Search

Hvar eru merkingarnar?

Þann 1. janúar sl. tók gildi Reglugerð nr. 1038/2010 um merkingu og rekjanleika erfðabreyttra matvæla og erfðabreytts fóðurs. Náttúran.is beindi þeirri spurningu til Matvælastofnunar þ. 3. jan. sl. „hvernig eftirliti og merkingum á matvörum með erfðabreyttu innihaldi skuli háttað og hvort að enn séu á markaði vörur sem ekki hafa verið merktar skv. hinni nýju reglugerð og ef svo er, hvenær stofnunin muni innleiða merkingarskilduna og hvernig henni verði framfylgt.“. Enn hefur ekkert svar borist nema svohljóðandi staðfesting um móttöku fyrirspurnarinnar: „Matvælastofnun hefur móttekið fyrirspurn þína og hefur hún verið send Jónínu Stefánsdóttur til úrlausnar. Ef þú ert ekki sátt/-ur við úrlausnina er það vel þegið að þú hafir samband aftur innan mánaðar.“ Náttúran telur að Matvælastofnun sem eftirlitsaðila sé skylt að hafa undirbúið innleiðingu reglugerðarnnar „fyrir“ innleiðingu hennar þ. 1. jan. sl., þannig að allar vörur með erfðabreyttu innihaldi ættu nú þegar að vera merktar á viðeigandi hátt. Svo er þó ekki eins og meðfylgjandi dæmi sanna en þær voru teknar í verslun Bónuss í Hveragerði, sú eftri þ. 30. des. sl. en sú neðri í dag þ. 5. jan. Lucky Charms, Cheerios og Cocoa Puffs pakkarnir voru með álímdum íslenskum innihaldslýsingarmiðum en ekki með upplýsingum um að þau innihaldi erfðabreytt innihald, sem þau þó sannarlega gera. Náttúran leggur til að neytendur fylgist vel með því hvort að vörur með erfðabreyttu innihaldi séu enn í hillum matvöruverslana og ef svo er, þá tilkynna það til Matvælastofnunar. Auðvitað er ekki auðvelt að vita í hvaða vörum erfðabreytt innihald er að finna enda hefur engin fræðsla átt sér stað um það af hendi opinberra aðila. Til að einfalda neytendum að skilja hvaða innihaldsefni„ geti verið erðfabreytt“ fékk Náttúran leyfi til að þýða tékklista yfir ósýnileg erfðabreytt innihaldsefni í matvælum úr Non GMO Shopping Guide sem The Institute for Responsible Technology og The Non GMO Project gefa út. Þú getur líka náð í App á GMO Shopping Guide síðunni en hann miðast við bandarískar aðstæður og tekur yfir vörur sem fæstar er að finna hér á landi. Eftirfarandi innihaldsefni í matvælum geta verið erfðabreytt:

Continue Reading→

Bílskúrinn - Verkfæri

Með svolítilli hagræðingu og snyrtimennsku er hægt að gera hina vistlegustu vinnuaðstöðu í bílskúrnum, þó að hann sé smár. Skúffur, hillur og snagar (naglar) til að hengja verkfæri á, t.d. með teiknuðum útlínum, einfalda mjög alla reglu á hlutunum. Þannig er gott að fylgjast með hvort að verkfæri vanti á sinn stað eða ekki. Við kaup á verkfærum er gott að muna að kaupa ekki rusl heldur gæði. Það margborgar sig. Hrein og þurr verkfæri eru langlífari. Verkfæri fyrir bílinn og önnur fyrir smíðar eða viðhald ættu að vera á aðskildum stöðum svo ekki fari allt í handaskolun.

Continue Reading→

ISO 14001

ISO 14001 umhverfisstjórnunarstaðallinn er til að hjálpa fyrirtækjum til þess að draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum sínum, uppfylla gildandi umhverfisreglugerðir, starfsleyfisákvæði og þar fram eftir götunum. ISO 14001 leggur áherslu á það hvernig varan er framleidd en ekki vöruna sjálfa. Vottun umhverfisstjórnunarkerfisins er framkvæmd af hlutlausum þriðja aðila. Sjá hér á Grænum síðum þá aðila sem hafa ISO 14001 vottun á Íslandi.

Continue Reading→

Bókun bæjarráðs Hveragerðis frá því í morgun

Á bæjarráðsfundi í Hveragerðis nú í morgun var lögð fram greinargerð (sjá greinargerðina) um forsendur og álitamál vegna fyrirhugaðrar ræktunar erfðabreyttra lífvera að Reykjum í Ölfusi og tekin til umfjöllunar. Ennfremur var lögð fram skýrsla unnin af „Kynningarátaki um erfðabreyttar lífverur“ en að því standa Landvernd, Matvæla- og veitingafélag Íslands, Náttúrulækningafélag Íslands, Neytendasamtökin, Slow food Reykjavík og Vottunarstofan Tún. Bæjarráð undrast það að ekki skuli hafa verið leitað álits Hveragerðisbæjar við útgáfu starfsleyfis til handa Orf líftækni að Reykjum og telur að skilyrðislaust hefði átt að kynna þetta mál fyrir bæjarstjórn eða á opnum fundi með íbúum. Þrátt fyrir að Reykir tilheyri sveitarfélaginu Ölfusi, stjórnsýslulega séð,  þá eru landfræðilegar aðstæður með þeim hætti að allt sem þar gerist hefur áhrif í Hveragerði enda eru ekki nema 150 metrar frá umræddu tilraunagróðurhúsi í næsta íbúðarhús bæjarins og um 350 metrar í miðbæinn. Þessi staðreynd ein og sér ætti að nægja til að Hvergerðingum yrði kynnt hvernig starfsemi Orf líftækni á að fara fram. Bæjarráð felur bæjarstjóra að óska eftir fundi með hlutaðeigandi aðilum sem skýrt getur þau sjónarmið sem búa að baki umræddri leyfisveitingu.

Continue Reading→

Af umhverfisáhrifum jarðhitavirkjana

Jarðhitavirkjanir eru að miklu leyti sambærilegar við námavinnslu. Jarðhitavatninu er dælt í miklu magni upp úr jarðhitageyminum, og þannig er sú náttúrulega hringrás sem til staðar er gerð miklu hraðari en hún hefði verið án virkjunar. Jarðhitageymirinn endurnýjast ekki, nema að affallsvatni sé dælt aftur ofan í jarðhitageyminn, en slíkt er gert í tilraunaskyni og enn nokkuð óljóst hve mikið skilar sér aftur inn í hringrás vatnsins við slíkar niðurdælingar sem vonandi munu þó ganga betur eftir því sem aukin reynsla fæst.Affallsvatn frá jarðhita getur innihaldið ýmsa snefilmálma, eins og kadmíum, kopar og einnig eru í jarðhitavatni efni eins og kvikasilfur og arsen. Efni þessi geta verið bundin lífrænum efnum en þau geta einnig verið óbundin og er mismunandi hvort málmarnir eru á því formi sem fer inn í lífverur eða hvort þeir eru óvirkir.Íslensk vötn eins og t.d. Þingvallavatn eru ólígótrófísk þ.e. þau eru tær og innihalda lítið magn lífrænna efna. Íslensk vötn eru því viðkvæmari fyrir jarðhitamengun heldur en vötn víða annarsstaðar í heiminum, þ.e. lítið er af lífrænum efnum sem gætu gert málma eins og kadmíum og kopar óskaðlega.Annað er mjög athyglisvert, og hefur nánast ekkert verið rætt hér á landi, og það er að sökum tærleika íslenskra vatna, eru þau afskaplega viðkvæm gagnvart sólarljósi og útfjólublárri geislun frá sólu. Af hverju er ég að nefna þetta? Jú vegna þess að þetta þýðir að íslensk stöðuvötn eru viðkvæm gagnvart þynningu ósonlagsins, þ.e. geislar sólar komast langt ofan í vötnin. Þessu hafa menn almennt lítið pælt í hérlendis, að ég held.Kvikasilfur er e.t.v. það efni í jarðhitagufum og jarðhitavatni sem er hvað skaðlegast, en það skiptir þó máli á hvaða formi það er. Kvikasilfursgufur eru ekki hollar, enda urðu hattagerðarmenn í Lundúnum sem notuðu kvikasilfur “mad as a hatter”, eins og Englendingar segja en vitað er að kvikasilfur hefur áhrif á miðtaugakerfi bæði hjá mönnum og dýrum.Mér þykir sorglegt að segja það, en það kemur eflaust að því að við þurfum að framkvæma mun meiri mengunarmælingar í íslenskri náttúru en þurft hefur til þessa. Virkjanir og verksmiðjur og ýmis starfsemi veldur mengun, og það er ekki bara svartur reykur sem er mengandi, – oft eru efnin ósýnileg og falin í náttúrunni.Mengun er þessvegna oft ekki sýnileg berum augum, en sem betur fer hefur umhverfisefnafræðin þróað ýmsar aðferðir til að mæla mengun og rekja hana til uppruna síns, svo og til að meta skaðsemi mengunar. Mikilvægt er að muna að efnafræðin stjórnast ekki af samfélaginu, efni og efnasambönd fara að náttúrulögmálum, og þessvegna verðum við sem samfélag að taka tillit til þessa. Góðar stundir.

Continue Reading→

Jólatré eiga sér framhaldslíf

Reykjavíkurborg mun ekki hirða jólatré í ár, frekar en síðasliðin ár. Nokkur íþróttafélög bjóða upp á þá þjónustu að sækja jólatré gegn gjaldi. Skógræktarfélag Reykjavíkur og Gámaþjónustan eru í samstarfi um að hirða jólatré og Íslenska gámafélagið sækir jólatré heim. Í flestum sveitarfélögum höfuðborgarsvæðisins verða jólatré hirt séu þau sett út fyrir lóðamörk. Hjálparsveit skáta og þjónustumiðstöðin í Garðabæ munu hirða jólatré þar. Þau tré sem lögð verða út fyrir lóðamörk dagna 7. til 8. janúar verða sótt íbúum að kostnaðarlausu. Í Hafnarfirði munu starfsmenn taka jólatré sem sett eru út fyrir lóðamörk eftir helgina, þann 9. og 10. janúar. Einnig á Seltjarnarnesi og í Kópavogi. Alls staðar er brýnt fyrir fólki að koma trjánum vel fyrir til að koma í veg fyrir að þau fjúki burt. Hægt er að fara með tré án endurgjalds á endurvinnslustöðvar. Þar verða jólatrén færð til kurlunar og moltugerðar og nýtast þannig til að hlúa að nýju lífi. Sjá allar endurvinnslustöðvar á landinu hér á Endurvinnslukortinu. Grafík: Dautt tré næring fyrir nýja plöntu, Guðrún Tryggvadóttir ©Náttúran.is.

Continue Reading→

Um erfðabreytta ræktun að Reykjum í Ölfusi og yfirlýsingar formanns Neytendasamtakanna

Á vefsíðu Vísis og í Fréttablaðinu í gær þ. 3. janúar var viðtal við Jóhannes Gunnarsson formann Neytendasamtakanna vegna greinargerðar (sjá greinargerðina hér), sem Jóhannes vill meina að ekki hafi verið borin formlega undir né samþykkt af Neytendasamtökunum.

Continue Reading→

Alltof mikið kadmíum í áburði

Alltof mikið magn af þungmálminum kadmíum fannst í ellefu tegundum af áburði sem Skeljungur seldi í fyrra. Efnið getur verið krabbameinsvaldandi og hefur Matvælastofnun bannað sölu og dreifingu á áburðinum. Matvælastofnun hefur á hverju ári eftirlit með áburði sem seldur er hér á landi. Í skýrslu um áburðareftirlit fyrir árið 2011 kemur fram að fjölmargar tegundir af áburði hafi innihaldið alltof mikið magn þungmálmsins kadmíums. Verst hafi ástandið verið hjá fyrirtækinu Skeljungi. Sýni voru tekin úr 13 tegundum sem fyrirtækið flytur inn og í 11 þeirra reyndist magn kadmíums verulega yfir leyfðum mörkum. Magn kadmíums í áburði má ekki fara yfir 50 milligrömm á hvert kíló fosfórs. Hjá Skeljungi fór það í allt að 159 milligrömm á hvert kíló, sem er meira en þrefalt of mikið. Í mörgum tilfellum var magnið á bilinu tvisvar til þrisvar sinnum of mikið. „Við lítum svona mál mjög alvarlegum augum því að þarna er klárlega bort á okkar reglugerðum um þessi hámörk á kadmíum og við viljum koma í veg fyrir þetta eins og við getum,“ segir Valgeir Bjarnason, sérfræðingur hjá Matvælastofnun. Kadmíum telst til óæskilegra þungmálma sem safnast fyrir í vefjum lífvera og í vistkerfum. Þannig safnast það til dæmis fyrir í innyflum dýra sem ýmis matvara er unnin úr, og í kartöflum og grænmeti. Á vef Umhverfisstofnunar segir að efnið sé hugsanlega krabbameinsvaldandi, það veiki bein, skemmi nýru og lungu og valdi beinverkjum í liðamótum. Valgeir segir að mikið af áburði sem innihélt of mikið kadmíum hafi farið á íslensk tún í fyrra. „Þetta eru svona 10 - 12 þúsund tonn sem hafa verið með þessum galla.“ Hingað til hefur fosfór í áburði hjá Skeljungi komið frá Rússlandi, en í fyrra kom hann frá Norður-Afríku, og reyndist hann innihalda mun meira kadmíum en sá rússneski. „Það kom svona aftan að okkur - við höfðum ekki hugmynd um þetta, þetta hafði verið í lagi fram til ársins í ár og ekkert kadmíum mælst í áburði frá Skeljungi þangað til.“ Matvælastofnun hefur bannað sölu og dreifingu á umræddum áburði. Ljósmynd: Baula í Borgarfirði, Árni Tryggvason.

Continue Reading→

Grænavatnsganga í tilefni af aldarminningu Sigurðar Þórarinssonar

Þann 8. janúar 2012 verða liðin 100 ár frá fæðingardegi Sigurðar Þórarinssonar jarðfræðings, eins ástsælasta vísindamanns þjóðarinnar á síðustu öld. Á þessum degi ætla félög og samtök sem tengjast náttúruvísindum, náttúruvernd og útiveru að efna til blysfarar kringum Grænavatn í Krýsuvík. Landvernd er þar á meðal. Dagskrá hefst kl. 15 við Grænavatn.Farið verður með rútu frá skrifstofu Ferðafélags Íslands, Mörkinni 6, kl. 14, sunnudaginn 8. janúar. Fargjald er kr. 1000 og greiðist við brottför. Þeir sem fara á einkabílum greiða ekki gjald. Þátttakendum í gönguferðinni eru útveguð blys en fólk er einnig hvatt til að taka með sér eigin blys eða kyndla. Ekið er sem leið liggur úr Hafnarfirði eftir Krísuvíkurvegi, framhjá Kleifarvatni og Seltúni að Grænavatni sem er á vinstri hönd.Það var haustið 1949 sem Sigurður flutti tímamótaerindi á fundi Hins íslenska náttúrufræðifélags, þar sem hann hvatti til þess að sett yrði löggjöf um náttúruvernd á Íslandi. Dropinn sem fyllti mælinn var umgengnin við Grænavatn sem hann sagði að notað væri sem ruslatunna vegna framkvæmda rétt hjá vatninu. Búið væri að fordjarfa þetta fallega og merkilega náttúrufyrirbæri.Erindið vakti mikla athygli og þáverandi menntamálaráðherra, Eysteinn Jónsson hafði samband við Sigurð og bað hann að taka sæti í nefnd til að undirbúa löggjöf um náttúruvernd. Fyrstu lög um náttúruvernd á Íslandi tóku svo gildi árið 1956. Segja má því að upphaf formlegrar náttúruverndar hérlendis, eigi sínar rætur við Grænavatn í Krýsuvík.Samtökin sem standa að blysförinni eru: Ferðafélag Íslands, Hið íslenska náttúrufræðifélag, Hraunavinir, Útivist, Jarðfræðingafélagið, Jöklarannsóknarfélagið, Landvernd, Náttúruverndarsamtök Suðvesturlands og Reykjanesfólkvangur.Allir eru velkomnir í þessa blysför, Sigurði Þórarinssyni til heiðurs. Hér er ekki síst verið að heiðra frumkvæði hans í náttúruverndarmálum og minna á um leið, að þörfin er ekki síðri í dag en hún var um miðja síðustu öld.Sigurður var með merkustu jarðfræðingum og naut virðingar á sínu sviði um allan heim. Grænavatn er á miðjum Reykjanesskaganum, en hann þykir með merkilegustu jarðfræðifyrirbærum. Hafa komið fram hugmyndir um að gera Reykjanesskagann að Eldfjallagarði. Fátt væri betur fallið til þess að heiðra minningu Sigurðar en Eldfjallagarður á Reykjanesskaga.En Sigurður var ekki aðeins merkur vísindamaður. Hann unni landi sínu og var öllum minnisstæður sem persóna. Ljóðagerð hans var landskunn og kvæðin sungin, hvort sem ekið var í rútubíl í Þórsmörk eða safnast saman við varðeld og í skála á fjöllum. Þegar eldur braust úr jörðu, var Sigurður gjarnan mættur með fyrstu mönnum og með rauðu skotthúfuna. Það er því við hæfi að þátttakendur í blysförinni mæti með rauða húfu – helst skotthúfu.Ljósmyndir: Efri mynd; Grænavatn, Árni Tryggvason. Neðri myndin er af Sigurði Þórarinssyni, af vef Landverndar.

Continue Reading→

Varúð erfðabreytt

Þann 2. janúar sl. tók ný reglugerð gildi hér á landi en hún felur í sér að merkja þarf sérstaklega allar þær matvörur og dýrafóður sem inniheldur eða samanstendur af erfðabreyttum lífverum eða er framleitt úr eða inniheldur innihaldsefni sem eru framleidd úr erfðabreyttum lífverum. Reyndar átti reglugerðin að taka gildi þ. 1. september 2010 en þáv. landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra frestaði gildistökunni hvað varðar merkingu matvælanna. Sjá alla reglugerðina hér. Hér til hægri er tillaga að varnaðarmerki sem ætti heima á síkum vörum en tekið skal fram að þetta er ekki opinbert merki heldur sjálfstæð tillaga mín og skal skoðuð sem frjáls og listræn útfærsla með húmor. Hún styðst þó við raunveruleg gjörning sem á sér stað við erfðabreytingar. Þ.e. að taka gen úr mönnum, svínum eða öðru óskildum lífverum og skjóta inn í t.d. bygg, hafra og maís til að ná fram ákveðnum eiginleikum sem oftast hafa þó einnig dökkar hliðar og ógna líffræðilegum fjölbreytileika og mannlífi á stórum svæðum jarðar, t.a.m. í Indlandi og Bandaríkjunum. Mér er ekki kunnugt um að sérstakt varnaðarmerki hafi verið hannað af stjórnvöldum en í reglugerðinni kemur fram að merkingarnar sem nú eru lögboðnar eigi að koma fram í texa á umbúðum varanna (sjá 4. grein hér að neðan). Ég geri það þó að tillögu minni að merki verði hannað sem að taki af öll tvímæli um það hvort að vörur innihaldi erfðabreyttar lífverur eða ekki. 4. gr.Um merkingar erfðabreyttra matvæla Auk þess að uppfylla ákvæði reglugerðar um merkingu matvæla skulu erfðabreytt matvæli sem falla undir reglugerð þessa uppfylla eftirtalin skilyrði:a. þar sem matvælin eru erfðabreyttar lífverur skal orðið „erfðabreytt“, koma fram innan sviga strax á eftir vöruheiti; b. þar sem matvælin samanstanda af fleiri en einu innihaldsefni skulu orðin „erfðabreytt“, eða „framleitt úr erfðabreyttu (nafn innihaldsefnisins)“ koma fram innan sviga strax á eftir viðkomandi innihaldsefni í innihaldslýsingu; c. þar sem innihaldsefnið er auðkennt með nafni flokks skulu orðin „inniheldur erfðabreytta (nafn á lífverunni)“ eða „inniheldur (nafn innihaldsefnisins) sem framleitt er úr erfðabreyttri (nafn lífverunnar)“ koma fram á innihaldslýsingu; d. þar sem innihaldslýsing er óþörf skulu orðin „erfðabreytt“ eða „framleitt úr erfðabreyttri (nafn lífverunnar)“ koma fram á merkingunni; e. upplýsingarnar sem vísað er til í liðum a og b mega koma fram í neðanmálsgrein við innihaldslýsingu. Í því tilviki skal prenta þær með letri sem er að minnsta kosti jafnstórt og letrið á innihaldslýsingunni. Þar sem innihaldslýsing er óþörf skulu þær koma greinilega fram á merkingunni; f. þegar matvælum er dreift án umbúða eða þau eru seld í litlum neytendaumbúðum þar sem yfirborðið er minna en 10 fersentimetrar þar sem það er stærst skulu upplýsingar sem krafa er gerð um í þessari grein ávallt vera sýnilegar þar sem matvælunum er stillt upp eða þar við hliðina á umbúðunum sjálfum í leturstærð sem er auðlæsileg. Hafi matvælafyrirtæki ekki uppfyllt kröfur um merkingar erfðabreyttra matvæla samkvæmt reglugerð þessari er dreifingaraðila heimilt að merkja matvælin í samræmi við ákvæði reglugerðarinnar enda liggi fyrir staðfesting á efnainnihaldi matvælanna frá matvælafyrirtækinu. Grafík: Varúð erfðabreytt, Guðrún A. Tryggvadóttir. Creative Commons.

Continue Reading→

Leggja til friðun á fimm tegundum svartfugla næstu fimm árin

Starfshópur sem Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra skipaði í september sl. um verndun og endurreisn svartfuglastofna leggur m.a. til að fimm tegundir sjófugla af svartfuglaætt verði friðaðar fyrir öllum veiðum og nýtingu næstu fimm árin. Þetta kemur fram í skýrslu sem hópurinn hefur skilað af sér og umhverfisráðherra kynnti í ríkisstjórn í morgun.Starfshópnum var falið að gera tillögur um aukna verndun svartfugla og aðgerðir sem stuðlað geti að endurreisn stofnanna, þ.m.t. um eggjatínslu. Fjallaði hann um fimm tegundir sjófugla af ætt svartfugla, þ.e. álku, langvíu, stuttnefju, lunda og teistu. Í skýrslu sinni leggur starfshópurinn áherslu á að hér við land sé einn stofn af hverri þessara tegunda þannig að staðbundin áhrif og breytingar hafa áhrif á um allt land og á viðkomandi stofn hér við land.Mælingar sýna að árleg fækkun álku er um 20%, fækkun langvíu um 7% á ári og stuttnefju um 24%. Viðvarandi viðkomubrestur hefur verið hjá um 75% af lundastofninum í nokkur ár og algjört hrun var í varpi hans árið 2011 nema á Norðurlandi hjá um 20% af stofninum, þar sem varp var viðunandi.Starfshópurinn telur helstu orsakir hnignunar stofnanna vera fæðuskort en telur að tímabundið bann við veiðum og nýtingu muni flýta fyrir endurreisn þeirra. Meðal þess sem starfshópurinn leggur til er: að þessar fimm tegundir verið friðaðar fyrir öllum veiðum og nýtingu næstu fimm árin og að sá tími verði nýttur til þess að afla betri upplýsinga um tegundirnar og stofnbreytingar, með vöktun og rannsóknum, til þess að bæta megi verndun og sjálfbæra nýtingu þeirra og endurmeta ástandið þegar þessu friðunartímabili ljúki, að breytingar verði gerðar á veiðikortakerfinu m.a. þannig að veiðikort þurfi til allrar nýtingar villtra fugla, m.a. eggjatínslu, að veiðiskýrslur verði endurbættar þannig að ítarlegri upplýsingar fáist um eðli og umfang nýtingar, nýtingartíma og aðferðir við nýtingu þannig að betur megi meta áhrif nýtingar á mismunandi tegundir fugla, að gripið verði til almennra friðunaraðgerða, fræðsla og kynning verði aukin, að bann við skotveiðum við fuglabjörg verði fært úr 500 metra í 2.000 metra fjarlægð frá björgunum, að umhverfisráðherra taki upp samstarf við sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um að draga úr fugladauða við fiskveiðar, betri skráningu meðafla og framkvæmd á bann við sölu fugls sem ferst í fiskveiðarfærum. Á fundi sínum í morgun samþykkti ríkisstjórnin að umhverfisráðherra undirbúi frumvarp til breytinga á lögum nr. 64/1994 um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum á þann veg að umhverfisráðherra verði framvegis heimilt að setja í reglugerð ákvæði um stjórnun hlunnindanýtingar. Slík lagabreyting er nauðsynleg forsenda þess að hægt verði að friða umræddar sjófuglategundir fyrir veiðum með það að markmiði að endurreisa viðkomandi stofna og treysta sjálfbæra nýtingu þeirra.Starfshópurinn var skipaður fulltrúum umhverfisráðuneytisins, Náttúrufræðistofnunar, Umhverfisstofnunar, Bændasamtaka Íslands, Skotveiðifélags Íslands og Fuglaverndar auk formanns nefndar um endurskoðun laga nr. 64/1994.Skotvís og Umhverfisstofnun skiluðu séráliti um friðun álku, langvíu og stuttnefju um takmörkun á veiði þeirra næstu fimm árin í stað algjörrar friðunar. Fulltrúi Bændasamtaka Íslands sagði sig frá tillögum starfshópsins eftir að tillögurnar voru frágengnar í hópnum og stendur því ekki að þeim. Skýrsla starfshóps um verndun og endurreisn svartfuglastofna Ljósmynd: Lundi, Jóhann Óli Hilmarsson.

Continue Reading→

Leggja til friðun á fimm tegundum svartfugla næstu fimm árin

Starfshópur sem Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra skipaði í september sl. um verndun og endurreisn svartfuglastofna leggur m.a. til að fimm tegundir sjófugla af svartfuglaætt verði friðaðar fyrir öllum veiðum og nýtingu næstu fimm árin. Þetta kemur fram í skýrslu sem hópurinn hefur skilað af sér og umhverfisráðherra kynnti í ríkisstjórn í morgun.

Continue Reading→

Fyrirspurn til Matvælastofnunar

Þann 1. janúar sl. tók gildi Reglugerð nr. 1038/2010 um merkingu og rekjanleika erfðabreyttra matvæla og erfðabreytts fóðurs. Náttúran.is beinir þeirri spurningu til Matvælastofnunar, hvernig eftirliti og merkingum á matvörum með erfðabreyttu innihaldi skuli háttað og hvort að enn séu á markaði vörur sem ekki hafa verið merktar skv. hinni nýju reglugerð og ef svo er, hvenær stofnunin muni innleiða merkingarskilduna og hvernig henni verði framfylgt. Svar Matvælastofnunar verður birt hér á síðunni um leið og það berst. Samklippa: Varúð erfðabreytt! Nokkrar af þeim fjölmörgu vörutegundum sem innihalda erfðabreytt hráefni. Guðrún A. Tryggvadóttir.

Continue Reading→

Gleðidagur: Nú fæ ég loks að vita það!

Í gær tók loksins gildi Reglugerð nr. 1038/2010 um merkingu og rekjanleika erfðabreyttra matvæla og erfðabreytts fóðurs, þ.e.a.s. hvað matvælin varðar. Upphaflega átti reglugerðin öll að taka gildi 1. september sl., en þáverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra frestaði gildistöku matvælahlutans á síðustu stundu fram til 1. janúar 2012, að því er virðist vegna þrýstings frá Jóni Geraldi Sullenberger, eiganda matvöruverslunarinnar Kosts og einhverjum fleiri innflytjendum og seljendum matvæla frá Bandaríkjunum. Upplýsingar en ekki boð og bönn!Ég held að einhverjir hafi misskilið þýðingu umræddrar reglugerðar. Málið snýst alls ekki um að banna sölu á erfðabreyttum matvælum, heldur aðeins um að upplýsa neytendur um það hvort tiltekin matvæli innihaldi erfðabreytt efni. Málið er því réttlætismál fyrir neytendur, hvort sem þeir vilja erfðabreytt á diskinn sinn eða ekki. Íslendingar ekki lengur eftirbátar annarra EvrópuþjóðaMeð gildistöku reglugerðarinnar hafa íslenskir neytendur loksins öðlast sama rétt og neytendur í öðrum löndum Evrópu hvað merkingar og rekjanleika erfðabreyttra matvæla varðar. M.a. þess vegna finnst mér gærdagurinn gleðidagur!!! En samt finn ég engar merkingarÞað veldur mér reyndar pínulitlum áhyggjum að í könnunarferð í Nettó í Borgarnesi í dag fann ég ekki eina einustu matvöru sem innihélt erfðabreytt efni, svo séð væri. Þetta getur átt sér þrjár mismunandi skýringar: Matvörurnar sem ég skoðaði voru raunverulega allar lausar við erfðabreytt efni. Framleiðendur og seljendur hafa svikist um að merkja vörurnar. Gildistöku reglugerðarinnar hefur verið frestað aftur án þess að ég tæki eftir því. Ég þykist nú þegar hafa útilokað þriðju og síðustu skýringuna með því að fletta í gegnum allar reglugerðir sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins síðustu mánuði og til dagsins í dag. Hinar tvær þykja mér báðar ósennilegar. Ég veit með öðrum orðum ekki alveg hvað er hér á seyði. Hvað getum við gert?Neytendur sem hafa rökstuddan grun um að matvæli  sem ekki eru merkt samkvæmt framanskráðu innihaldi engu að síður erfðabreytt efni, ættu að biðja framleiðendur eða seljendur að að leggja fram gögn sem staðfesta fjarvist slíkra efna, í samræmi við ákvæði reglugerðarinnar. Væntanlega geta heilbrigðisnefndir sveitarfélaga undir yfirumsjón Matvælastofnunnar liðsinnt fólki hvað þetta varðar, en þessar stofnanir fara með eftirlit með því að ákvæðum reglugerðarinnar sé framfylgt. Meira lesefni af bloggsíðu Stefáns Gíslasonar:- Bloggpistillinn Á morgun fæ ég að vita það 31. ágúst 2011- Bloggpistillinn Ísland er land þitt 1. september 2011(Í þessum pistlum eru m.a. tenglar á umræddar reglugerðir)

Continue Reading→

Græningja á Bessastaði?

Veita forsetakosningar í vor græningjum tækifæri til að koma málstað umhverfisverndar á framfæri? Eiga græningjar að sameinast um forsetaframbjóðanda? Hverjar yrðu áherslur slíks frambjóðanda? Hver ætti þessi frambjóðandi að vera? Um þetta verður rætt á opnum fundi í Grasrótarmiðstöðinni að Brautarholti 4 fimmtud. 5. janúar kl. 20:00. Allir áhugasamir eru hvattir til að mæta. Sjá nánar um atburðinn á „Græningja á Bessastaði“ á Facebook.

Continue Reading→

Grænu síðurnar

Náttúran.is lítur á það sem samfélagslega skyldu sína að þróa eins fullkomnar „grænar síður“ fyrir Ísland og mögulegt er. Grænu síðurnar gefi þannig yfirsýn yfir hin fjölmörgu fyrirtæki og stofnanir sem tengjast náttúru og umhverfi á einn eða annan hátt. Grænu síðurnar tengja viðmið og vottanir við fyrirtæki og vörur og gefa hinum almenna neytanda möguleika á að beina viðskiptum sínum þangað sem honum finnst vera stunduð fyrirmyndar starfsemi. Grænar síður eru liður í að gera eftirfarandi markmið Náttúrunnar er ehf. að veruleika: Að þróa tæknilegar lausnir að samskiptaveröld sem getur tengt á milli þátta sem annars hafa aðeins huglæga eða óbeina tengingu Að auka veg íslenskrar náttúru og náttúruafurða í landkynningarlegu tilliti Að efla atvinnutækifæri henni tengdri um allt land og á öllum sviðum Að efla þátttöku sem flestra í umhverfimeðvituðum lifnaðarháttum og neyslu sem er síður mengandi eða skaðleg en önnur Á grænum síðum eru upplýsingar um fyrirtæki og stofnanir sem uppfylla eftirfarandi skilyrði eða stunda eftirtalda starfsemi:

Continue Reading→

Fræðsluefni Náttúrunnar

Náttúran.is býður upp á kennsluefni s.s. sérsniðin plaköt, mynd- og textaefni sem nýst getur til kennslu og upplýsingagjafar, utan vefsins. Plakötin geta verið í þeim stærðum sem henta hverjum og einum. Einnig er hægt að fá kynningar til félaga, fyrirtækja, stofnana og skóla og er kynningin þá sérsniðin að áhugasviði eða þörfum hvers hóps fyrir sig. Vægt gjald er tekið fyrir sérhannað prentað efni og kynningar út um allt land. Netfang er nature@nature.is og símar 483 1500 og 863 5490. Við minnum einnig á að Náttúruspilin eru tilvalið kennslutæki fyrir alla aldurshópa. Vorið 2009 var öllum grunn- og framhaldsskólum í landinu og í apríl 2010 öllum leikskólum sendur stokkur af Náttúruspilum að gjöf en Menntamálaráðuneytið tók þátt í kostnaðinum með styrkframlagi í bæði skiptin. Sjá Náttúruspilin hér á Náttúrumarkaðinum. Einnig er hægt að fá 2. útgáfu af Græna Reykjavíkurkortinu sem við gáfum út í sumar. Á bakhlið kortsins er veggmynd af fræðsluþættinum Húsið og umhverfið. Plakat: Lofslagsbreytingar, Guðrún A. Tryggvadóttir.

Continue Reading→

Skrifstofan - Sjónauki

Ítalski stjörnufræðingurinn Galileo Galilei var einna fyrstur manna til þess að nota sjónauka til að skoða sólkerfið. Hann uppgötvaði hin fjögur stærstu tungl Júpíters og ennfremur uppgötvaði hann að tunglin snérust í kringum Júpíter en ekki jörðina, en sú uppgötvun markaði tímamót innan stjörnufræðinnar. Síðan hafa merkir stjörnufræðingar notað sjónauka til að rannsaka alheiminn, og  önnur stór uppgötvun varð þegar Edwin Hubble uppgötvaði með hjálp sjónaukans og aðstoðarmanns síns að alheimurinn er að þenjast út. Sjónaukinn er aðalhjálpartæki stjörnufræðinga í dag, og sífellt eru sendir stærri og fullkomnari sjónaukar á braut um jörðu. Með hjálp sjónaukans hafa stjörnufræðingar uppgötvað að alheimurinn þenst sífellt hraðar og hraðar út, uppgötvun sem er enn ekki að fullu útskýrð og sem kom mörgum a óvart. Alheimurinn virðist vera enn stórkostlegri og furðulegri en við mennirnir höfum nokkru sinni getað ímyndað okkur til þessa. Hann heldur áfram að koma okkur á óvart.

Continue Reading→

Torfbær

Á Græna kortinu er hægt að fá upplýsingar um torfbæi. Skilgreiningin sem við flokkum eftir er eftirfarandi: Hefðbundinn íslensk hús, byggð úr torfi, grasi og grjóti. Sjá nánar um torfbæi hér á Græna kortinu undir flokknum „Torfbær". Grafík: Myndtákn Green Map® System flokksins „Torfbær“, hannað af Guðrúnu A. Tryggvadóttur sem tillegg til Green Map kerfisins.

Continue Reading→

Kertin leka ekki

Kertin leka ekki ef þau eru sett í saltvatn í 1-2 tíma og síðan látin þorna vel áður en kveikt er á þeim.

Continue Reading→

Áramót

Rétt er í upphafi að gera nokkra grein fyrir því, hvenær árið er talið hefjast, en það var ærið breytilegt eftir tímabilum og löndum, og er ekki ástæða til að rekja hér alla þá flækju. Það sem máli skiptir hér, er að árið hófst 1. janúar í Róm frá því 153 f. Kr., þar til karl mikli færði nýársdaginn til 25. mars á 9. öld. Í byrjun 16. aldar var í ýmsum hlutum Þýskalands og á Niðurlöndum árið látið hefjast 1. janúar, öðrum á páskadag og enn öðrum á jóladag, sem kalla mátti rökrétt, þar eð tímabilið var miðað við fæðingu Krists. Árið 1582 fyrirskipaði Gregoríus páfi 13., að árið skyldi hefjast 1. janúar, og var það boð ítrekað 1691, en því var ekki sinnt í löndum mótmælenda í Norður-Þýskalandi og Danmörku fyrr en árið 1700. Í Englandi höfðu menn byrja árið á jóladag fram til 12. Aldar, en tóku þá upp 25. mars sem nýársdag og var svo, uns Georg 2. færði hann til 1. janúar árið 1752.Eftir fornu íslensku tímatali hófst árið á jóladag, en strax á 16. öld virðist 1. janúar árið 1752. Þangað til 1. janúar varð nýársdagur, hét hann einfaldlega áttundi dagur jóla og var sem slíkur helgari en aðrir ásamt hinum fyrst og hins síðasta. Hann var einnig talinn helgidagur í minningu umskurnar Krists. Af þessum sökum er ekki að undra, þótt nokkur ruglingur sé á því, hvort tilteknir viðburðir í þjóðtrúnni eigi að gerast á jólanótt, nýársnótt eða jafnvel þrettándanótt, svo sem það, að kirkjugaður rísi, kýrnar tali eða vatn verði sem snöggvast að víni. Á síðari öldum a.m.k. er þetta þó almennast tengt nýársnótt. Eitt þessara atriða var álfareiðin, sem stundum mátti sjá á nýársnótt, því þá var talinn fardagur álfa, ef þeir fluttu búferlum. Á hinn bóginn virðist oftar talið, að álfamessur fari fram á jólanott, þótt það geti einnig gerst á nýársnótt. Útisetur á krossgötum þóttu og vænlegastar á nýársnótt. Þær töldust í fyrndinni til galdra og fordæðuskapar og lágu bönn við þeim í norskum lögum. En útiseturnar voru a.m.k. bönn við þeim í norskum lögum. En útiseturnar voru a.m.k. síðarmeir mjög tengdar drauga- og álfatrúnni og framdar á svofelldan hátt eftir því sem segir í Þjóðsögum Jóns Árnasonar: „Sá sem ætlaði sér að sitja úti til frétta þurfti að búa sig út á gamlárskvöld og hafa með sér gráan kött, grátt gæruskinn, rostungshúð eða öldungshúð og öxi. Með þetta allt skyldi særingarmaður fara út á krossgötur sem lægju allar hver um sig beina leið og án þess að slitna til fjögurra kirkna. Á gatnamótunum sjálfum skal særingarmaður liggja, breiða vel yfir sig húðina og bregða henni inn undir sig á allar hliðar svo ekkert standi út undan henni af líkamanum. Öxinni skal hann halda milli handa sér, einblína í eggina og líta hvorki til hægri né vinstri hvað sem fyrir hann ber né heldur ansa einu orði þó á hann sé yrt. Í þessum stellingum skal maður liggja grafkyrr til þess dagur ljómar morguninn eftir.

Continue Reading→

Áramótakveðja Náttúrunnar 2011-2012

Á áramótum er oft staldrað við, litið um öxl og fram á veg. Á þessum áramótum er full ástæða til að skoða baráttu umhverfis- og náttúrverndar og þann árangur sem náðst hefur. Sem er nokkur. Enn er þó langt í land með að ásættanleg niðurstaða fáist og líklega verður aldrei hægt að lýsa fullnaðarsigri þar sem ný ofnýting, eyðilegging og aðrar afleiðingar virðingarleysis og græðgi spretta upp. Sérstaklega á meðan hagkerfi heimsins gengur fyrir þenslu og óráðsíu. Hér á Íslandi hefur margt breyst til batnaðar á þessu ári. Árósasáttmálinn var leiddur í lög, laskaður að vísu, en nú geta félagasamtök af vissri stærð kært ákvarðanir og leyfi. Áður voru aðeins aðilar með beina lögvarða hagsmuni sem gátu kært. En óskaddaður sáttmáli leyfði einstaklingum að kæra þrátt fyrir að eiga ekki beina hagsmuni. Þetta er engu að síður mikið framfaraskref í átt að réttlátara samfélagi og ekki ólíklegt að á þetta reyni fljótlega eftir gildistöku á nýju ári. Á þessu ári hvað við annan tón í umræðu um virkjanir, sérstaklega til stóriðju. Stjórnendur viðurkenndu hæpnar viðskiptaforsendur virkjana á borð við Kárahnjúka. Eitthvað sem baráttumenn gegn þeim framkvæmdum höfðu sagt en hlotið bágt fyrir og gert að þeim grín; þeir hefðu ekkert vit á viðskiptum. Sami tónn og var fyrir efnahagshrunið. Hroki og meðvituð lygi til að ná sínu fram. Orð eins og "[…]bending all the rules just for that." fóru óáreitt gegnum umboðsmann Alþingis vegna þess að þau snertu kæranda ekki persónulega. En nú virðast menn hafa lært af reynslunni og ræða málin af meiri hreinskilni og taka meira mark á haldgóðum rökum í umræðunni. Það er töluverður árangur og vonandi að nýir tímar séu framundan og að hér geti átt sér stað umræða sem einkennist af heiðarleika og virðingu fyrir málefnum og þeim upplýsingum sem liggja fyrir. Þess er veruleg þörf í umræðu um Reykjanes þar sem illa upplýstir sveitarstjórnarmenn, lögfræðingar og bankamenn vilja virkja gömul loforð um orku. Orku sem ekki er fyrir hendi að mati færustu sérfræðinga á sviði jarðvísinda. Rammaáætlun leit loksins dagsins ljós og skapar traustan grundvöll umræðu um virkjanir og verndun. Það er vel þótt tekist sé á um þá staði sem lenda á milli virkjana og verndnar. Í ljósi þeirrar stefnubreytingar að virkjanir eigi að standa undir sér og skila arði má vænta þess að meiri sátt skapist um þá staði sem verður að virkja. Draugurinn með ORF-ið skaut upp kollinum á árinu og hóf ræktun erfðabreytts byggs í næsta nágrenni tveggja helstu frumkvöðla lífrænnar ræktunar á Íslandi, Vallanesi og Heilsustofnunar Náttúrulækningarfélagsins í Hveragerði. Umhverfisstofnun veitti leyfi þrátt fyrir að ræktun erfðabreyttra lífvera rýri möguleika og trúverðuleika lífrænnar ræktunar á svæði í 9,6 km radíus frá ræktuninni sem fyrst og fremst er til framleiðslu í snyrtivörur (sem fólki er selt án þess að þess sé getið að mennsk prótín í vörunnin hafi verið ræktuð í byggi). Þessi yfirgangur hefur orðið þess valdandi að vonandi verða lög um erfðabreytta ræktun tekin til gagngerðar endurskoðunar á næsta ári. Efnahagsástand heimsins hefur vakið vitund um fæðuöryggi. Að þekking og aðstæður séu fyrir hendi til að framleiða hér þá fæðu sem við þurfum. Til þess þarf að vera hægt að framleiða hér orku eins og metan og lífdísel, áburð sem að mestum hluta er unninn úr því sem til fellur s.s. úrgangi búsmala og við metanframleiðslu. Landbúnaður og garðyrkja þurfa að geta starfað nánast án innflutnings. Margt hefur áunnist og margt er ógert. Nefnd Alþingis um eflingu Græns hagkerfis skilaði niðurstöðum sem auðvelt ætti að vera að ná sátt um. Á komandi ári má vænta breyttra og nýrra laga á sviði nátturuverndar, merkinga á neysluvörum með erfðabreyttum hráefnum og vonandi verða skerptar línur varðandi ræktun lífvera með breytt erfðaefni.

Continue Reading→

Hættuleg efni í flugeldum

Við mælingar á efnainnihaldi flugelda á vegum yfirvalda í Danmörku kom í ljós að hluti þeirra innihaldi þrávirka efnið hexaklórbensen sem hefur um langt skeið verið bannað vegna þeirra alvarlegu áhrifa sem það hefur á umhverfið og heilsu manna. Hér á landi hafa engar slíkar rannsóknir verið gerðar og því liggur ekki fyrir hvort flugeldarnir og skotterturnar sem eru á markaði hér innihaldi hexaklórbensen. Mörg önnur heilsuskaðleg efni geta verið í flugeldum eða sem geta myndast eftir að kveikt er í þeim. Það er á ábyrgð innflytjenda að tryggja að flugeldar innihaldi ekki efni sem eru bönnuð. Á næsta ári er áætlað að hafa samráð við yfirvöld í öðrum Evrópuríkjum um hvernig megi koma í veg fyrir að flugeldar með bönnuðum efnum rati á markað. Hexaklórbensen er þrávirkt efni sem safnast upp í umhverfinu og í lífverum. Það brotnar niður á afar löngum tíma og getur í millitíðinni borist langar leiðir í lofti, vötnum eða sjó og hefur efnið mælst í umhverfinu fjarri mögulegum uppsprettum. Hexaklórbensen er talið geta valdið alvarlegum heilsuskaða eins og krabbameini og skaðað starfsemi lifrar og nýrna svo eitthvað sé nefnt. Hexaklórbensen var áður fyrr notað sem skordýraeitur og í ýmis konar iðnaði en öll notkun þess hefur nú verið bönnuð með alþjóðlegum aðgerðum á borð Stokkhólmssamningi um bann við framleiðslu, notkun og losun þrávirkra lífrænna efna. Nánar um hexaklórbenson og þrávirk lífræn efni: Stokkhólmssamningurinn um þrávirk lífræn efni Uppsöfnun þrávirkra lífrænna efna í fuglum og mönnum

Continue Reading→

Garðurinn - Endurvinnsla

Það sem áður var skilgreint sem úrgangur eða rusl er í dag hráefni eða auðlind fyrir aðra framleiðslu. Úrgangur og rusl er ekkert annað en auðlind á villigötum. Næstum allt er hægt að endurnota eða endurvinna. Lykillinn er að flokka úrgang rétt til að það sé mögulegt. Röng flokkun getur gert það að verkum að ómögulegt sé að endurvinna úrgang á síðari stigum. Með endurvinnslu minnkar einnig þörfin á urðun sem minnkar áhættu á jarðvegsmengun. Urðun er einnig dýr, en sem endurspeglast ekki í verði vara þar sem að það er innifalið í útsvari til sveitarfélaga. Best af öllu er hins vegar að forðast að kaupa „rusl“. Hversu oft er ekki verið að kaupa umbúðir sem fara beint í ruslið þegar heim er komið. Helstu endurvinnsluflokkar eru skilgreindir af hverju sveitarfélagi fyrir sig og er þar stuðst við Fenúrflokkana. Mögulegir endurvinnsluflokkar á Reykjavíkursvæðinu eru mun fleiri en úti á landi. Það skýrist af því að enduvinnsla er beintengd hagkvæmni og ef hagkvæmni fæst ekki út úr flutningi á hráefni til enduvinnslu um langan veg er það látið vera. Sveitarfélög eru einnig misjafnlega í stakk búin til að taka við efni til endurvinnslu en stöðug framför er á þessu sviði. Öll sveitarfélög taka þó við spilliefnum og langflest við flokkuðum pappír (dagblöðum, slétum pappa og bylgjupappa), flöskum og skilagjaldskildum umbúðum (gosflöskum og áldósum), fernum, timbri, fatnaði, húsbúnaði, garðaúrgangi og lyfjum. Á höfuðborgarsvæðinu er víða er hægt að koma úrgangi frá sér í græna og bláa grenndargáma. Einnig í flestum sveitarfélögum. Þú getur kynnt þér hver tekur við hverju hér á Endurvinnslukortinu. Á Grænum síðum Náttúrunnar undir Endurvinnslu getur þú einnig séð hvaða rekstraraðili tekur við hverjum flokk og á Grænu Íslandskorti sérð þú útbreiðslu endurvinnslufyrirtækjanna á landinu. Náttúran.is hefur einnig gefið út Endurvinnslukort fyrir iPhone og iPad og er það nú aðgengilegt í App Store. Smáforritið er ókeypis og notkun þess líka. Þeir sem nota það yfir 3G eða 4G samband greiða fyrir gagnflutning sem reynt er að halda í lágmarki. Endurvinnslukortið verður innan skamms einnig fáanlegt fyrir Android. Tilgangur Endurvinnslukorts-appsins er að fræða almenning um endurvinnslu og gefa eins fullkomið yfirlit og mögulegt er yfir hvar á landinu sé tekið við hverjum endurvinnsluflokki. Með skipulagi heimafyrir getur flokkunin verið skemmtileg fyrir alla fjölskyldumeðlimi að taka þátt í. Að hrúga öllu upp í bílskúrinn, kjallarann eða herbergi er ekki góð aðferð. Merkt ílát hvort sem það eru pokar eða önnur ílát einfalda verkið mjög. Á dagatalinu ættu ákveðnir dagar að vera merktir sem „Sorpu-dagar“ (eða nefndir eftir sorpstöðinn þinni). Þannig hrannast ekki upp birgðir sem leiða bara til leiðinda. Græna tunna Reykjavíkurborgar er einungis venjuleg tunna sem sótt er sjaldnar en venjulegar sorptunnur og því er sorpgjaldið lægra fyrir húseigendur. Bláa tunnan (Pappírstunnan í Reykjavík) tekur við pappír af ýmsu tagi (dagblöðum, tímaritum, markpósti og öðrum prentpappír). Endurvinnslutunna Gámaþjónustunnar og Græna tunna Íslenska gámafélagsins taka við endurvinnsluflokkunum: Dagblöð, tímarit, bæklingar, pappi, mjólkurfernur, plastumbúðir, niðursuðudósir og minni málmhluti. Rafhlöður og gler má ekki setja í Grænu tunnuna. Skilagjaldskyldar umbúðir Skilagjald er á ökutækjum, pappaumbúðum, umbúðum úr plasti, hjólbörðum, heyrúlluplasti, veiðarfærum og spillefnum. Allar gosumbúðir þ.e. áldósir og plastflöskur eru skilagjaldsskildar. Það þýðir að fyrir hverja framleidda dós/flösku (og alla aðra skilgjaldsskilda flokka) þarf framleiðandi að borga 14 krónur í Úrvinnslusjóð. Þennan pening innheimtir framleiðandi síðan að sjálfsögðu hjá okkur með því að leggja hann á vöruna. Úrvinnslusjóður greiðir síðan til baka þessar 14 krónur til þess sem skilar umbúðunum á réttan stað, þ.e. til endurvinnslu. Gjaldið er hvatning til að skila umbúðunum aftur í hringrásina þannig að hráefnið endurnýtist en verði ekki að rusli. Rusl þarf að urða eða eyða á annan mengandi og kostnaðarsaman hátt og því er raunverulegur sparnaður og minna álag á umhverfið með skilagjaldskerfinu. Þú getur safnað og skilað og fengið peningana til baka hjá Endurvinnslunni hf. sem sér um að hringrásin virki. Margar hjálparsveitir og líknarfélög taka einnig á móti skilagjaldsskildum umbúðum sem þeir aftur selja í fjáröflunarskini.Skilagjald er einnig á fernum enda eru þær dýrmætt hráefni. Einstaklingar geta þó enn sem komið er ekki skilað einstaka fernum og fengið gjaldið heldur er þeim safnað saman af sorpstöðvum eða hjálparsveitum og félagasamtökum til fjáröflunar. Rafhlöðum er tekið við hjá Efnamóttökunni og á mörgum bensínstöðvum þar sem Efnamóttakan hefur sett upp sérstakar tunnur fyrir rafhlöður. Kassa undir rafhlöðuúrgang má nálgast hjá endurvinnslustöðvum. Þeir hjálpa til við að halda utan um notaðar rafhlöður heima fyrir sem síðan er hægt að koma til endurvinnslu. Mikilvægt er að henda ekki rafhlöðum í venjulegt rusl því þær geta mengað mikið og lengi frá sér. Endurhlaðanlegar rafhlöður (hleðslurafhlöður) eru miklu umhverfisvænni en einnota rafhlöður. Þær má nota allt að 1000 sinnum.

Continue Reading→