög um land allt að huga að áramótabrennum. Hér á árum áður var allt týnt til og brennur  jafnvel notaðar til að losa sig við allskonar hluti, sem fólki fannst hafa lokið nytjahlutverki sínu, algengt var t.d. að losa sig við báta af öllum stærðum á áramótabrennuna, heilu bílafarmar af dekkjum og úrgangsolía þótti hentugur brennuvaki! Nú, sem betur fer,  er aðeins breytt hugsun um hvað megi brenna, án þess að veruleg umhverfis- og mengunarhætta stafi af. Þess má geta að á Hvolsvelli í Rangárvallasýslu, en sem kunnugt er það hérað m.a. þekkt fyrir brennur, sbr. Njálu, hafa brennumenn í ár komið sér upp umhverfisvænum áramóta bálkesti, sem einungis er úr timbri;  mest notuð vörubretti og trjágreinar, sem klipptar voru nú í desember meðfram gangstéttum. – Betra getur það vart orðið. Sérstakt leyfi þarf frá heilbrigðiseftirliti, lögreglu og brunavörnum til að halda brennu, þar kemur m.a. fram hvernig standa skuli að málum og hvað megi brenna. Fram kemur í brennuleyfi að  óheimilt er að hefja söfnun í brennu fyrr en endanlegt leyfi lögregluyfirvalda liggur fyrir ásamt jákvæðri umsögn slökkviliðsstjóra. Veitt er leyfi fyrir allt að 450 m3 að stærð enda sé stærð hennar í samræmi við sameiginlegar leiðbeiningar Brunamálastofnunar ríkisins, Umhverfisstofnunar  og Ríkislögreglustjóra.  „Bálkestir og brennur.  Leiðbeiningar um vinnutilhögun og leyfisveitingar“. Óheimilt er að kveikja í brennunni ef vindátt er óhagstæð að mati lögreglu. Verði notuð olía, við uppkveikju ber að halda notkun hennar í lágmarki. Eingöngu má nota olíu sem afhent er beint frá olíufélagi. Þá skal ekki hella á brennuna fyrr en í fyrsta lagi einum klukkutíma áður en kveik er í og þegar brennan er í „fullu báli“ á ekki að hella meiri olíu á eldinn. Á brennustæði skal vera þykkur og þéttur leirkendur jarðvegur sem getur bundið olíu og fangað þau spilliefni sem niður fara. Leyfilegt er að brenna timbur og pappa. Ábyrgðarmanni brennu er skylt að sjá svo um að á brennu fari ekki óæskilegur eldsmatur á borð við sorp, plast- og gummíefni (s.s. plastkassar, fiskkör, netaafskurður, bíldekk og þess háttar), gagnvarið efni, dósir og tunnur með fljótandi eða föstum efnum (s.s. lím- og málningarafgöngum) eða annað sem getur valdið hættulegum sprengingum. Því þarf að vakta brennustæði eða að takmarka aðgengi að svæðinu.

Continue Reading→

Alvarlegar athugasemdir gerðar við leyfi til ræktunar á erfðabreyttum lífverum að Reykjum

Greinargerð vegna fyrirhugaðrar ræktunar erfðabreyttra lífvera að Reykjum í Ölfusi, sbr. starfsleyfi Umhverfisstofnunar til handa Orf líftækni hf., fyrir starfsemi með erfðabreyttar lífverur í tilraunagróðurhúsi Landbúnaðarháskóla Íslands að  Reykjum í Sveitarfélaginu  Ölfusi. Hópur fólks, félaga og stofnana*,  hefur skoðað hvaða áhrif leyfisveiting, fyrir ræktun erfðabreyttra lífvera í tilraunagróðurhúsum LBHÍ að Reykjum í Ölfusi, gæti haft í för með sér. Hópurinn gerir í framhaldi af því alvarlegar athugasemdir, eftir að hafa m.a.  skoðað drög að leyfisveitingu og hvernig málið hefur verið unnið af hálfu Umhverfisstofnunar. Eftir ítarlega skoðun á málinu, er niðurstaða hópsins sú að að starfsleyfið sé í hæsta máta óásættanleg. Hópurinn beinir þeim tilmælum til bæjarstjórna sveitarfélaganna Ölfuss og Hveragerðis, að þau beiti sér fyrir því við viðeigandi stjórnsýslustofnanir, þ.e. Umhverfisstofnun, Umhverfisráðuneyti, Landbúnaðar- og sjávarútvegsráðuneyti og  Menntamálaráðuneyti, að umrætt leyfi verði afturkallað. Bent er á 17 meginþætti og rök, sem mæla sterklega gegn útleigu Landbúnaðarháskóla Íslands á tilraunagróðurhúsunum að Reykjum í Ölfusi, til erfðabreyttrar ræktunar. Ófullnægjandi kynning á málinu gagnvart sveitarfélögum en upplýsingar um málið hafa verið takmarkaðar til sveitarfélaga í héraðinu. Einungis hefur Sveitarfélaginu Ölfusi  verið sent málið til umsagnar auk Heilbrigðisnefndar Suðurlands. Einnig mun Vinnueftirlit ríkisins og Ráðgjafanefnd um erfðabreyttar lífverur hafa fengið málið til umsagnar, eins og lögboðið er. Þá hafa  upplýsingar um málið hvorki borist til bæjarstjórnar Hveragerðis né til hagsmunaaðila í næsta nágrenni, en þeir kynnu að verða fyrir áhrifum af umræddri leyfisveitingu, t.d. skólayfirvöld í Hveragerði, nemendur og  starfsmenn á Reykjum, Heilsustofnun Náttúrulækningafélags Íslands, ferðaþjónustuaðilar og aðrir hagsmunaðilar í Hveragerði og Ölfusi. Grenndarkynning fór ekki fram. Mjög ámælisvert er að engum upplýsingum um málið hefur verið komið á framfæri við íbúa í Hveragerði og í Ölfusi.  Grenndarkynning hefur ekki farið fram um málið og íbúar hafa þar af leiðandi ekki átt þess kost að vega og meta þá fjölmörgu ókosti og hættur,  sem umrædd leyfisveiting mun hafa í för með sér. Saga Hveragerðis og Ölfuss er samofin nýtingu náttúrugæða á umhverfisvænan máta, m.a. með notkun heita vatnsins við heilsueflingu, ferðaþjónustu, matvælaframleiðslu, landbúnað og ylrækt. Orðspori þessara gæða verður stefnt í hættu, ef af ræktun erfðabreyttra lífvera verður á svæðinu. Ölfus og Hveragerði er vinsælt og vaxandi útivistarsvæði, en bæði íbúar og ferðamenn sækja í mjög auknum mæli til þeirra kjörlenda, sem þarna eru til göngu- og hjólreiðaferða, hestaferða,  sund- og baðferða. Heilsueflingarstígur sveitarfélaganna og fleiri aðila liggur t.d. um þau svæði sem Orf líftækni hf. hyggst stunda starfsemi á. Sundlaugin í Laugarskarði, reiðstígar, hjóla- og göngustígar eru í næstu grennd. Heilsugöngur Heilsustofnunar Náttúrlækningafélags Íslands fara um svæðið. Heilbrigði þessa umhverfis og ímynd er stefnt í voða ef af umræddri starfsemi verður. Næsti granni er Heilsustofnun Náttúrulækningafélags Íslands, sem er jafnframt stærsti vinnustaðurinn  í Hveragerði. Stofnunin hefur m.a. mótað sér stefnu um svæði stofnunarinnar og lendur, sem yfirlýst svæði án erfðabreyttra lífvera jafnframt því að vera vagga lífrænnar ræktunar og  framleiðslu á Íslandi. Mikilvægt er fyrir félagið og þann rekstur sem það hefur með höndum að fá frið til þeirrar starfssemi. Mikilvægt er að skilyrði til lífrænnar ræktunar sé virt varðandi umhverfi, vellíðan gesta, starfsfólks og lífrænnar vottunar framleiðslunnar. Nú starfa þar um 100 manns og mörg þúsund  gestir koma þangað á ári. Mikilvægi þess að starfsemin fái áframhaldandi frið og hreint umhverfi er ótvírætt. Hreinleiki umhverfis er mikilvægur starfseminni og nauðsynlegt  að allri mengun m.a. frá erfðabreyttri starfsemi sé haldið utan við  9,6 km radius að lágmarki. Fjarlægð frá gróðurhúsi því sem ræktunarleyfið tekur yfir er innan við 1  km. frá Heilsustofnun Náttúrulækningafélags Íslands. Stofnunin á lögvarða hagsmuni í málinu sbr. ofannefnt m.a. þar sem lífrænni vottun og margra áratuga uppbyggingu er stefnt í hættu með ræktun erfðabreyttra lífvera í nánasta nágrenni. Ályktun um Erfðabreyttar lífverur - ræktun erfðabreyttra plantna á Íslandi var m.a. samþykkt á 33. Landsþingi NLFÍ, sem haldið var á Heilsustofnun NLFÍ í Hveragerði  sunnudaginn 2. október 2011: „Náttúrulækningafélag Íslands fordæmir það ábyrgðarleysi íslenskra stjórnvalda að heimila útiræktun á erfðabreyttum lífverum á Íslandi. Fjöldi ritrýndra vísindalegra rannsókna liggja nú fyrir sem sýna fram á að erfðabreyttar lífverur og afurðir þeirra valda óafturkræfu tjóni á umhverfi og heilbrigði dýra og manna. Landsþing NLFÍ telur að notkun erfðabreyttra lífvera skuli einvörðungu fara fram í lokuðu rými. Þingið krefst þess að þar sem leyfi til slíkrar „afmarkaðrar“ notkunar hafa verið veitt tryggi eftirlitsaðilar raunverulega afmörkun þannig að erfðabreytt efni berist ekki út í umhverfi og mengi grunnvatn og jarðveg. Landsþing NLFÍ hvetur stjórnvöld til að banna með öllu útiræktun á erfðabreyttum lífverum og undirbúa að Ísland verði sem fyrst lýst „land án erfðabreyttra lífvera“. Lagt er til að sveitarfélögin Ölfus og Hveragerði móti sér stefnu og taki HNLFÍ sér til fyrirmyndar og stuðnings í stefnumótun um umhverfismál og m.a. gerist yfirlýst Svæði án erfðabreyttra lífvera. Umrætt svæði er á mjög virku jarðskjálftabelti. Þekkt er að jarðsprungur liggi um  svæðið og m.a. undir þeim byggingum, sem eru fyrirhugaðar til ræktunar á erfðabreyttum lífverum, sbr. þá eyðileggingu, sem jarðskjálfti vorið 2008 olli á byggingum m.a. á Reykjum. Umhverfisstofnun fjallar ekkert í starfsleyfi sínu til Orf líftækni hf. um þann skaða, sem gæti orðið af starfseminni af völdum náttúruvá s.s. jarðskjálfta og hveramyndana á svæðinu. Nýleg dæmi sýna að ekki þarf að hafa sérstakt hugmyndaflug til að sjá að slíkt getur gerst aftur fyrirvaralaust. Varmá, sem rennur skammt fyrir neðan staðinn, er á náttúruminjaskrá og nýtur þar af leiðandi verndar samkvæmt lögum. Varmá er mjög mikilvægt náttúruverndarsvæði fyrir bæði sveitarfélögin Ölfus og Hveragerði. Mengist vatn í Varmá kann það að hafa ófyrirsjáanlegar afleiðingar fyrir allt lífríki árinnar og kynni einnig að valda óbætanlegri mengun grunnvatns og jarðvegs á aðliggjandi svæðum. Sú tækni, sem er í dag í umræddum byggingum, tilraunahúsum að Reykjum getur ekki komið í veg fyrir að erfðabreyttar lífverur eða erfðabreytt efni sleppi  í umhverfið. En allar þessar mögulegu hættur, sem fylgja leyfisveitingu fyrir ræktun erfðabreyttra lífvera að Reykjum eru ókannaðar. Þó svo að starfsleyfi hafi verið veitt til afmarkaðrar notkunar er rétt að árétta, að með afmörkun er að sjálfsögðu átt við að notkun fari fram í lokuðu kerfi. Gera verður kröfu til þess að ekki ein einasta lífvera geti sloppið út. Jafnframt verður að gera kröfu til að þess að erfðabreytt efni berist ekki út fyrir kerfið, til að fyrirbyggja mengun grunnvatns og jarðvegs af þeirra völdum. Því verður ekki lengur móti mælt að erfðabreytt efni flytjast og geta flust, með ófyrirsjáanlegum heilsufarsafleiðingum, yfir í jarðvegs- og grunnvatnsörverur og smádýr (sn. flöt genatilfærsla, e: horizontal gene transfer), sem er ekki síðra áhyggjuefni en dreifing sjálfra lífveranna (s.s. fræ með frjómagn). Ef sótt er um afmarkaða notkun á að krefjast þess að um raunverulega lokað kerfi sé að ræða en ekki „að mestu“. Huga þarf að öllum þáttum þ.m.t. að gólf séu þétt úr föstu efni, gler í veggjum og lofti sé tvöfalt, öryggissvæði sé til að fyrirbyggja tilflutning efna með mönnum og tækjum út úr ræktunarhúsum, frárennsli sé dauðhreinsað og öllum úrgangi frá ræktun sé eytt með brennslu, o.fl. í þeim dúr, þannig að hvorki lífverur né erfðabreytt efni sleppi út úr kerfinu. Reynsla af fyrri starfsemi Orf líftækni hf. í tilraunagróðuhúsnum að Reykjum var ámælisverð. Ræktað var án tilskilinna leyfa, að einhverju leyti árin 2003 - 2008. Óvíst var þar hvort ræktað hafi verið til framleiðslu eða tilrauna. Umgengni fyrirtækisins var afburða slæm; eftir notkun gróðurhúsa stóðu plöntur þar dauðar vikum saman, var að lokum fleygt út ýmist „bak við hús” eða enduðu á almennum úrgangshaug skólans fyrir jurtaleifar við hverasvæði við Reyki. Hvernig staðið var að „tilraunaræktun“ Orf líftækni hf. í Gunnarsholti á Rangárvöllum er einnig ámælisvert.  Svæði var m.a. ekki vaktað og ekkert eftirlit var með starfseminni af hálfu Umhverfisstofnunar. Margar rannsóknir um sambærilega erfðabreytingu, sem Orf líftækni hf. er að vinna með, kunna að valda myndun  krabbameins og eiga alls ekki  ekki heima í náttúrunni. Jafnframt getur þetta skapað hættu fyrir almenna  byggræktun, sem er eina korntegundin,  sem hægt er að rækta að einhverju ráði hér á landi. Ekkert tryggingafélag tryggir rekstur með erfðabreyttar lífverur. Sveitarfélögin sætu ein uppi með mögulegt tjón. Fjárhagslegu öryggi sveitarfélaganna væri þar með stefnt í mikla hættu. Þetta hefur gerst nokkrum sinnum í Bandaríkjunum (sjá nánar á heimasíðu Institute for Responsible Technology). Það er ekki á verksviði LBHÍ að leigja einkaaðilum sérhannað tilraunagróðurhús á vegum ríkisins til starfsemi sem er óskyld garðyrkju og matvælaframleiðslu. Húsið var byggt í samstarfi við garðyrkjubændur og fjármagnað úr ríkissjóði miðaðist við slíka notkun en ekki framleiðslu erfðabreyttra lífvera. Engin önnur aðstaða yrði fyrir hendi til rannsókna og eflingar ylræktar í landinu. Starfsemi Orf líftækni hf. er hvorki  landbúnaður né matvælaframleiðsla. Starfsemin kemur ekki til með að vera atvinnuskapandi fyrir svæðið. Til þess er reksturinn allt of sérhæfður og starfsmenn munu koma tímabundið frá öðrum starfstöðvum fyrirtækisins Ekki hefur farið fram lögformlegt mat á umhverfisáhrifum vegna almennrar starfsemi Orf líftækni hf. Leyfisdrögin hafa verið skoðuð af hópnum. Hópurinn skrifaði Umhverfisstofnun bréf þ. 28. nóvember sl. og óskað eftir að fá leyfisdrögin til skoðunar. Þeirri beiðni var ekki sinnt strax og borið við veikindum innan stofnunarinnar. Leyfisdrögin bárust hópnum því ekki fyrr en leyfið hafði verið gefið út (sbr. svar frá starfsmanni UST) eða þ. 1. desember sl. en beiðni um að sjá leyfið sjálft var ekki sinnt þrátt fyrir ákvæði í 3. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996. Leyfið, greinargerð og umsagnir voru síðan ekki birt á vef Umhverfisstofnunar fyrr en þ. 13. desember sl. Leyfið er stimplað afgreitt af stofnuninni þ. 2. desember sl. eða einum degi eftir að stofnunin tilkynnti hópnum að leyfið hafi þegar verið gefið út. Í leyfinu segir m.a. „Komi nýr aðili að rekstrinum getur hann sótt um til UST að leyfið verði fært yfir á hann, án þess að gefið verði út  nýtt leyfi. Með umsókninni skulu fylgja gögn sem sýna fram á að rektaraðilinn hafi tekið við rekstrinum.“ Þetta ásamt fjölmörgum öðrum atriðum er algjörlega óásættanlegt. Umhverfisstofnun lagði áherslu á fljóta afgreiðslu leyfisins og því má draga þá ályktun að leyfisveitingunni hafi verið flýtt til að komast hjá því að uppfylla þær skyldur, sem ný lög kveða á um sbr. að Árósasamningurinn um samráð við almenning og félagasamtök tekur gildi 1. janúar 2012 hér á landi. Margvísleg rök mæla sterklega gegn útleigu Landbúnaðarháskóla Íslands á tilraunagróðurhúsunum að Reykjum í Ölfusi, til ræktunar erfðabreyttra afurða Orf líftækni hf., en mannvirkin voru byggð fyrir íslenska ylrækt, þ.e. grænmetis- og blómaframleiðslu, í samstarfi við Samtök garðyrkjubænda árið 2001. Kort sem sýnir 9,6 km radíus frá gróðurhúsunum að Reykjum en það markar mengunarsvæði og þ.m.t. áhrifasvæði skv. stöðlum Soil Association en lífræna vottunarkerfi Vottunarstofunnar Túns er þróað í samræmi við staðla og í samvinnu við Soil Association. Lífræn vottun HNLFÍ er útgefið af Vottunarstofunni Túni. *Greinargerðin er unnin í samráði við eftirfarandi aðila: Heilsustofnun Náttúrulækningafélags Íslands Náttúruverndarsamtök Suðurlands Vor – Verndun og ræktun, félag framleiðenda í lífrænum búskap  Samtök lífrænna neytenda Slow Food samtökin á Íslandi Önnu Heiðu Kvist, garðyrkjufræðing Birgi Þórðarson, náttúrufræðing Einar Bergmund Arnbjörnsson, tækniþróunarstjóra Náttúran.is Guðrúnu A. Tryggvadóttur, framkvæmdastjóra Náttúran.is Vísað er til eftirfarandi laga og reglugerða er varða mál þetta; Lög 182/1996 um erfðabreyttar lífverur http://www.althingi.is/lagas/nuna/1996018.html Reglugerð 276/2002 um afmarkaða notkun erfðabreyttra lífvera, annarra en örvera.

Continue Reading→

Endurvinnsla um jól og áramót

Um jól og áramót safnast að jafnaði mikið upp af rusli á heimilum landsins. Mikið af því má þó endurvinna, þó ekki allt. T.a.m. flokkast jólapappír með glimmeri og málmögnum ekki undir venjulegt pappírsrusl og verður að flokka sem óendurvinnanlegt sorp. Sjá meira um jólagjafir og umbúðirnar. Í flestum stærri bæjarfélögum eru jólatrén sótt á ákveðna söfnunarstaði eftir þrettándann. Þau eru síðan kurluð og nýtt t.d. í moltugerð. Sjá meira um umhverfisáhrif jólatrjáa. Við skilagjaldsskildum umbúðum s.s. flöskum og dósum taka móttökustöðvar Endurvinnslunnar hf. um allt land. Þú finnur þær allar hér á Endurvinnslukortinu og upplýsingar um opnunartíma. Einnig á Endurvinnslukorts-appinu okkar fyrir iPhone og iPad. Meira um endurvinnslu og moltu almennt hér í Húsinu og umhverfinu en þar er líka allt um umhverfis- og heilsutengda þætti hvers hlutar í daglegu lífi okkar. Nú stendur hinn árlegi atburður „sprengjum gamla árið í tætlur“ fyrir dyrum. Sprengigleði landsmanna virðist aukast ár frá ári og hafa peningar eða mengun þar engin áhrif á. Talið er að hér á landi verði skotið á loft þúsund tonnum af sprengiefni í ár. Í stóra samhenginu eru áhrifin gífurlega neikvæð fyrir umhverfið og er í raun ófyrirgefanleg forheimskun að úða þessum eiturefnum út í andrúmsloftið, jarðveginn og í lungun á okkur. En viljinn til að sprengja og hrökkva í kút eitt og eitt augnarblik í senn og gapa af undrun og aðdáun yfir ljósarósum á lofti einn dag á ári, er kannski skárra en að sprengiþörfin brjótist út á enn neikvæðari hátt, út allt árið eða í stríðsrekstri. En sprengiþörfin er óumdeilanleg staðreynd og mun Náttúran.is lítið hafa um það að segja annað en upplýsa um áhrif og afleiðingar og ekki síst um leiðir til að halda umhverfisáhrifum í skefjum eins og kostur er. Aukin umhverfisvitund á síðan í framtíðinni vonandi eftir að leiða til þess að flugeldar valdi minni umhverfisáhrifum og fólk kjósi frekar að sprengja minna og velja umhverfis- og heilsusamlegri leiðir til að fagna nýju ári. Þar sem að sú draumastaða er ekki veruleiki dagsins í dag getum við aðeins bent á leiðir til að velja minna skaðlega áramótasiði og að hjálpa okkur að flokka og endurvinna leifarnar af því skaðlega rétt. Ekki er æskilegt setja gamlar rakettur hvað þá skottertur í ruslatunnurnar. Náttúran hefur sent nokkrar fyrirspurnir til sorpstöðva og mun birta niðurstöðurnar þegar að þær berast. Hver og einn getur líka haft samband við endurvinnslustöðvar síns sveitarfélags bæði til að komast að því hvernig flokkun og endurvinnslu á þessum eitruðu leifum gamlárskvöldsins skuli háttað og til að sýna að þeim sé annt um að sveitarfélgin hugi rækilega að þessum málum. Sjá hér á Endurvinnslukortinu hver tekur við hvaða tegund af rusli, hvar á landinu. Sæktu Endurvinnslukorts-appið fyrir iPhone eða iPad til að fræðast um endurvinnslu og sjá hvar mótttaka á endurvinnanlegu rusli er á landinu öllu. Grafík: Efri mynd; jólatré og umbúðirnar, neðri mynd; líf vex af dauðu, Guðrún Tryggvadóttir ©Náttúran.is.

Continue Reading→

Vetraríþróttasvæði

Á Græna kortinu er hægt að fá upplýsingar um vetraríþróttasvæði. Skilgreiningin sem við flokkum eftir er eftirfarandi: Skíðasvæði fyrir almenning sem eru með skíðalyftur, skíðaskála og aðra þjónustu. Sjá nánar um vetraríþróttasvæði hér á Græna kortinu undir flokknum "Vetraríþróttasvæði". Grafík: Myndtákn Green Map® System flokksins „Vetraríþróttasvæði“.

Continue Reading→

Eplaediksbað

Eplaedikið jafnar sýrustig húðarinnar. Feit og óhrein húð hreinsast og nærist við eplaediksbað. Setjið 250 ml af eplaediki í baðvatnið. Verið a.m.k. 15 mínútur í baðinu, þannig nær húðin að taka upp nægilega sýru úr edikinu.

Continue Reading→

Nýtt húsnæði Veðurstofu Íslands tekið í notkun

Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra tók á föstudag formlega í notkun nýtt húsnæði Veðurstofu Íslands að Bústaðavegi 7 í Reykjavík. Er þá Veðurstofan sameinuð til húsa að Bústaðavegi 7 og 9, í stað nokkurra staða á höfuðborgarsvæðinu áður.

Continue Reading→

Nefnd um landsskipulagsstefnu skipuð

Umhverfisráðherra hefur skipað ráðgjafarnefnd um gerð landsskipulagsstefnu. Hlutverk nefndarinnar er að vera ráðherra og Skipulagsstofnun til ráðgjafar og samráðs við undirbúning og gerð landsskipulagsstefnu.

Continue Reading→

Frestur til að sækja um styrki til verkefna framlengdur

Umhverfisráðuneytið hefur ákveðið að framlengja umsóknarfrest vegna styrkja til verkefna er stuðla að faglegri uppbyggingu á sviði umhverfismála til 23. desember 2011.

Continue Reading→

Samkomulag í loftslagsmálum í Durban

Samkomulag náðist aðfararnótt sunnudags á loftslagsráðstefnunni í Durban í Suður-Afríku um aðgerðir til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Meginþættirnir í samkomulaginu eru að þróuð ríki taka á sig lagalega bindandi skuldbindingar um minnkun losunar á vettvangi Kýótó-bókunarinnar eftir 2012, en nýtt samningaferli sem tekur til allra ríkja á að hefjast strax á næsta ári og leiða til samkomulags árið 2015, sem sé lagalega bindandi.

Continue Reading→

Nýtt norrænt loftslagsverkefni kynnt í Durban

Nýtt átak Norðurlandanna um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, Nordic Partnership Initiative (NPI), var kynnt á loftslagsráðstefnunni í Durban í Suður Afríku í gær. Átakið sem er styrkt af norrænu ráðherranefndinni, miðar að því að aðstoða Perú og Víetnam við að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda frá mengandi starfsemi á borð við sorpvinnslu og sementsframleiðslu.

Continue Reading→

Auglýst eftir umsóknum um styrki úr Veiðikortasjóði

Umhverfisráðuneytið hefur auglýst eftir umsóknum um styrki til rannsókna á stofnum villtra dýra sem heimilt er að veiða, skv. lögum um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum. Skriflegar umsóknir skulu berast ráðuneytinu, Skuggasundi 1, 150 Reykjavík, merktar Veiðikortasjóður, fyrir 20.desember 2011.  

Continue Reading→

Grænfáninn eflist á fullveldisdegi

Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra, Katrín Jakobsdóttir menntamálaráðherra og Guðmundur Hörður Guðmundsson, formaður Landverndar, undirrituðu í dag þriggja ára styrktarsamning vegna Skóla á grænni grein, eða Grænfánaverkefnisins svokallaða.

Continue Reading→

Vatnsnýting í byggingum í brennidepli hjá ESB

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur hleypt af stokkum ráðgjafarferli á netinu þar sem óskað er eftir áliti almennings á þeim kostum sem ESB stendur frammi fyrir þegar kemur að því að auka nýtni vatns í byggingum.

Continue Reading→

Skólar á grænni grein eflast

Skólum á grænni grein vex fiskur um hrygg á fullveldisdaginn, 1. desember. Þá verður undirritaður þriggja ára styrktarsamningur milli umhverfisráðuneytisins, mennta- menningarmálaráðuneytisins og Landverndar, sem stýrir verkefninu en það er einnig þekkt sem Grænfánaverkefnið.

Continue Reading→

Umsóknarfrestur vegna styrkja framlengdur til 12. desember 2011

Umsóknarfrestur vegna styrkja sem Alþingi veitti áður hefur verið framlengdur til 12. desember. Skal umsóknum skila til viðkomandi ráðuneytis fyrir kl. 16:00 mánudaginn 12. desember 2011.

Continue Reading→

Óskað eftir tilnefningum til Náttúru- og umhverfisverðlauna Norðurlandaráðs

Norðurlandaráð óskar eftir tilnefningum til 18. Náttúru- og umhverfisverðlauna ráðsins. Þema verðlaunanna árið 2012 er líffræðileg fjölbreytni og er frestur til að skila tilnefningum 12. desember.

Continue Reading→

Loftslagsviðræður hafnar í Durban

Ísland er meðal þeirra ríkja sem hafa lýst sig reiðubúin til að taka á sig skuldbindingar undir Kýótó-bókuninni svokölluðu á nýju tímabili hennar, náist um það alþjóðlegt samkomulag.

Continue Reading→

Friðlýsing og deiliskipulag Jökulsárlóns til umræðu

Umhverfisráðuneytið og sveitarfélagið Hornafjörður standa saman að ráðstefnu um deiliskipulag og hugmyndir um friðlýsingu vestanverðs Jökulsárlóns á Breiðamerkursandi næstkomandi fimmtudag. 

Continue Reading→

200 umsagnir um drög að þingsályktun um rammaáætlun

Síðustu 12 vikurnar hefur staðið yfir opið samráðs- og kynningarferli um drög að þingsályktun iðnaðarráðherra og umhverfisráðherra um verndun og nýtingu náttúrusvæða með áherslu á vatnsafl og jarðhitasvæði. Umsagnarferlinu lauk á miðnætti og bárust um 200 umsagnir, endanlegur fjöldi liggur ekki alveg strax fyrir þar sem enn geta verið umsagnir á leið í pósti.

Continue Reading→

Landgræðsluverðlaunin veitt í gær

Landgræðsluverðlaunin voru veitt við hátíðlega athöfn í Gunnarsholti í gær. Ingimar Sigurðsson, skrifstofustjóri í umhverfisráðuneytinu ahenti verðlaunin fyrir hönd umhverfisráðherra.

Continue Reading→

Kynningarfundir vegna hvítbókar um náttúruvernd

Umhverfisráðuneytið efnir til almennra kynningarfunda á nokkrum stöðum á landsbyggðinni vegna hvítbókar, sem nefnd um endurskoðun náttúruverndarlaga skilaði af sér í haust og felur í sér heildarúttekt á lagaumhverfi náttúruverndar á Íslandi.

Continue Reading→