Search

Gefum smáfuglunum

Nú er hart í ári hjá smáfuglum sem komst ekki að sverðinum til að tína skordýr og fræ. Þá er gott að gefa þeim í gogginn. Í verslunum er oftast hægt að kaupa sérstakt fuglafóður og einfalt að dreyfa því þar sem fuglarnir ná til. Ekki er gott að dreyfa fóðri á nýfallna mjöll þar sem það hverfur bara í snjóinn. Eitt ráð er að hnoða kúlur úr steikingarfeiti eða smjöri, helst ósöltu, og fuglafóðri. Ef fuglafóður er ekki til má nota fræ og hnetumulning, soðin grjón, hveitiklíð eða annað þessháttar sem til fellur. Eins finnast fuglum góð epli og eplahýði. Kartöflur sem ganga af við matinn eru kærkomnar. Mestu skiptir að fóðrið sé gefið á skjólsælum stað þar sem það hverfur ekki í snjóinn. Ekki verra að útsýni sé gott. Bæði þeim til gleði sem gáfu fóðrið og ekki síður til að fuglarnir geti varað sig á óboðnum gestum s.s. köttum, hröfnum, uglum eða öðrum dýrum sem þykja smáfuglar góðir. Þeim má svo gefa annarsstaðar afganga af mat til að draga úr smáfugladrápi þeirra og eins til að sýna þeim sömu gæsku og öðrum.

Continue Reading→

Landsbankinn veitir umhverfisstyrki

Landsbankinn veitti í dag 5 milljónir króna í umhverfisstyrki úr Samfélagssjóði bankans en að þessu sinni voru veittir 17 styrkir. Ríflega 130 umsóknir bárust. Í tilkynningu segir að styrkjunum er ætlað að styðja við verkefni á sviði umhverfismála og náttúruverndar. Styrkirnir byggja á stefnu bankans um samfélagslega ábyrgð hans og skyldur.„Dómnefnd um úthlutun umhverfisstyrkja að þessu sinni var skipuð þeim Dr. Brynhildi Davíðsdóttur, dósent í Umhverfis- og auðlindafræðum við HÍ, Dr. Þorvarði Árnasyni, umhverfis- og náttúrufræðingi og forstöðumanni Rannsóknarseturs HÍ á Hornafirði, Finni Sveinssyni sérfræðingi í samfélagslegri ábyrgð hjá Landsbankanum og Dr. Guðrúnu Pétursdóttur, forstöðumanni stofnunar Sæmundar Fróða um sjálfbæra þróun við HÍ, en hún var jafnframt formaður dómnefndar."Steinþór Pálsson, bankastjóri Landsbankans segir í tilkynningu að það sé stefna bankans að vinna í sátt við umhverfið. „... og umhverfisstyrkirnir eru leið bankans til að verðlauna góðar hugmyndir og leggja þeim lið sem vilja gera vel í umhverfismálum og náttúruvernd. Innan bankans höfum við hrint úr vör verkefnum í þessa veru, m.a. höfum við hvatt starfsmenn að skrifa undir samgöngusamning og ferðast á vistvænan máta til og frá vinnu. Það hefur þegar skilað góðum árangri. Við höfum sömuleiðis markvisst dregið úr pappírsnotkun og frá árinu 2010 höfum við kolefnisjafnað útblástur af ferðum starfsmanna á bílum í eigu bankans. Fleiri verkefni af svipuðum toga eru í undirbúningi." Samfélagssjóður Landsbankans veitir ferns konar styrkir á hverju ári: námsstyrki, samfélagsstyrki, nýsköpunarstyrki og umhverfisstyrki.

Continue Reading→

Græn kort og Endurvinnslukort fyrir sveitarfélög, borgir og bæi

Náttúran vill benda sveitar-og bæjarstjórnum á að Náttúran.is útbýr myndtengla inn á Græna Íslandskortið og Endurvinnslukortið í þeirri stærð sem óskað er eftir. Við getum einnig boðið einstaka sveitarfélögum, borgum og bæjum upp á að fá Grænt kort og Endurvinnslukort sérstaklega fyrir afmarkað svæði sem tengist síðan með myndtengli frá heimasíðu viðkomandi sveitarfélags eða bæjar. Einnig bjóðum við upp á að hanna Græn kort í prentúgáfu til dreifingar fyrir þá sem það vilja. Grænt Íslandskort er samvinnuverkefni Náttúran.is, fjölþjóðlega verkefnisins Green Map® System og Land- og ferðamálafræðistofu Háskóla Íslands. Græna Íslandskortið birtist í vefútgáfu á Náttúran.is. Prentútgáfan Grænt Reykjavíkurkort/Green Map Reykjavík er dreift ókeypis viða um borgina. Endurvinnslukortið er einnig unnið að frumkvæði Náttúran.is og byggir á því að koma á framfæri upplýsingum um hvar hægt er að koma frá sér flokkuðu sorpi og hvað sé tekið við á viðkomandi stað. Við höfum samband við þá sem bera ábyrgð á sorphirðu viðkomandi sveitarfélaga og söfnum gögnum sem við skráum síðan í gagnagrunn  Endurvinnslukortsins. Næstum allt landið hefur nú þegar verið kortlagt á þennan hátt. Kortin birtist á þremur málum, íslensku, ensku og þýsku og gefur þannig jafnt innlendum sem erlendum aðilum yfirsýn á það hvað Ísland hefur upp á fjölmarga umhverfisvæna kosti að bjóða í dag. Hafðu samband á nature@nature.is eða hringdu í síma 483 1500 og kynntu þér hvað Grænt kort og Endurvinnslukortið geta gert til að flýta fyrir sjálfbærri þróun í þínu sveitarfélagi. Skoða Græna Íslandskortið.Skoða Græna Reykjavíkurkortið.Skoða Endurvinnslukortið.

Continue Reading→

Heilsusamlegur matsölustaður

Á Græna kortinu er hægt að fá upplýsingar um heilsusamlega matsölustaði. Skilgreiningin sem við flokkum eftir er eftirfarandi: Áhersla er lögð á hollan og ferskan mat. Hráefni eru gjarnan lífrænt ræktuð, úr héraði, árstíðauppskera eða grænmetisréttir eru í boði. Sjá nánar um heilsusamlega matsölustaði hér á Græna kortinu undir flokknum „Heilsusamlegur matsölustaður". Grafík: Myndtákn Green Map® System flokksins „Heilsusamlegur matsölustaður“.

Continue Reading→

Sjálfshólstilnefningar vefiðnaðarins

Nú hefur vefur Náttúrunnar verið í þjónustu umhverfisins í næstum 5 ár og langaði mig því að skoða þann möguleika að vefurinn yrði tilnefndur til Íslensku vefverðlaunanna sem veittur er árlega á vegum SVEF Samtaka vefiðnaðarins. Að baki hugmyndar minnar liggja ýmsar forsendur sem mér sem frumkvöðuls verkefnisins finnst kannski ekki endilega við hæfi að ég tiltaki sjálf heldur er það að mínu mati í höndum lesenda vefsins að dæma og undir kringumstæðum að tilnefna Náttúran.is til vefverðlauna, eða ekki. Alveg eins og þegar ég held myndlistarsýningar þá skrifa ég sjálf hvorki gagnrýni um sýninguna, né get ég ákveðið hvort hún hrífi áhorfendur með sér. Gagnrýnendur og almenningur dæmir mannanna verk og þykir það eðlilegt í öllum lýðræðisríkjum. Á vef  SVEF er þó ljóst að aðeins þeim sem eiga sjálfir hagsmuna að gæta, þ.e. vefjunum sjálfum, eða réttara sagt forsvarsmönnum þeirra er ætlað að taka þátt í þessu vali um bestu vefi landsins, þar sem ætlast er til að tilnefnari greiði gjald fyrir tilnefninguna. Að tilnefna í einum flokki, t.d. í flokknum „Besti þjónustu- og upplýsingavefurinn“ kostar kr. 9.900. Að tilnefna vef í tveim flokkum t.d. „Besti þjónustu- og upplýsingavefurinn og Besti sölu- og kynningarvefurinn (undir 50 starfsmönnum)“ þá kostar það tilnefnara heilar 19.800 kr. Ef vefur er tilnefndur í öllum flokkum kosta herlegheitin  60.400 kr. Af þessu má vera deginum ljósara, að þrátt fyrir mikinn áhuga á tilteknum vef myndi „enginn“ utanaðkomandi leggja fram það mikla fjármuni eingöngu til að tilnefna uppáhaldsvef sinn til Íslensku vefverðlaunanna. Mér virðist því augsýnilegt að hér sé á ferðinni gamaldags (sbr. 2007) og ólýðræðislegt val veffyrirtækjanna um að tilnefna sig sjálf og því fleiri starfsmenn sem fyrirtækið hefur í þjónustunni sinni, því meiri möguleika hefur það á að vinna. Líklegar en ekki endurgreiðir þá viðkomandi fyrirtæki starfsmönnum sínum til að tilnefna vinnuveitendur sína. Náttúran.is á því greinilega, bæði hugmyndafræðilega og fjárhagslega, enga samleið með Íslensku vefverðlaununum, uppskeruhátið vefiðnaðarins, jafnvel þó að okkur mörgum þætti að starf okkar í almannaþágu og baráttu fyrir sjálfbærri framtíð ætti sannarlega skilið að hljóta þessi verðlaun. Grafík: Skjáskot af hluta tilnefningarsíðu SVEF.

Continue Reading→

Veðurkort á Náttúrunni

Einn af þjónustuliðum Náttúrunnar er veðurkort. Náttúran.is nýtir sér þjónustu Veðurstofunnar og Reiknistofu í veðurfræði og birtir bæði hefðbundna veðurspá og veðurathuganir auk veðurþáttaspáar sem mörgum finnst gagnlegri. Tengill á veðrið er undir valmyndinni fréttir > veður og einnig hér til hægri á síðunni „Veðurspá“ en þar birtast einnig viðvaranir þegar svo ber undir.

Continue Reading→

Vatnsnotkun - viðmið

Ferskvatnsauðlindir Íslendinga eru umtalsverðar eða um 666.667 rúmmetrar á mann á ári. Til samanburðar eru vatnsauðlindir í mörgum Afríkuríkjum minni en 1000 rúmmetrar á mann á ári. Gnægð er af vatni og er vatnsnotkun yfirleitt ekki talin til vandamála á Íslandi. Í Reykjavík notar hver íbúi um 155 m3/ári eða um 155.000 lítra af köldu vatni á ári. Í Vestmannaeyjum þar sem drykkjarvatn er af skornum skammti notar hver íbúi hins vegar aðeins um 46 m3/ári af köldu vatni eða um þriðjungi minna en í Reykjavík. Helsta vandamálið sem fylgir vatnsaustri er óþarfa orkunotkun (orka sem fer í að hita upp vatn). Vatnsnotkun getur verið æði mismunandi eftir vöruflokkum. Tökum sem dæmi 3 vöruflokka þar sem vatnsnotkun skiptir máli á notkunartímanum. Við bílþvott er það eingöngu vatnsmagn en í þvottavélum og uppþvottavélum þýðir minna vatn, minni orku sem þarf til upphitunar.

Continue Reading→

Eldbjargarmessa

Svo hefur 7. janúar verið nefndur í íslenskum almanökum síðan 1837. Engar heimildir hefur hinsvegar verið að finna um nokkra almenna útafbreytni meðal fólks á þessum degi. Í ljós kemur þó í bréfi frá sr. Jóni Halldórssyni í Hítardal til Árna Magnússonar, að a.m.k. ein fjölskylda í Borgarfirði hefur haldið minning þessa dags í kringum 1700, lítilli ölskál. Síðan héldu þeir skálinni fastri í munninum með hendur fyrir aftan bak, gerðu hnykk á höfuðið og köstuðu skálinni aftur fyrir sig. Um leið áttu menn að hugsa sér eitthvað eða óska. Kæmi skálin niður á hvolfi, var það neikvætt svar annars jákvætt. Það fólk var að vísu af útlendu bergi brotið í einn legg. Ekki kann sr. Jón neitt að skýra frá því, hvernig þau hefðu haldið daginn hátíðlegan. En í Noregi eru til lýsingar á athöfninni allt frá 18. öld, þótt auðvitað séu þær ekki alveg samhljóða: Menn settust á gólfið og drukku úr.

Continue Reading→

Fréttastefna Náttúrunnar

Fréttagátt fyrir allaNáttúran.is er óháður regnhlífarvefur og birtir skoðanir allra sem vilja koma skoðunum sínum á framfæri. Hver sem er getur sent inn frétt og tilkynnt um viðburð. Þær fréttir sem birtar eru á Náttúrunni verða að birtast undir nafni höfundar og ber höfundur einn ábyrgð á skrifum sínum. Siðferðileg mörkNáttúran áskilur sér rétt til að taka út fréttir og „orð í belg“ sem eru særandi, móðgandi eða geta beinlínis skaðað einhverja persónu, fyrirtæki eða stofnun. Náttúran tekur ekki afstöðu til pólitískra mála en er yfirlýstur málsvari umhverfisins. Grænar innlendar og erlendarGrænar íslenskar: Stefna Náttúrunnar er að koma á framfæri öllu því sem fréttnæmt getur talist á sviði náttúru- og umhverfismála á Íslandi. Þar má nefna nýsköpun á sviði vöruþróunar og þjónustu, fundir og ráðstefnur, yfirlýsingar og kærur, ferðamál og útivera, uppskeru og ræktun, sem og allt það sem tengist þeim persónum, félögum, stofnunum og fyrirtækjum sem tengjast málefninu á einhvern hátt.Grænar erlendar: Náttúran.is leitast við að tengja Ísland við alþjóðasamfélagið og birtir greinar um þróun umhverfismála hvaðanæva að úr heiminum. Ritstjóri er Guðrún A. Tryggvadóttir. Senda frétt eða grein til Náttúrunnar. Sjá veðurkort Náttúrunnar. Við minnum á RSS fréttafóðrun Náttúrunnar (sjá hér í flipanum til vinstri) og RSS fréttir frá öðrum miðlum hér neðst til hægri á síðunni.

Continue Reading→

Barnaherbergið - Sængurföt

Sæng barnsins ætti ekki að vera of þung og ekki of stór. Útöndun og einangrunargildi í ekta dúnsæng (æðadún eða gæsadún) er auðvitað betri en úr gerviefnum og því í flestum tilfellum hollari. Nauðsynlegt er að viðra sængina reglulega og helst láta hreinsa hana eftir þörfum.Við val á sængurfötum ættum við m.a. að taka tillit til þess að barnið verði ekki fyrir óþarfa áreiti. Myndamunstur sem í raun eru auglýsingar fyrir kvikmyndir og vörur (Barbie, Spiderman o.fl.) eru kannski ekki æskilegust þar sem að barnið hvílist og ætti að fá að vera í friði fyrir áreiti. Með vefnaðarvörur s.s. rúmföt og fatnað þarf að hafa í huga að mörg litarefni og framleiðsluferli fela í sér að efnið er meðhöndlað með sýruböðum, og eiturefnum af ýmsum gerðum, sumum jafnvel skaðlegum heilsunni. Eins er framleiðslan sjálf oft uppspretta alvarlegra umhverfisáhrifa og heilsutaps fólks. Sum efni eru þó umverfisvænni en önnur.Bómull er eitt skaðlegasta hráefnið vegna mikillar eiturefnanotkunar við ræktun þess. Fyrir hvert kg. af bómull sem er ræktað þarf um eitt kg. af eiturefnum. Sé hins vegar valin lífrænt ræktuð bómull þá er eiturefnanotkun næstum bönnuð og notkun skaðlegra efna við meðhöndlun efnanna haldið í algeru lágmarki.Umhverfismerkingar á borð við Svaninn tryggir að framleiðslan hafi verið umhverfisvæn, lífrænar vottanir (fjöldi merkja í umferð um allan heim) gefa til kynna að varan hafi verið framleidd með lífrænum aðferðum. Sanngirnisvottun er staðfesting á því að varan er unnin á siðferðislega sanngjarnan hátt, án skaðlegra áhrifa fyrir starfsmenn og að þeir fái sanngjörn laun fyrir vinnuna.

Continue Reading→

Hjólabrettasvæði

Á Græna kortinu er hægt að fá upplýsingar um hjólabrettasvæði. Skilgreiningin sem við flokkum eftir er eftirfarandi: Svæði þar sem áhugafólk um hjólabretti getur safnast saman og æft. Sjá nánar um hjólabrettasvæði hér á Græna kortinu undir flokknum „Hjólabrettasvæði". Grafík: Myndtákn Green Map® System flokksins „Hjólabrettasvæði“.

Continue Reading→

Þrettándinn

Nafn hans er stytting úr þrettándi dagur jóla 6. janúar. Eins og áður er um getið var hann talinn fæðingardagur Jesú á undan 25. desember. En þegar sú tign var af honum tekin, hlaut hann í staðinn virðingarheitið ephiphania, sem merkir opinberun, og var þá svo látið heita, að Kristur hefði á þeim degi opinberast með þreföldum hætti hér á jörðu: tilbeiðslu vitringanna, skírninni í Jórdan og brúðkaupinu í Kana. Fyrsta opinberunin hefur einkum verið talin honum til gildis, enda heitir hann á sumum málum dagur hinna þriggja heilögu konunga. Hallgrímur Pétursson kveður svo: Opinberunarhátíð heitir þrettándi þá komu vitringar úr austurlandi. Þrettándanóttin hefur líka átt sér heitið draumnóttin mikla, því að þá átti Austurvegskonunga að hafa dreymt fyrir fæðingu Jesú. Þá hefur það sannanlega veirð til sumstaðar á landinu a.m.k. að kalla þrettándann gömlu jólin eða jólanóttina gömlu. Ekki er ljóst, hvort þarna liggja að baki einhver munnmæli um, að hannhefði verið jóladagur á undan 25. desember, en það mætti furðulegt heita. Hitt kann vera, að þegar allt tímatalið færðist til um 1 daga við breytingun aúr gamla í nýja stíl árið 1700, þá hafi sumt fólk átt bágt með að botna í þeirri röskun og þrettándinn fengið þetta nafn, þótt þar skakki 1-2 dögum, sem er heldur lítilvægt, þegar menn hafa ekki dagatal hangandi uppi á vegg hjá sér. Hvað þjóðtrú varðar, má segja að allt hið sama geti gilt um þrettándanótt og áður var sagt um nýársnótt. Þó er það allt í minna mæli. Ennfremur komu þrettándabrennur stundum í stað áramótabrennu, en það var einkum ef ekki viðraði nógu vel á gamlárskvöld. Þar sem þrettándinn var síðasti dagur jólanna, var oftast nokkuð um dýrðir á honum, vel haldið til í mat og drykk og mikið spilað. Var það stundum kallað að rota jólin. Og nú er hringur ársins fullur og byrjar nýja veltu. Ljósmynd: Flugeld skotið upp, Guðrún A. Tryggvadóttir.

Continue Reading→

Engiferrót við kvefi

Sumir kokkar segja að aldrei sé hægt að nota of mikið af engiferrót eða hvítlauk og víst er hvort tveggja hollt. Gott er að hita sneiðar af engiferrót og sítrónum í vatni og drekka við kvefi. Þett er heilnæmur drykkur og þægilegur ef hita þarf eitthvað handa mörgum, t.d. á námskeiðum. Hann má vera annaðhvort heitur eða volgur og er alltaf hressandi. Venjulegt engiferduft, sem fæst í verslunum, er til margra hluta nytsamlegt, bætir meltingu og örvar blóðrás og bragðið venst vel ef engiferið er hrært út í jógúrt eða súrmjólk. Úr Ætigarðinum - handbók grasnytjungsins, eftir Hildi Hákonardóttur. Bókin er fáanleg hér á Náttúrumarkaðinum.

Continue Reading→

Umhverfisviðmið fyrir fyrirtæki

Hvað eru umhverfisviðmið? Umhverfisviðmið eða markmið eru í eðli sínu ekkert frábrugðin fjárhagslegum markmiðum. Hlutverk beggja er að mæla árangur af starfssemi fyrirtækisins á mismunandi sviðum, þó svo að auðveldlega sé hægt að fullyrða að fjárhagleg og umhverfismarkmið séu hvert öðru háð. Það er þó einn grundvallarmunur á fjárhaglegum og umhverfislegum markmiðum. Hin fjárhagslegu hafa þróast í fjölda áratuga eða árhundruði meðan umhverfislegu markmiðin eru tiltölulega ný á nálinni og fyrirtæki byrjuðu ekki að setja umhverfisviðmið í einhverjum mæli fyrr en eftir 1996 þegar ISO 14001 staðallinn var fyrst samþykkur. Þessi grundvallarmunur á umhverfis- og fjárhagslegum markmiðum hefur hins vegar mikla praktíska þýðingu. Bókhaldsforrit fyrirtækja miðast að því að fylgjast á auðveldan máta með fjárhagslegum lykiltölum. Kerfin eru byggð með það í huga að geta á auðveldan og fljótan máta fá út allar helstu fjárhagslegu viðmið sem hægt er þar sem upplýsingar skipta öllu í hörðum heimi samkeppninnar. Umhverfisupplýsingar eru ekki á innbyggðar í upplýsingakerfi fyrirtækja eins og fjárhagslegar upplýsingar. Að skilgreina umhverfismarkmið er í sjálfu sér ekki erfitt. Hið flókna er að skilgreina hvar og hvernig auðveldast er að safna saman upplýsingum úr upplýsingakerfinu. Þar sem umhverfisupplýsingar eru oft af skornum skammti hefur fólk því tilhneigingu að mæla það sem hægt er að mæla í stað þess að mæla það sem er mikilvægt. Grunnur að öllum viðmiðum er að þekkja núverandi stöðu (grunnstöðuna) áður en viðmiðin eru sett. Án þess að þekkja grunnstöðuna er afskaplega erfitt að vita hvort markmiðum hafi verið náð. Að ekki vita grunnstöðuna er líklega algengustu mistök sem fyrirtæki gera við markmiðasetningu. Markmiðin verða því oft ekkert annað en fallegur ásetningur án þess að hægt sé að segja til um hvort þeim hafi verið náð eða ekki. Grundvallaratriðið í allri markmiðasetningu er því að skilgreina grunnstöðu áður en markmið eru sett. Einkenni góðra umhverfisviðmiða:

Continue Reading→

Erfðabreyttar lyfjaplöntur - í Hveragerði?

Í grein í Fréttablaðinu 30. desember fordæmir Eiríkur Sigurðsson almannasamtök í Hveragerði og víðar fyrir andstöðu við leyfi sem Orf Líftækni var veitt til ræktunar á erfðabreyttu lyfjabyggi í gróðurhúsum á svæðinu. Leyfið var veitt til afmarkaðrar notkunar sem á mannamáli merkir að tryggt skuli að umhverfið geti ekki mengast af völdum hinna erfðabreyttu plantna sem í húsunum eru ræktaðar. Það felur í sér að fyrirbyggja verði að fræ og aðrir plöntuhlutar berist út fyrir húsin, ekki megi flytja jarðveg mengaðan erfðabreyttum efnum út í umhverfið, frárennsli húsanna innihaldi ekki erfðabreytt efni og að starfsmenn, vélar og flutningatæki beri ekki erfðabreytt efni út í umhverfið. Leyfi sem Orf hefur fengið til afmarkaðrar notkunar erfðabreyttra lífvera er ræktun í gróðurhúsum í Grindavík, á Kleppjárnsreykjum, í Barra á Héraði og á Reykjum í Ölfusi. Húsin og umbúnaður þeirra eru hlaðin áhættupunktum - t.d. varðandi frárennsli og flutninga og sum eru jafnvel ekki með föst gólf - sem geta gefið færi á mengun umhverfis af völdum erfðabreyttra lífvera í gegnum jarðveg og vatn. Lög kveða á um að þeir sem hafa leyfi til að meðhöndla erfðabreyttar lífverur skuli bæta fyrir tjón sem slík starfsemi kann að valda á umhverfi. En sá sem leyfin veitir, þ.e. Umhverfisstofnun, hefur ekki skipulegt eftirlit með ræktunarstöðum til að kanna með prófunum hvort mengun af völdum erfðabreyttra lífvera hafi átt sér stað. Hveragerði og nágrenni er þéttbýlt svæði og lífræn ræktun og annar landbúnaður gegna mikilvægu hlutverki í efnahag og umhverfisímynd byggðarinnar. Úr því að mengun jarðvegs og vatns mundi hafa áhrif á landbúnað og jafnvel á heilsufar manna og dýra, er þá ekki rík ástæða fyrir íbúa Hveragerðis að hafa áhyggjur af því að þær erfðabreyttu plöntur sem mest áhætta stafar af (lyfjaplöntur) verði ræktaðar á mörkum bæjarins? Orf hefur ítrekað fullyrt að erfðabreytt lyfjabygg þeirra sé „öruggt“ án þess að færa sönnur á það. Svonefnt áhættumat Orf og leyfi þess frá Umhverfisstofnun til úti- og inniræktunar á bygginu á hinum ýmsu stöðum hafa greinilega ekki falið í sér prófanir og greiningu á erfðabreyttum lífverum og erfðabreyttum efnum í jarðvegi og vatni. Dýratilraunir hafa ekki verið gerðar til að kanna hugsanleg langtímaáhrif byggsins á heilsufar manna, dýra, fiska og vatnalífs. Meðan það hefur ekki verið gert er ekkert hægt að fullyrða um öryggi lyfjabyggsins. Bandarísku vísindasamtökin Union of Concerned Scientists benda á að „erfðabreyttar lyfjaplöntur kunna að hafa eðlis- og efnafræðilega eiginleika sem gætu styrkt tilvistarmöguleika þeirra í náttúrunni eða stuðlað að uppsöfnun þeirra í lífverum, sem verulega eykur möguleika þeirra til að menga vistkerfi og þar með að komast inn í fæðukeðju manna og dýra.“ Bandaríkin hafa sakir lélegs regluverks orðið fyrir dýrri og hættulegri mengun matvæla af völdum erfðabreyttra lyfjaplantna. Nýverið lagði fulltrúadeildarþingmaðurinn Dennis Kucinich fram frumvarp til laga um bann við útiræktun erfðabreyttra lyfja- og iðnaðarplantna í Bandaríkjunum, sem einnig gerir ráð fyrir rekjanleikakerfi til að tryggja betur öryggi og eftirlit. Hvers vegna endurtaka íslensk stjórnvöld mistök Bandaríkjanna í stað þess að læra af þeim? Hættan á mengun jarðvegs og vatns af völdum erfðabreyttra lyfjaplantna er raunveruleg - eins og sjá má af reynslunni af ræktun erfðabreyttra Bt-matvælaplantna. Báðum er erfðabreytt til að þær innihaldi prótein sem kunna að vera skaðleg fyrir heilsufar. Bt-plöntur innihalda Bt-eitur sem drepur skordýr sem sækja í þær. Erfðabreyttar lyfjaplöntur innihalda prótein til nota m.a. í lyfjarannsóknum. Reynslan af ræktun Bt-plantna er viðvörun. Í rannsókn kanadíska umhverfisráðuneytisins (2008) fannst cry1Ab-genið úr Bt-maísplöntum í seti, jarðvegi og vatni í allt að 82ja km fjarlægð frá ræktunarstað. Í rannsókn bandarísku vísindaakademíunnar (2010) kom fram að erfðabreyttur maís með Bt-eitri hafi mengað ár vítt um miðvesturríkin. Vísindin sýna að Bt-eitur getur borist úr rótum erfðabreyttra Bt-plantna í jarðveg (Saxena ofl. 2002) og að Bt-plöntuleifar í jarðvegi innihalda virkt Bt-eitur (Flores ofl. 2005; Stotzky ofl. 2004; Zwahlen ofl. 2003). Ekki er að undra að í kanadískri rannsókn fannst þetta sama Bt-eitur í blóði þungaðra kvenna og fóstra þeirra (Aris & Leblanc 2011). Af þessu má draga skýra ályktun: Erfðabreyttar lyfjaplöntur sem ræktaðar eru utandyra - eða í gróðurhúsum sem ekki tryggja fullkomna afmörkun - kunna að berast í fæðukeðju og dýrafóður í gegnum jarðveg og vatn. Ljósmynd: Ræktun errfðabreytts byggs hafin í einu hólfi tilraunagróðurhúss LBHÍ að Reykjum í Ölfusi, við Hveragerði. Myndin er tekin þ. 27. des. sl. af Guðrúnu A. Tryggvadóttur.

Continue Reading→

Hvar eru merkingarnar?

Þann 1. janúar sl. tók gildi Reglugerð nr. 1038/2010 um merkingu og rekjanleika erfðabreyttra matvæla og erfðabreytts fóðurs. Náttúran.is beindi þeirri spurningu til Matvælastofnunar þ. 3. jan. sl. „hvernig eftirliti og merkingum á matvörum með erfðabreyttu innihaldi skuli háttað og hvort að enn séu á markaði vörur sem ekki hafa verið merktar skv. hinni nýju reglugerð og ef svo er, hvenær stofnunin muni innleiða merkingarskilduna og hvernig henni verði framfylgt.“. Enn hefur ekkert svar borist nema svohljóðandi staðfesting um móttöku fyrirspurnarinnar: „Matvælastofnun hefur móttekið fyrirspurn þína og hefur hún verið send Jónínu Stefánsdóttur til úrlausnar. Ef þú ert ekki sátt/-ur við úrlausnina er það vel þegið að þú hafir samband aftur innan mánaðar.“ Náttúran telur að Matvælastofnun sem eftirlitsaðila sé skylt að hafa undirbúið innleiðingu reglugerðarnnar „fyrir“ innleiðingu hennar þ. 1. jan. sl., þannig að allar vörur með erfðabreyttu innihaldi ættu nú þegar að vera merktar á viðeigandi hátt. Svo er þó ekki eins og meðfylgjandi dæmi sanna en þær voru teknar í verslun Bónuss í Hveragerði, sú eftri þ. 30. des. sl. en sú neðri í dag þ. 5. jan. Lucky Charms, Cheerios og Cocoa Puffs pakkarnir voru með álímdum íslenskum innihaldslýsingarmiðum en ekki með upplýsingum um að þau innihaldi erfðabreytt innihald, sem þau þó sannarlega gera. Náttúran leggur til að neytendur fylgist vel með því hvort að vörur með erfðabreyttu innihaldi séu enn í hillum matvöruverslana og ef svo er, þá tilkynna það til Matvælastofnunar. Auðvitað er ekki auðvelt að vita í hvaða vörum erfðabreytt innihald er að finna enda hefur engin fræðsla átt sér stað um það af hendi opinberra aðila. Til að einfalda neytendum að skilja hvaða innihaldsefni„ geti verið erðfabreytt“ fékk Náttúran leyfi til að þýða tékklista yfir ósýnileg erfðabreytt innihaldsefni í matvælum úr Non GMO Shopping Guide sem The Institute for Responsible Technology og The Non GMO Project gefa út. Þú getur líka náð í App á GMO Shopping Guide síðunni en hann miðast við bandarískar aðstæður og tekur yfir vörur sem fæstar er að finna hér á landi. Eftirfarandi innihaldsefni í matvælum geta verið erfðabreytt:

Continue Reading→

Bílskúrinn - Verkfæri

Með svolítilli hagræðingu og snyrtimennsku er hægt að gera hina vistlegustu vinnuaðstöðu í bílskúrnum, þó að hann sé smár. Skúffur, hillur og snagar (naglar) til að hengja verkfæri á, t.d. með teiknuðum útlínum, einfalda mjög alla reglu á hlutunum. Þannig er gott að fylgjast með hvort að verkfæri vanti á sinn stað eða ekki. Við kaup á verkfærum er gott að muna að kaupa ekki rusl heldur gæði. Það margborgar sig. Hrein og þurr verkfæri eru langlífari. Verkfæri fyrir bílinn og önnur fyrir smíðar eða viðhald ættu að vera á aðskildum stöðum svo ekki fari allt í handaskolun.

Continue Reading→

ISO 14001

ISO 14001 umhverfisstjórnunarstaðallinn er til að hjálpa fyrirtækjum til þess að draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum sínum, uppfylla gildandi umhverfisreglugerðir, starfsleyfisákvæði og þar fram eftir götunum. ISO 14001 leggur áherslu á það hvernig varan er framleidd en ekki vöruna sjálfa. Vottun umhverfisstjórnunarkerfisins er framkvæmd af hlutlausum þriðja aðila. Sjá hér á Grænum síðum þá aðila sem hafa ISO 14001 vottun á Íslandi.

Continue Reading→

Bókun bæjarráðs Hveragerðis frá því í morgun

Á bæjarráðsfundi í Hveragerðis nú í morgun var lögð fram greinargerð (sjá greinargerðina) um forsendur og álitamál vegna fyrirhugaðrar ræktunar erfðabreyttra lífvera að Reykjum í Ölfusi og tekin til umfjöllunar. Ennfremur var lögð fram skýrsla unnin af „Kynningarátaki um erfðabreyttar lífverur“ en að því standa Landvernd, Matvæla- og veitingafélag Íslands, Náttúrulækningafélag Íslands, Neytendasamtökin, Slow food Reykjavík og Vottunarstofan Tún. Bæjarráð undrast það að ekki skuli hafa verið leitað álits Hveragerðisbæjar við útgáfu starfsleyfis til handa Orf líftækni að Reykjum og telur að skilyrðislaust hefði átt að kynna þetta mál fyrir bæjarstjórn eða á opnum fundi með íbúum. Þrátt fyrir að Reykir tilheyri sveitarfélaginu Ölfusi, stjórnsýslulega séð,  þá eru landfræðilegar aðstæður með þeim hætti að allt sem þar gerist hefur áhrif í Hveragerði enda eru ekki nema 150 metrar frá umræddu tilraunagróðurhúsi í næsta íbúðarhús bæjarins og um 350 metrar í miðbæinn. Þessi staðreynd ein og sér ætti að nægja til að Hvergerðingum yrði kynnt hvernig starfsemi Orf líftækni á að fara fram. Bæjarráð felur bæjarstjóra að óska eftir fundi með hlutaðeigandi aðilum sem skýrt getur þau sjónarmið sem búa að baki umræddri leyfisveitingu.

Continue Reading→

Af umhverfisáhrifum jarðhitavirkjana

Jarðhitavirkjanir eru að miklu leyti sambærilegar við námavinnslu. Jarðhitavatninu er dælt í miklu magni upp úr jarðhitageyminum, og þannig er sú náttúrulega hringrás sem til staðar er gerð miklu hraðari en hún hefði verið án virkjunar. Jarðhitageymirinn endurnýjast ekki, nema að affallsvatni sé dælt aftur ofan í jarðhitageyminn, en slíkt er gert í tilraunaskyni og enn nokkuð óljóst hve mikið skilar sér aftur inn í hringrás vatnsins við slíkar niðurdælingar sem vonandi munu þó ganga betur eftir því sem aukin reynsla fæst.Affallsvatn frá jarðhita getur innihaldið ýmsa snefilmálma, eins og kadmíum, kopar og einnig eru í jarðhitavatni efni eins og kvikasilfur og arsen. Efni þessi geta verið bundin lífrænum efnum en þau geta einnig verið óbundin og er mismunandi hvort málmarnir eru á því formi sem fer inn í lífverur eða hvort þeir eru óvirkir.Íslensk vötn eins og t.d. Þingvallavatn eru ólígótrófísk þ.e. þau eru tær og innihalda lítið magn lífrænna efna. Íslensk vötn eru því viðkvæmari fyrir jarðhitamengun heldur en vötn víða annarsstaðar í heiminum, þ.e. lítið er af lífrænum efnum sem gætu gert málma eins og kadmíum og kopar óskaðlega.Annað er mjög athyglisvert, og hefur nánast ekkert verið rætt hér á landi, og það er að sökum tærleika íslenskra vatna, eru þau afskaplega viðkvæm gagnvart sólarljósi og útfjólublárri geislun frá sólu. Af hverju er ég að nefna þetta? Jú vegna þess að þetta þýðir að íslensk stöðuvötn eru viðkvæm gagnvart þynningu ósonlagsins, þ.e. geislar sólar komast langt ofan í vötnin. Þessu hafa menn almennt lítið pælt í hérlendis, að ég held.Kvikasilfur er e.t.v. það efni í jarðhitagufum og jarðhitavatni sem er hvað skaðlegast, en það skiptir þó máli á hvaða formi það er. Kvikasilfursgufur eru ekki hollar, enda urðu hattagerðarmenn í Lundúnum sem notuðu kvikasilfur “mad as a hatter”, eins og Englendingar segja en vitað er að kvikasilfur hefur áhrif á miðtaugakerfi bæði hjá mönnum og dýrum.Mér þykir sorglegt að segja það, en það kemur eflaust að því að við þurfum að framkvæma mun meiri mengunarmælingar í íslenskri náttúru en þurft hefur til þessa. Virkjanir og verksmiðjur og ýmis starfsemi veldur mengun, og það er ekki bara svartur reykur sem er mengandi, – oft eru efnin ósýnileg og falin í náttúrunni.Mengun er þessvegna oft ekki sýnileg berum augum, en sem betur fer hefur umhverfisefnafræðin þróað ýmsar aðferðir til að mæla mengun og rekja hana til uppruna síns, svo og til að meta skaðsemi mengunar. Mikilvægt er að muna að efnafræðin stjórnast ekki af samfélaginu, efni og efnasambönd fara að náttúrulögmálum, og þessvegna verðum við sem samfélag að taka tillit til þessa. Góðar stundir.

Continue Reading→

Jólatré eiga sér framhaldslíf

Reykjavíkurborg mun ekki hirða jólatré í ár, frekar en síðasliðin ár. Nokkur íþróttafélög bjóða upp á þá þjónustu að sækja jólatré gegn gjaldi. Skógræktarfélag Reykjavíkur og Gámaþjónustan eru í samstarfi um að hirða jólatré og Íslenska gámafélagið sækir jólatré heim. Í flestum sveitarfélögum höfuðborgarsvæðisins verða jólatré hirt séu þau sett út fyrir lóðamörk. Hjálparsveit skáta og þjónustumiðstöðin í Garðabæ munu hirða jólatré þar. Þau tré sem lögð verða út fyrir lóðamörk dagna 7. til 8. janúar verða sótt íbúum að kostnaðarlausu. Í Hafnarfirði munu starfsmenn taka jólatré sem sett eru út fyrir lóðamörk eftir helgina, þann 9. og 10. janúar. Einnig á Seltjarnarnesi og í Kópavogi. Alls staðar er brýnt fyrir fólki að koma trjánum vel fyrir til að koma í veg fyrir að þau fjúki burt. Hægt er að fara með tré án endurgjalds á endurvinnslustöðvar. Þar verða jólatrén færð til kurlunar og moltugerðar og nýtast þannig til að hlúa að nýju lífi. Sjá allar endurvinnslustöðvar á landinu hér á Endurvinnslukortinu. Grafík: Dautt tré næring fyrir nýja plöntu, Guðrún Tryggvadóttir ©Náttúran.is.

Continue Reading→

Um erfðabreytta ræktun að Reykjum í Ölfusi og yfirlýsingar formanns Neytendasamtakanna

Á vefsíðu Vísis og í Fréttablaðinu í gær þ. 3. janúar var viðtal við Jóhannes Gunnarsson formann Neytendasamtakanna vegna greinargerðar (sjá greinargerðina hér), sem Jóhannes vill meina að ekki hafi verið borin formlega undir né samþykkt af Neytendasamtökunum.

Continue Reading→

Alltof mikið kadmíum í áburði

Alltof mikið magn af þungmálminum kadmíum fannst í ellefu tegundum af áburði sem Skeljungur seldi í fyrra. Efnið getur verið krabbameinsvaldandi og hefur Matvælastofnun bannað sölu og dreifingu á áburðinum. Matvælastofnun hefur á hverju ári eftirlit með áburði sem seldur er hér á landi. Í skýrslu um áburðareftirlit fyrir árið 2011 kemur fram að fjölmargar tegundir af áburði hafi innihaldið alltof mikið magn þungmálmsins kadmíums. Verst hafi ástandið verið hjá fyrirtækinu Skeljungi. Sýni voru tekin úr 13 tegundum sem fyrirtækið flytur inn og í 11 þeirra reyndist magn kadmíums verulega yfir leyfðum mörkum. Magn kadmíums í áburði má ekki fara yfir 50 milligrömm á hvert kíló fosfórs. Hjá Skeljungi fór það í allt að 159 milligrömm á hvert kíló, sem er meira en þrefalt of mikið. Í mörgum tilfellum var magnið á bilinu tvisvar til þrisvar sinnum of mikið. „Við lítum svona mál mjög alvarlegum augum því að þarna er klárlega bort á okkar reglugerðum um þessi hámörk á kadmíum og við viljum koma í veg fyrir þetta eins og við getum,“ segir Valgeir Bjarnason, sérfræðingur hjá Matvælastofnun. Kadmíum telst til óæskilegra þungmálma sem safnast fyrir í vefjum lífvera og í vistkerfum. Þannig safnast það til dæmis fyrir í innyflum dýra sem ýmis matvara er unnin úr, og í kartöflum og grænmeti. Á vef Umhverfisstofnunar segir að efnið sé hugsanlega krabbameinsvaldandi, það veiki bein, skemmi nýru og lungu og valdi beinverkjum í liðamótum. Valgeir segir að mikið af áburði sem innihélt of mikið kadmíum hafi farið á íslensk tún í fyrra. „Þetta eru svona 10 - 12 þúsund tonn sem hafa verið með þessum galla.“ Hingað til hefur fosfór í áburði hjá Skeljungi komið frá Rússlandi, en í fyrra kom hann frá Norður-Afríku, og reyndist hann innihalda mun meira kadmíum en sá rússneski. „Það kom svona aftan að okkur - við höfðum ekki hugmynd um þetta, þetta hafði verið í lagi fram til ársins í ár og ekkert kadmíum mælst í áburði frá Skeljungi þangað til.“ Matvælastofnun hefur bannað sölu og dreifingu á umræddum áburði. Ljósmynd: Baula í Borgarfirði, Árni Tryggvason.

Continue Reading→

Grænavatnsganga í tilefni af aldarminningu Sigurðar Þórarinssonar

Þann 8. janúar 2012 verða liðin 100 ár frá fæðingardegi Sigurðar Þórarinssonar jarðfræðings, eins ástsælasta vísindamanns þjóðarinnar á síðustu öld. Á þessum degi ætla félög og samtök sem tengjast náttúruvísindum, náttúruvernd og útiveru að efna til blysfarar kringum Grænavatn í Krýsuvík. Landvernd er þar á meðal. Dagskrá hefst kl. 15 við Grænavatn.Farið verður með rútu frá skrifstofu Ferðafélags Íslands, Mörkinni 6, kl. 14, sunnudaginn 8. janúar. Fargjald er kr. 1000 og greiðist við brottför. Þeir sem fara á einkabílum greiða ekki gjald. Þátttakendum í gönguferðinni eru útveguð blys en fólk er einnig hvatt til að taka með sér eigin blys eða kyndla. Ekið er sem leið liggur úr Hafnarfirði eftir Krísuvíkurvegi, framhjá Kleifarvatni og Seltúni að Grænavatni sem er á vinstri hönd.Það var haustið 1949 sem Sigurður flutti tímamótaerindi á fundi Hins íslenska náttúrufræðifélags, þar sem hann hvatti til þess að sett yrði löggjöf um náttúruvernd á Íslandi. Dropinn sem fyllti mælinn var umgengnin við Grænavatn sem hann sagði að notað væri sem ruslatunna vegna framkvæmda rétt hjá vatninu. Búið væri að fordjarfa þetta fallega og merkilega náttúrufyrirbæri.Erindið vakti mikla athygli og þáverandi menntamálaráðherra, Eysteinn Jónsson hafði samband við Sigurð og bað hann að taka sæti í nefnd til að undirbúa löggjöf um náttúruvernd. Fyrstu lög um náttúruvernd á Íslandi tóku svo gildi árið 1956. Segja má því að upphaf formlegrar náttúruverndar hérlendis, eigi sínar rætur við Grænavatn í Krýsuvík.Samtökin sem standa að blysförinni eru: Ferðafélag Íslands, Hið íslenska náttúrufræðifélag, Hraunavinir, Útivist, Jarðfræðingafélagið, Jöklarannsóknarfélagið, Landvernd, Náttúruverndarsamtök Suðvesturlands og Reykjanesfólkvangur.Allir eru velkomnir í þessa blysför, Sigurði Þórarinssyni til heiðurs. Hér er ekki síst verið að heiðra frumkvæði hans í náttúruverndarmálum og minna á um leið, að þörfin er ekki síðri í dag en hún var um miðja síðustu öld.Sigurður var með merkustu jarðfræðingum og naut virðingar á sínu sviði um allan heim. Grænavatn er á miðjum Reykjanesskaganum, en hann þykir með merkilegustu jarðfræðifyrirbærum. Hafa komið fram hugmyndir um að gera Reykjanesskagann að Eldfjallagarði. Fátt væri betur fallið til þess að heiðra minningu Sigurðar en Eldfjallagarður á Reykjanesskaga.En Sigurður var ekki aðeins merkur vísindamaður. Hann unni landi sínu og var öllum minnisstæður sem persóna. Ljóðagerð hans var landskunn og kvæðin sungin, hvort sem ekið var í rútubíl í Þórsmörk eða safnast saman við varðeld og í skála á fjöllum. Þegar eldur braust úr jörðu, var Sigurður gjarnan mættur með fyrstu mönnum og með rauðu skotthúfuna. Það er því við hæfi að þátttakendur í blysförinni mæti með rauða húfu – helst skotthúfu.Ljósmyndir: Efri mynd; Grænavatn, Árni Tryggvason. Neðri myndin er af Sigurði Þórarinssyni, af vef Landverndar.

Continue Reading→