Search

Prentsmiðjan Oddi fær Svansvottun

Stærsta prentsmiðja landsins hefur fengið vottun norræna umhverfismerkisins Svansins. Prentsmiðjan Oddi hefur náð þeim árangri að standast kröfur Svansins. Það tryggir að fyrirtækið er í fremstu röð hvað varðar lágmörkun neikvæðra umhverfis- og heilsuáhrifa.

Continue Reading→

Ný fiskimjölsverksmiðja HB Granda Vopnafirði

Umhverfisstofnun auglýsir tillögu að starfsleyfi til handa HB Granda h.f. til reksturs fiskimjölsverksmiðju á Vopnafirði þar sem framleitt verður fiskimjöl og lýsi úr fiski og fiskúrgangi. Í tillögunni er gert ráð fyrir að hámarksafköst verksmiðjunnar séu miðuð við að framleitt verði úr 850 tonnum af hráefni á sólarhring.

Continue Reading→

Niðurstaðan í Kaupmannahöfn

Þriðjudaginn 12. janúar kl. 12.00-13.30 verður haldið 16. stefnumót umhverfisráðuneytisins og Stofnunar Sæmundar fróða.

Continue Reading→

Sveitarfélögin á Snæfellsnesi hljóta endurnýjaða umhverfisvottun!

Sveitarfélögin á Snæfellsnesi hafa státað sig af umhverfisvottun á starfsemi sinni frá árinu 2008, þau einu á Íslandi. Til þess að viðhalda slíkri vottun er krafist vöktunar á auðlindanýtingu og ýmsum umhverfisþáttum auk stöðugra úrbóta í umhverfis- og samfélagsmálum. Árlega er starfsemin tekin út af óháðum aðila vegna endurnýjunar á vottun. Rétt fyrir jólin kom á svæðið úttektaraðili til þess að fara yfir vinnu síðasta árs og meta svæðið með mögulega endurnýjun á vottun í huga. Þann 16. janúar sendu svo EarthCheck vottunarsamtökin tilkynningu um að vottun hefði náðst fyrir árið 2012. Nú skartar Snæfellsnes því nýju merki Earth Check fyrir árið 2012. Með þessu hefur grunnur verkefnisins verið treystur enn frekar. Framtíðarsýn verkefnisins er sterk hvað varðar fjölbreytt verkefni, kynningarstarf og mögulega útvíkkum til fleiri sveitarfélaga. Sjá yfirlit yfir þá aðila sem hafa Earth Check vottun hér á Grænum síðum.

Continue Reading→

Garðfuglahelgi Fuglaverndar 27. - 30.jan. 2012

Árleg garðfuglahelgi Fuglaverndar verður dagana 27. - 30. jan. en gott er að hefja undirbúning talningar allt að viku áður með því að lokka að fuglana með fóðurgjöfum. Framkvæmd athugunarinnar er einföld. Það eina sem þátttakandi þarf að gera er að fylgjast með garði í einn klukkutíma einhvern þessara daga, skrá hjá sér hvaða fuglar koma í garðinn og mesta fjölda af hverri tegund á meðan athugunin stendur yfir. Misjafnt er hvaða fóður hentar hverri fuglategund en upplýsingar um garðfugla og fóðrun þeirra má m.a. finna á vefsíðu Fuglaverndar www.fuglavernd.is og í Garðfuglabæklingnum sem fæst á skrifstofu félagsins. Að lokinni athugun skal skrá niðurstöðurnar á þar til gert eyðublað og senda til Fuglaverndar í tölvupósti eða bara í pósti í Skúlatún 6. Einnig er hægt að skrá niðurstöðurnar hér.Til gamans má segja frá því að 18 tegundir sáust í görðum í fyrra sem er met en 261 skiluðu inn niðurstöðum – þrátt fyrir óhagstætt veður til garðfuglaskoðunar. Samtals voru 7287 fuglar í görðum, flestir starar eða 3294. Síðan vill Fuglavernd minna kattareigendur á að halda köttum sínum inni sérstaklega í ljósaskiptunum þegar fuglarnir eru auðveld bráð.Meðfylgjandi eru fjórar myndir af garðfuglum sem Örn Óskarsson tók. Hópur snjótittlinga gæðir sér á kurluðum maís. Gæfur auðnutittlingur étur úr lófa ljósmyndarans. Gráþröstur og silkitoppa gæða sér á epli. Báðir frekar sjaldséðir fuglar í görðum. Skógarþröstur, stari og svartþröstur skeggræða yfir gómsætu epli. Það má hafa samband við þessa aðila: Örn Óskarsson, sími: 846 9783, ornosk@fsu.isÓlafur Einarsson, sími: 899 9744, olafur.einarsson@gmail.com Ljósmynd: Garðfuglar, Örn Óskarsson.

Continue Reading→

Bækur á Náttúrumarkaði

Bækur eru yndislegt verkfæri, hvort heldur sem er til afþreyingar, til að skilja heiminn sem við lifum í eða menntunar. Menningar- og menntunarstig þjóða er oft metið í leskunnáttu og bókarlestri. Íslendingar eru menningarþjóð sem leggur mikið upp úr lestri og kaupir mikið af bókum sem eftir lestur verða því miður fangar bókahilla í ár eða áratugi. Hvernig væri að frelsa bækurnar úr bókahillunum. Þegar þú ert búinn að lesa ákveðna bók, hvernig væri að skrifa fremst í hana hver þú ert og hvenær þú last hana. Skilja hana síðan eftir á almennum stað, eins og strætó eða kaffihúsi svo að aðrir geti notið hennar. Bókin verður marglesin öðrum til ánægju. Frá umhverfissjónarmiði fer minni pappír í að prenta fáar bækur sem eru marglesnar í stað margra bóka sem eru lesnar af fáum.Einnig má gefa bækur til vina eða koma til fornsölu. Bækur eru pappírsfrekar og til pappírsframleiðslu þarf skóglendi. En pappír í bókum er minniháttar mál miðað við öll dagblöð sem eru keypt og hent næsta dag. Á löngum tíma eyðist pappírinn og brotnar niður. Endurunninn pappír er notaður í grófari pappírsframleiðslu s.s. klósettpappír. Sýrustig pappírs er eitt af því sem að umhverfismerkingar taka viðmið af. Svanurinn umhverfismerki Norrænu Ráðherranefndarinnar tekur til framleiðsluferlis og umhverfisáhrifa pappírs. Öllum er velkomið að selja eða kynna bækur sem og aðrar vörur í gegnum Náttúrumarkaðinn. Skoða bókadeild Náttúrumarkaðarins.

Continue Reading→

Sú orka sem þarf til að framleiða hálft kíló af mat

Olíutunnan - oildrum.com hefur sett fram áhugaverðar upplýsingar um það hve mikla orku þarf til að framleiða mismunandi fæðutegundir; Ég setti gögnin upp í súlurit (sjá hér að ofan) og í ljós kom að flestir ættu að hugsa sig um og gerast Vegan eða grænmetisætur a.m.k. á virkum dögum; ostur þarfnaðist álíka mikillar orku í framleiðslu eins og kjöt. Tafla 2: Skilvirkni orkunýtingar fyrir ýmsar mismunandi fæðutegundir (Mælt sem: Fæðukaloríur/Orka sem er notuð við framleiðslu) Tafla tvö sýnir samanburð á skilvirkni orkunýtingar við framleiðslu ýmissa matvæla. Eftirfarandi er sérstaklega eftirtektarvert:Það þarf um 25 sinnum meiri orku til að framleiða eina kaloríu af nautakjöti en að framleiða eina kaloríu af korni til manneldis. Mjólkurvörur eru almennt nokkuð skilvirkar orkulega séð þar sem þær innihalda margar kaloríur miðað við rúmmál. Þeir sem aðhyllst Vegan mataræðið geta verið stoltir af því að mataræði þeirra felur í sér um 90% minni orkunotkun en hið almenna bandaríska mataræði gerir. Jafnvel þeir sem borða einungis egg og mjólkurvörur geta haldið því fram að þeir ný ti orku til framleiðslu matvæla mjög skynsamlega. Þannig að osturinn er ekki svo slæmur sé horft á það hversu margar kaloríur eru í hverju oststykki. Kannski er nóg að vera grænmetisæta á virkum dögum og taka þannig skref í átt til þess að bæta umhverfið. Meiri upplýsingar er að finna á síðunni The Oil drum www.oildrum.com. Súlurit og tafla teiknaðar og íslenskaðar eftir fyrirmynd á theolidrum.com, Guðrún Tryggvadóttir Náttúran.is.

Continue Reading→

Baðherbergið - Skyndihjálp

Hringið í Neyðarlínuna 112 ef slys ber að höndum. Ef um minni skrámur eða veikindi er að ræða er góður sjúkrakassi eitt það allra nauðsynlegasta á heimilinu. Einnig er gott að hafa mikilvægustu símanúmer á ísskápshurðinni og á miða í sjúkrakassanum. Plástrar í ýmsum stærðum, sáraumbúðir, teygjubindi, verkjalyf og sótthreinsandi áburður er það allra nauðsynlegasta. Það er staðreynd að flest slys hér á landi verða innan veggja heimilisins. Sérstaklega þarf að gæta varúðar ef smábarn er á heimilinu. Þá þarf að taka öll sterk efni og þvottaefni, lyf og rafhlöður svo eitthvað sé nefnt og geyma þar sem börn hvorki ná til né sjá. Best er að fara reglulega á námskeið í hjálp í viðlögum og vera þess meðvitaður að alltaf getur eitthvað komið fyrir og nauðsynlegt er að vita hvernig maður bregst best við tilteknum aðstæðum. Líf getur legið við, þitt eða annarra. Víða um landið halda deildir Rauða krossins skyndihjálparnámskeið fyrir almenning. Á hverju ári fara um  6 þús. til 8 þús. manns á slíkt námskeið. Samkvæmt samningi við íslensku ríkisstjórnina, hefur Rauði Kross Íslands yfirumsjón með fræðslu um skyndihjálp, leggur fram kennsluefni og tryggir að verið sé að nota nýjustu aðferðir. Rauði Krossinn heldur einnig námskeið um félagslega- og sálræna aðstoð, og skipuleggur neyðaraðstoð þegar stór slys verða eða náttúruhamfarir.Símanúmer hjá heimilislækni, aðstandendum og næstu heilsugæslustöð ættu að vera í sjúkrakassanum og á ísskápshurðinni. Einnig upplýsingar um ofnæmi, lyfjatöku eða annað sem kemur heilsu heimilisfólks við.

Continue Reading→

Samgöngur á vatni

Á Græna kortinu er hægt að fá upplýsingar um samgöngur á vatni. Skilgreiningin sem við flokkum eftir er eftirfarandi: Ferjur á Íslandi sem sigla samkvæmt fastri áætlun. Sjá nánar um samgöngur á vatni hér á Græna kortinu undir flokknum „ Samgöngur á vatni". Grafík: Myndtákn Green Map® System flokksins „Samgöngur á vatni“.

Continue Reading→

Ný vefsíða um vítamín og bætiefni

Vefsíðan www.vitamin.is var opnuð rétt fyrir áramót. Síðan er unnin af starfsfólki Icepharma með það að markmiði að veita upplýsingar um þær vítamínlínur og bætiefni sem fyrirtækið hefur upp á að bjóða. "Á vitamin.is er líka að finna almennan fróðleik um vítamín og bætiefni auk frétta af ýmsu sem er að gerast hér á landi og erlendis og tengist vítamínum og heilsu," segir Edda Blumenstein, markaðsstjóri Icepharma. Á vitamin.is er fólki einnig boðið að skrá sig á póstlista. Með skráningu mun fólki berast upplýsingar um tilboð, nýjungar og ýmsan áhugaverðan fróðleik. Fyrstu 200 sem skrá sig á póstlista vitamin.is fá gefins vikuskammt úr Vitabiotics-vítamínlínunni.Edda segir hugmyndina að síðunni hafa vaknað fyrir nærri tveimur árum, en þá þótti vanta síðu þar sem hægt væri að nálgast upplýsingar um mismunandi tegundir af vítamínum og bætiefnum og virkni þeirra á einum stað. "Á síðunni eru greinargóðar upplýsingar um hvert og eitt vitamin sem við bjóðum. Enn fremur hvaða virkni viðkomandi vítamín hefur, hvaðan það er sprottið, hvernig skortur eða ofneysla á því lýsir sér, hverjar geta verið aukaverkanir og auk þess upplýsingar um ráðlagða dagskammta," upplýsir Edda. Hún bendir hins vegar á að þótt upplýsingarnar á síðunni séu góðar og gildar, sé fólki ávallt ráðlagt að leita ráða hjá fagfólki áður en það ákveður að taka inn ákveðin vítamín og bætiefni.Á vitamin.is er hægt að leita upplýsinga eftir vörulínum, en auk þess er sérstakur tengill á einstaka heilsuflokka. "Þar er hægt að skoða hvaða vítamín henta mismunandi hópum fólks með ólíkar þarfir. Sem dæmi um flokka má nefna: breytingaskeið, húð, hár og neglur, karlar, konur, meðganga, orka, ónæmiskerfið og sport-vítamín," segir Edda.

Continue Reading→

Umhverfismerkt - viðmið

Vörur sem merktar eru umhverfismerkingum hafa uppfyllt kröfur um gæði og takmörkun umhverfisáhrifa. Svanurinn, Evrópublómið o.fl. eru trygging neytenda fyrir gæðavöru, sem skaðar umhverfi og heilsu minna en aðrar sambærilegar vörur. Tilgangur umhverfismerkinga er „að hjálpa neytendum að velja vörur sem hafa minni áhrif á umhverfi og heilsu en aðrar sambærilegar vörur“. Umhverfismerking einstakrar vöru eða þjónustu er staðfesting á að framleiðandinn hefur uppfyllt fyrirfram skilgreind skilyrði við framleiðslu vörunnar, sem dæmi er gerð krafa um hráefni, umbúðir og áhrif vörunnar á líftíma hennar. Þetta er metið af óháðum, úttektaraðila (ekki fyrirtækinu sjálfu eða viðskiptavini þess). Hér er mikilvægt að gera greinarmun á vottuðu umhverfismerki og umhverfismerkjum framleiðanda. Hér verður einungis talað um vottuð þriðja aðila merki þar sem þau eru talin trúverðugust. Einnig skal varast að blanda saman umhverfisvottun fyrirtækja og vottuðum umhverfismerkjum. Umhverfisvottun fyrirtækja (ISO 14001) staðfestir að í fyrirtækinu séu ákveðnir verkferlar sem taka tillit til umhverfismála í starfsemi fyrirtækisins. Umhverfisvottun fyrirtækja segir ekkert til um umhverfisáhrif varanna sem fyrirtækið framleiðir eða selur. Sem dæmi má nefna að málningarframleiðandi eða söluaðili getur haft ISO 14001 vottun án þess að það segi nokkuð um umhverfisáhrif málningarinnar. Að segja að vara sem umhverfisvæn af því að framleiðandinn er með vottað fyrirtæki er sama og að segja að bensín sé umhverfisvænt af því að viðkomandi olíufélag er með vottað umhverfisstjórnunarkerfi samkvæmt ISO 14001. Umhverfismerki taka hins vegar til vörunnar eða þjónustunnar en segja ekkert um umhverfisstarf fyrirtækisins að öðru leyti. Umhverfismerki og umhverfisstjórnunarkerfi geta skarast þegar merkið nær yfir þjónustu, erfitt getur verið að gera greinarmun á sjálfri þjónustunni og fyrirtækinu sem veitir hana. Það er til dæmis ómögulegt að merkja hótelgistingu án þess að setja umhverfisskilyrði sem snerta rekstur sjálfs hótelsins. Kröfurnar snerta því fyrirtækið sem veitir þjónustuna til að tryggja að þjónustan sé umhverfisvæn. Umhverfismerki Óháður þriðji aðili setur ákveðnar kröfur um árangur eða umhverfiseiginleika vöru sem verið er að merkja. Varan eða þjónustan uppfyllir skilyrðin og fær merkingu. Umhverfisvottun fyrirtækja: Fyrirtækið ákveður sjálft hverjir séu helstu umhverfisþættir í starfsemi sinni. Óháður aðili gerir úttekt hvort fyrirtækið hafi ákveðna verkferla til að vinna að umhverfismálum. Enginn úttekt er gerð á vörum fyrirtækisins. Umhverfismálin eru oft flókin, þau fjalla um flókna efnafræði, gróðurhúsaáhrif, áhrif á vistkerfi og svo framvegis. Umhverfismerking auðveldar framleiðandanum að miðla til neytenda framlagi sínu til umhverfismála, neytandinn sparar tíma og fyrirhöfn þess að þurfa að kanna áreiðanleika upplýsinga. Svanurinn og Evrópublómið eru merki sem neytendur geta treyst og ná yfir breitt úrval vöruflokka. Kröfur fyrir vottun vara eru þar að auki í reglulegri endurskoðun. Um lífrænt ræktað matvörur og hráefni gilda merkingarnar Tún og EU-merkið. Þetta eru dæmi um óháð og ábyrg umhverfismerki, en þau eru fleiri. Mikilvægt er að þekkja til merkinganna og vita að hverju gengið er. Að þróa skilyrði fyrir umhverfismerkingu er æði kostnaðarsamt. Umhverfismerkin eru fjármögnuð að mestu leyti með gjaldtöku af seldum vörum. Til dæmis er kerfi Svansins á þá leið að 0,4 % af heildsöluverði vöru rennur til umsýslu og markaðsstarfs Svansins upp að ákveðnu hámarki þó sem er 200.000 krónur á Íslandi. Svanurinn er merki Norrænu ráðherranefndarinnar og er að hluta fjármagnaður þaðan. Fjármögnun annarra umhverfismerkja er með sams konar hætti, í gegnum sölu á vörunni eða þjónustunni. Önnur óskilgreind merki Vörumerkingar verða æ algengari. Fjöldinn allur af merkjum birtast okkur sem gefa til kynna mismunandi hluti. Þessi fjöldi getur gert neytendum erfitt fyrir að lesa í skilaboðin og hafa yfirlit yfir þýðingu þeirra. Merkjum sem vísa til umhverfissins má gróflega skipta í þrennt: Í fyrsta lagi eru það viðurkennd, merki vottuð af þriðja aðila, í öðru lagi umhverfismerki sem framleiðendur sjálfir merkja vörur sínar með og í þriðja lagi merki sem hafa ekkert með umhverfisstarfs fyrirtækisins að gera og geta verið villandi. Tvo síðastnefndu flokkana getur verið erfitt að aðgreina. Eigin merki framleiðenda eru ekki jafn trúverðug og traust og fyrrgreind merki sem eru metin af óháðum aðila. Ýmis merki geta verið villandi – þau segja ekkert til um það hvort og hvernig varan hafi áhrif á umhverfið. Nákvæmar upplýsingar um hvaða aðilar á Íslandi eru með umhverfisvottun og vottuð umhverfisstjórnunarkerfi er að finna hér á Grænum síðum. Þú velur þann flokk sem við á eða slærð inn leitarorð í leitarreitina. Hver og ein vara á Náttúrumarkaði er einnig tengd upplýsingum um vottanir, séu þær fyrir hendi. Sjá greinar um öll umhverfismerkin í undirflokknum Umhverfi::Umhverfismerki en þau tengjast einnig gagnagrunni okkar og birtast einnig með vörum og aðilum alls staðar sem þau eiga við.

Continue Reading→

Opin málstofa um inntak og áherslur nýrra laga um landgræðslu

Nefnd, sem umhverfisráðherra skipaði á vordögum til að semja greinargerð um inntak og áherslur nýrra landgræðslulaga boðar til málstofu til að kalla eftir sjónarmiðum og ábendingum varðandi vinnu nefndarinnar.

Continue Reading→

Kadmíum

Kadmíum er eins og kvikasilfur talið eitt af hættulegustu eiturefnum í þjóðfélaginu í dag þar sem það er frumefni og eyðist aldrei úr náttúrunni. Heilsuáhrif Fólk fær í aðallega í sig kadmíum í gegnum matinn sem það borðar. Kornvara, rótarávextir og grænmeti standa fyrir um 75 prósent af kadmíum sem fólk fær í sig. Kadmíum finnst einnig í innanmat, skeldýrum og vissum sveppum. Konur eru taldar hafa meira magn af kadmíum í líkamanum en menn almennt. Er þetta talið stafa af að járn í blóði kvenna á barnseignaraldri er minna en hjá karlmönnum og þessi járnskortur leiðir til aukinnar upptöku kadmíums úr fæðunni. Kadmíum safnast aðallega fyrir í nýrunum og skaða þau en er einnig talið krabbameinsvaldandi. Magn kadmíums í ný rum eykst með aldri og helmingunartími þess er á bilinu 10-30 ár. Það magn sem veldur skaða á nýrum virðist einnig valda beinþynningu. Viðmiðunarmörk Í byrjun áttunda áratugarins ákvað WHO/FAO að hæsta vikulega magn af kadmíum í fæðu væri 7 µg/kg líkamsþyngd sem er á bilinu 60 til 70 µg á dag fyrir fullorðið fólk. Þetta byggist hins vegar á rannsóknum á þeim tíma. Nýrri rannsóknir benda hins vegar til að fólk sé mun viðkvæmara fyrir kadmíum en áður var talið. Eitrunaráhrif eru talin koma fram við magn lægri en 50 mg kadmíum/kg ný rnabörkur. Árið 2001 setti EU viðmiðunarmörkin við 0,1 µg/kg fyrir kornmeti. Sum Norðurlandanna hafa sett sér sem markmið að hætta allri notkun kvikasilfurs í samfélaginu. Kadmíum í samfélaginu Kadmíum er fremst úr vissum iðnaðarferlum og rafhlöðum, svokölluðum nikkel-kadmíum rafhlöðum. Losun kadmíums í andrúmsloftið er fremst í gegnum sorpbrennslu og urðun. Kadmíum getur ferðast töluverðar vegalengdir með loftstraumum og er talið að stærsti hluti kadmíummengunar á norðurlöndum komi frá Mið- og Suðurevrópu. Kadmíum hefur einnig verið notað í málningu og pvc plasti en sú notkun hefur minnkað mjög mikið.

Continue Reading→

Solla enn á ný á lista yfir bestu hráfæðikokka heims

Á undanförnum árum hefur Solla Eiríksdóttir náð miklum vinsældum sem hráfæðikokkur, ekki hvað síst í Bandaríkjunum. Eins og undanfarin ár er Solla tilnefnd í samkepninni um besta hráfæðikokk heims, Raw Vegan Simple Chef og Gourmet Raw Chef, einni virtustu kosningu innan hráfæðiheimsins. Það er mikill heiður fyrir Sollu að vera enn á ný tilnefnd ásamt öllum þeim bestu í faginu og frábært fyrir Íslending að ná svo langt. Við hvetjum alla þá sem þekkja til matreiðslufærni Sollu að taka þátt í kosningunni. Þú þarft að skrá þig inn og smella á Wote for people (fjólublái takkinn) síðan skrollar þú niður og leitar að Solla Eiriksdottir en hún er listuð í tveim flokkum. Kosning: www.BestofRaw.net. Ljósmynd: Solla hráfæðisfrömuður.

Continue Reading→

Náttúran.is fékk umhverfisstyrk frá Landsbankanum

Á mánudaginn leið afhenti Landsbankinn 17 aðilum umhverfisstyrki sem auglýstir höfðu verið lausir til umsóknar í nóvember 2011. Umhverfisstyrkjunum er ætlað er að styðja við verkefni á sviði umhverfismála og náttúruverndar. Styrkirnir byggja á nýrri stefnu bankans um samfélagslega ábyrgð hans og skyldur í samfélaginu. Sjá nánar í frétt hér. Eitt af verkefnunum sem fengu styrk var Endurvinnslukort sem Náttúran.is þróar nú í formi snjallsímaforrits en appinu er ætlað er veita upplýsingar um alla endurvinnslumöguleika í landinu og fræða almenning um umhverfisvernd og sjálfbærni. Fleiri nýjunga er að vænta frá Náttúrunnu á þessu ári en á Degi umhverfisins þ. 25. apríl nk. mun vefurinn fagna 5 ára afmæli sínu og þar með 5 ára ókeypis umhverfisfræðslu fyrir alla. Reyndar rak Guðrún vefinn Grasa-Guddu frá ágúst 2005 svo fréttir um umhverfismál á vef Náttúrunnar ná rúmlega 6 ár aftur í tímann með hátt í 7000 efnisgreinum og fjölda þjónustuliða sem studdir eru af gagnagrunnum með ítarefni yfir þúsundir aðila, vottanir og viðmið, vörur og náttúrugæði. Meira um Náttúruna og starfsemina hér, og helstu þjónustuliði Náttúrunnar hér. Ljósmynd: Dr. Guðrún Pétursdóttir, formaður dómnefndar, Guðrún Arndís Tryggvadóttir stofnandi og framkvæmdastjóri Náttúrunnar og Steinþór Pálsson bankastjóri Landsbankans.

Continue Reading→

Iðnaður

Iðnaður er mikilvægur hluti af atvinnulífi hverrar þjóðar. Hann hefur þó margvísleg áhrif á umhverfi og náttúru sem ekki eru öll af hinu góða. Stór iðnfyrirtæki losa t.d. mikið af gróðurhúsalofttegundum út í andrúmsloftið þótt gerðar séu strangar kröfur til mengunarvarna í starfsleyfum. Umhverfisstjórnun er því mikilvægur þáttur í allri slíkri starfsemi. Gerðar eru kröfur um „grænt bókhald“ hjá slíkum fyrirtækjum auk þess sem mörg þeirra setja sjálfum sér skýr umhverfismarkmið og vinna samkvæmt ítrustu varfærni í umgengni við náttúruna í starfsemi sinni. 44 fyrirtæki halda grænt bókhald*. Þetta er þó ekki nándar nærri nógu útbreyddur metnaður. Umhverfisstjórnunarstaðallinn ISO 14001 er t.a.m. á fáum stöðum í heiminum eins lítið notaður og hér á landi. Aðeins 16 fyrirtæki hafa uppfyllt kröfur ISO 14001 til þessa. Merkja má hve umhverfismeðvituð fyrirtæki eru með því að skoða hvort þau hafi umhverfisvottun, hafi umhverfisstefnu sína aðgengilega og helst á forsíðu heimasíðu sinnar og hvort að fyrirtækið hafi verið verðlaunað af opinberum aðilum fyrir umhverfisstarf sitt. Upplýsingar um öll þessi atriði er að finna hér á „grænum síðum“. *Grænu bókhaldi skilað inn fyrir árið 2011.

Continue Reading→

Safn

Á Græna kortinu er hægt að fá upplýsingar um söfn. Skilgreiningin sem við flokkum eftir er eftirfarandi: Söfn um allt land. Sjá nánar um söfn hér á Græna kortinu undir flokknum „Safn". Grafík: Myndtákn Green Map® System flokksins „Safn“

Continue Reading→

Að baka kartöflur

Á sama hátt og soðnar kartöflur eru undirstaða allrar kartöflueldamennsku má líta á bökuðu kartöfluna sem hulstur af skinni sem heldur utan um innvols sem má blanda með salti og kryddi, smjöri, eggjum, kavíar eða osti og breyta þannig að vild. Stundum er kartaflan bökuð aftur eftir að innihaldinu hefur verið skóflað út og því umbreytt. Bökunarkartöflur ættu að vera nokkuð stórar og þær mega vera mjölmiklar. Þegar kartöflur eru bakaðar þarf hitinn að vera hár. Gera þarf ráð fyrir að minnsta kosti klukkustund. Oft tekur það lengur. Séu kartöflurnar settar beint á plötu eða grind í ofninum verður skinnið stökkt. Ef skinnið er núið með olíu verður það mýkra. Sumir rista lítinn kross í kartöfluna svo gufan komist út, einkum þegar hún á lítið eftir til að fullbakast. Indíánar eru sagðir baka sínar kartöflur grafnar í sand sem má vel gera í stóru fati. Aðrir leggja kartöflurnar í fat með grófu, náttúrulegu salti í botninum. Séu kartöflur vafðar í álpappír eða settar í lokað ílát soðna þær í eigin raka, hvort sem er í ofni eða á grilli. Svo má skera kartöfluna í sneiðar en láta þó botninn haldast heilan svo hún opni sig í eins og ílangt blóm og flettist út, olíubera hana og krydda með timjan eða sesamfræjum. Þá tekur töluvert skemmri tíma fyrir hana að bakast og hitinn má vera góður meðalhiti. Enn ein aðferð er að stinga hreinum þriggja tommu nagla gegnum kartöflurnar til að leiða hitann inn að miðju og skera litlar sneiðar af hvorum enda til að hleypa út raka. Þetta styttir bökunartímann. Til hátíðabrigða skera Frakkar stórar, hráar bökunarkartöflur í tvennt, skrapa mestmegnið innan úr skeljunum, sjóða og stappa það sem skafið var innan úr og blanda með kryddi, pulsukjöti, smjöri og lauk og setja aftur í skelina af hráu kartöflunni. Síðan er þetta bakað við góðan hita í eldföstu fati í 30–60 mínútur. Tímalengdin fer eftir gerð kartöflunnar og stærð. Eða þeir baka kartöfluna fyrst og skera hana síðan í tvennt, skafa innan úr en ekki of vandlega og gera kryddaða, fína mús úr innihaldinu og setja aftur í skelina og hita vel. Bláar kartöflur eru gjarnan ofnsteiktar til að varðveita litareinkennin. Ofninn er þá hitaður í 200 gráður. Á meðan eru kartöflurnar skornar þannig að sneiðarnar verði sem stærstar um sig og rúmlega sentímetra þykkar. Borin er olía á bökunarplöturna. Kartöflusneiðunum er velt varlega upp úr olíu í skál og þær kryddaðar með góðu salti og ferskmöluðum pipar. Þær eru síðan ofnsteiktar fyrst á annarri hliðinni en síðan snúið við og hafðar 20 mínútur á hvorri hlið eða þangað til þær eru orðnar mjúkar. Magnús Gíslason amtmaður velti því fyrir sér í upphafi ræktunar hver væri besti mátinn til þess að venja hjúin sín á kálmeti og jarðepli og þetta var hans niðurstaða: Að húsbændurnir hafi þess konar jafnan á sínu eigin borði og gefi hjúunum leifarnar svo sem annað sælgæti. Að brúka ekki of mikið af því í fyrstunni; Gefa börnunum jarðepli til að hlaupa að eldinum með og steikja; tekur vinnufólkið það vonum bráðar eptir. Börn erlendra stórborga eiga sér mörg hver góðar minningar um að steikja kartöflur yfir eldi í tunnu þangað til skinnið var brunnið og innihaldið smakkaðist af reyk. Úr Blálandsdrottningunni eftir Hildi Hákonardóttur. Bókin er fáanleg hér á Náttúrumarkaði. Mynd: Bakaðar kartöflur. Ljósmynd: Guðrún Tryggvadóttir.

Continue Reading→

Reglugerð sem er þjóðinni til heilla

Reglugerð um merkingar erfðabreyttra matvæla og fóðurs er langþráð réttarbót sem verður öllum landsmönnum, atvinnulífi þeirra og heilbrigði til heilla. Íslendingum er ekki alltaf sýnt um lög og reglur og því er fréttnæmt þegar sett er reglugerð sem sannarlega er öllum borgurum landsins til hagsbóta. Frá og með 1. janúar nýtur þjóðin þess að reglugerð um merkingar erfðabreyttra matvæla (og fóðurs) hefur að fullu tekið gildi. Ástæða er til að þakka núverandi ríkisstjórn – og einkum fráfarandi landbúnaðarráðherra – fyrir að koma þessu langþráða máli í höfn, því reglugerðin mun stuðla að verndun umhverfis, landbúnaðar og heilsufars neytenda. Hún mun bæta skilyrði landbúnaðar til útflutnings og mun að líkindum til lengri tíma litið spara heilbrigðisþjónustunni ómældar fjárhæðir. Merkingarreglugerðin mun ekki hafa neikvæð áhrif í för með sér fyrir innflytjendur, smásöluverslanir eða neytendur, heldur þvert á móti. Innflytjendur sem vilja bjóða upp á bandarískar vörur geta einfaldlega aflað þeirra frá 27 ríkjum ESB eða 24 öðrum ríkjum þar sem erfðabreytt matvæli eru merkt. Til dæmis er Kellogs-kornflex frá Bandaríkjunum (BNA) eða Kanada að líkindum framleitt úr Bt-maís og selt án merkinga, þar sem hvorugt ríkið krefst þess. Kellogs-kornflex framleitt í Evrópu er hins vegar ekki framleitt úr erfðabreyttum maís. Hið sama á við um önnur vinsæl bandarísk matvæli, s.s. morgunkorn, kökur og kex, tómatsósu og grillsósur – sem nær allra má afla frá Evrópu, framleiddra þar undir þekktum bandarískum vörumerkjum. Matvælasalar þurfa ekki að taka á sig aukinn kostnað vegna nýrra merkingareglna, því ef þeir kaupa frá löndum sem merkja erfðabreytt matvæli er frekari vörumerkinga ekki þörf. Og valkostum neytenda fækkar ekki, því flest bandarísk matvæli eru fáanleg frá löndum sem merkja erfðabreytt matvæli. Það er rétt að í sumum tilvikum eru matvæli innflutt beint frá BNA ódýrari en sömu vörumerki innflutt frá Evrópu. En orsakir þess eru m.a. að BNA reyna að koma erfðabreyttum matvælum, sem evrópskir neytendur vilja ekki kaupa, á hvern þann markað annan sem hafa vill. Íslenskum neytendum verður ekki talin trú um að erfðabreytt bandarísk matvæli á niðursettu verði, sem vafi leikur á um í ljósi vísindarannsókna hvort teljist örugg fyrir heilsu okkar, séu vildarkjör. Það er viturlegt af Íslendingum að láta merkja erfðabreytt matvæli, en einnig er mikilvægt að átta sig á því að framtíðin felst ekki í framleiðslu slíkra matvæla, þótt líftækniiðnaðurinn haldi öðru fram. Gögn um heimsframleiðslu þeirra á árinu 2010 sýna að aðeins 3% landbúnaðarlands (148 m ha) voru notuð til ræktunar erfðabreyttra plantna. Nær 80% af þessu svæði var í 3 löndum, BNA (45%), Brasilíu og Argentínu. Í Evrópu er ræktun erfðabreyttra plantna mjög lítil, hefur á síðustu 3 árum minnkað um tæpan fjórðung, dróst t.d. saman um 13% árið 2010 og nam þá einungis 0,06% af landbúnaðarlandi álfunnar. Spánn er eina Evrópulandið sem ræktað hefur erfðabreyttar plöntur (Bt-maís) í verulegum mæli en þar minnkaði framleiðslan árið 2010 um 15%. Hreyfing gegn ræktun erfðabreyttra afurða hefur nú náð öflugri fótfestu meðal 40 þjóða. Í árslok 2010 höfðu nær 300 héruð eða fylki, 4700 sveitarfélög og ríflega 31 þúsund landeigendur lýst svæði sín án erfðabreyttra lífvera. Í Sviss er í gildi bann við ræktun erfðabreyttra plantna til ársins 2013. Á liðnu ári var sett bann við ræktun í Kína til 5 ára og í Perú til 10 ára. Bann Kínverja er athyglisvert því líftækniiðnaðurinn hefur lengi látið sem öll lönd verði að taka upp ræktun erfðabreyttra plantna þar sem Kína hafi eða muni gera það. Í Evrópu eru erfðabreytt matvæli enn á undanhaldi. Innan ESB er einungis leyft að rækta tvær tegundir erfðabreyttra nytjaplantna, Bt-maísyrkið MON810 frá Monsanto og kartöfluyrkið Amflora frá BASF. MON810 er nú bannað í Þýskalandi, Frakklandi, Austurríki, Ungverjalandi, Grikklandi, Lúxemborg, Póllandi og Rúmeníu. Ungverjaland – með stuðningi Austurríkis, Lúxemborgar, Póllands og Frakklands – hefur kært leyfisveitingu ESB á Amflora-kartöflum til Evrópudómstólsins. Jafnvel Bandaríkin – móðurland erfðabreyttra matvæla – endurmeta nú stefnu sína í málefnum erfðabreyttra matvæla, en 14 sambandsríki ræða nú í alvöru þann kost að taka upp merkingar á erfðabreyttum matvælum. Fyrir skömmu gekk fjöldi baráttumanna 313 mílur frá New York til Hvíta hússins til að krefjast slíkra merkinga. Árið 2004 lýsti Mendocino-fylki í Kaliforníuríki sig svæði án erfðabreyttra lífvera. Kaliforníubúar safna nú 700.000 undirskriftum við kröfu um að kosið verði í ríkinu um merkingar erfðabreyttra matvæla. Þá má geta þess að í fulltrúadeild Bandaríkjaþings hefur frumvarp um bann við útiræktun erfðabreyttra lyfja- og iðnaðarplantna í BNA verið lagt fram. Hafa ber í huga að ekki hefur verið sýnt fram á öryggi erfðabreyttra afurða til neyslu manna og búfjár. Það er því gríðarlega mikilvægt að neytendur fái frelsi til að velja við innkaup á matvælum til heimila sinna og sömuleiðis að bændur hafi frelsi við val á fóðri í skepnur sínar. Ástæður stjórnvalda til að lögfesta merkingarskyldu á erfðabreyttum matvælum og fóðri eru óumdeilanlegar og rökréttar. Höfundur er framkvæmdastjóri Vottunarstofunnar Túns. Samklippa: Guðrún A. Tryggvadóttir

Continue Reading→

Grænar síður vísa veginn að fyrirtækjum með umhverfismetnað

Grænar síður™ veita yfirsýn yfir þau fyrirtæki, stofnanir, vörur og einstaka viðfangsefni sem tengjast umhverfisvitund og sjálfbærri þróun á einhvern hátt. Þú finnur ekki einungis hver er með vottun eða hefur eitthvað fram að færa á sviði umhverfisvænna starfshátta heldur tengist lesefni af síðunni við tiltekinn aðila. Gefðu þér góðan tíma til að grúska í Grænu síðunum hér á vefnum því af nógu er að taka. Rúmlega tvöþúsund fyrirtæki og aðilar eru nú þegar skráð á Grænar síður. Skráðir aðilar fá lykilorði og leiðbeiningar um hvernig hægt er að fara yfir skráninguna og bæta við ítarskráningum gegn vægu gjaldi. Ef þú ert í forsvari fyrir fyrirtæki og hefur áhuga á að fá skráningu á síðurnar á þeim forsendum sem settar eru um skráningar* þá hafði samband í síma 483 1500 eða skrifaðu okkur á nature@nature.is. Grænar síður eru grunnurinn fyrir Græna Íslandskortið en það er ókeypis samfélagsleg þjónusta, Green Map flokkunarkerfisins, alþjóðlegs flokkunarkerfis Green Map® System til að skilgreina aðila/fyrirbæri í flokka sem talist geta hluti af grænum viðskiptum, menningu, náttúrunni og umhverfinu. *Sjá nánar um Grænar síður Náttúrunnar.

Continue Reading→

Iðnaðarsalt í matvælum

Ölgerð Egils Skallagrímssonar hefur selt iðnaðarsalt til matvælaframleiðslu hér á landi í að minnsta kosti 13 ár. Matvælastofnun heimilaði sölu á umframbirgðum af slíku salti þótt það sé brot á matvælalögum. Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur er mjög ósátt við málið. Mörg af stærstu matvælafyrirtækjum landsins hafa notað iðnaðarsalt við framleiðslu sína síðustu 13 ár. Ölgerð Egils Skallagrímssonar, sem flutti saltið inn, segist ekki hafa vitað að saltið væri ætlað til notkunar í matvælaiðnaði. Komið hefur í ljós að salt frá hollenska fyrirtækinu Akzo Nobel sem Ölgerðin hefur flutt inn og dreift til matvælafyrirtækja í að minnsta kosti 13 ár, uppfyllir ekki kröfur sem gerðar eru til hráefnis í matvælaframleiðslu. Saltið er ekki ætlað til notkunar í matvælaiðnaði, heldur er það svokallað iðnaðarsalt. Efnasamsetning iðnaðarsalts og matvælasalts er svipuð, en meira eftirlit er með matvælasalti og geymsluaðferð önnur. 91 fyrirtæki keypti slíkt salt hér á landi í fyrra. Samkvæmt upplýsingum frá Ölgerðinni vissu menn þar á bæ ekki af því að saltið væri ekki ætlað til matvælaframleiðslu fyrr en Matvælastofnun komst að því í byrjun nóvember. Mörg af stærri matvælafyrirtækjum landsins hafa keypt þetta salt af fyrirtækinu. Ölgerðin starfar samkvæmt starfsleyfi frá heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur, en heilbrigðiseftirlit um allt land hafa verið látin vita af málinu. Getur iðnaðarsalt verið hættulegt til manneldis?„Samkvæmt upplýsingum frá framleiðanda þessa salts er engin almenn hætta við notkun á þessu salti en það er ekki ætlað til matvælanotkunar. Eðli málsins samkvæmt er það þannig að það eru miklu ríkari kröfur gerðar til framleiðslu á hráefni í matvæli en til iðnaðarsalts þannig að það er ekki hægt að fullyrða að þetta salt sé öruggt,“ sagði Óskar Ísfeld Sigurðsson deildarstjóri matvælaeftirlits Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur í viðtali við fréttastofu RÚV. Óskar segir sölu á saltinu vera brot á lögum um matvæli.„Sala á iðnaðarsalti til notkunar í matvælaframleiðslu er ekki í samræmi við matvælalöggjöfina. Og þar með brot á henni,“ sagði Óskar. Samkvæmt upplýsingum frá Ölgerðinni stöðvaði fyrirtækið dreifingu á saltinu til fyrirtækja í matvælaiðnaði og upplýsti þau um málið. En þar með er ekki öll sagan sögð. Matvælastofnun heimilaði Ölgerðinni áframhaldandi dreifingu á þessu salti, Ölgerðin hafði óskað eftir því gegn því að upplýsa kaupendur, og með samþykki þeirra, að fá að gera það. Aðspurður hvað skoðun heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur hafi á því sagði Óskar: „Við erum ósammála henni og hefðum ekki tekið þá ákvörðun, við hefðum ekki heimilað það. Við lítum þetta mál mjög alvarlegum augum.“

Continue Reading→

Geisladagur

Svo er 13. janúar nefndur í almanaki, og eru um hann miklu eldri heimildir en eldbjargarmessu eða þegar í Sturlungu og Biskupssögum. Hinsvegar er mjög óljóst, hvernig á nafninu stendur, því að samsvarandi heiti dagsins er ekki að finna í nálægum löndum. Á máli kirkjunnar var þetta dagur heilags Hilaríusar. Dýrlingar voru að vísu stundum nefndir geislar á íslensku, en vandséð er, hversvegna dagur Hilaríusar hefði átt að hljóta slíkt nafn öðrum fremur. Verið getur, að hér sé skírskotað til Bethlehemsstjörnunnar, sem vitringarnar frá Austurlöndum sáu. Katólska kirkjan ákvað á sínum tíma, að sá viðburður hefði orðið 6. janúar, sem á latínu var þá kallaður “festum luminarium”, sem vel mátti þýða með orðinu geisladagur. Var í því sambandi oft sýndur helgileikur í kirkjum, „hátíð stjörnunnar“. Dagsetningin hefði síðan getað færst til um eina viku, þar sem 6. janúar fékk annað þekktara nafn, Epiphania, þ.e. opinberun, auk þess að heita þrettándi dagur jóla. Nokkur tilhneiging virðist nefnilega hafa verið til þess að framlengja jólahátíðina um eina viku.

Continue Reading→

Græn tækni

Á Græna kortinu er hægt að fá upplýsingar um græna tækni á Íslandi. Skilgreiningin sem við flokkum eftir er eftirfarandi: Táknið vísar til umhverfisvænnar nýsköpunar sem bæði getur náð til nýrra aðferða, vinnu- og framleiðsluferla eða beinna afurða nýrrar vistvænnar þekkingar á hvaða sviði sem er. Sjá nánar um græna tækni á Íslandi hér á Græna kortinu undir flokknum „Græn tækni". Grafík: Myndtákn Green Map® System flokksins „Græn tækni“.  

Continue Reading→

Ferðaþjónusta og fjárfestingar

Landsbankinn og Íslandsstofa standa fyrir málþingi um fjárfestingar í ferðaþjónustu miðvikudaginn 25. janúar nk. frá kl. 10:00-15:00 á Hilton Nordica hóteli. Fyrirlesarar, bæði innlendir og erlendir, fjalla um efnið frá ýmsum hliðum og boðið verður upp á léttan hádegisverð. Þátttaka er endurgjaldsslaus og fer skráning fram á islandsstofa@islandsstofa.is og í síma 511 4000. Nánari upplýsingar veitir Arnar Guðmundsson hjá Íslandsstofu. Dagskrá verður auglýst síðar.

Continue Reading→