Landvernd fagnar áformum um þjóðgarðsstofnun

Snæfell er konungur íslenskra fjalla, landvernd.is
Áform um sameiningu verkefna á sviði náttúruverndar fagnað

Stjórn Landverndar fagnar áformum umhverfis- og auðlindaráðherra um að koma á fót Þjóðgarðastofnun sem annast mun náttúruvernd á svæðum sem friðlýst eru samkvæmt náttúruverndarlögum, auk verkefna Vatnajökulsþjóðgarðs og Þjóðgarðsins á Þingvöllum. Á undanförnum árum hefur Landvernd ítrekað bent á mikilvægi þess að sameina verkefni á þessu sviði undir eina stjórn. Hér er um mikilvægt framfaraskref að ræða sem ætti að styrkja starfsemi á vernduðum svæðum á Íslandi. Landvernd leggur jafnframt til að kostir og gallar frekari sameiningar á umsjón og vörslu lands í eigu ríkisins verðir kannaðir og þá sérstaklega vörslu þjóðlendna sem nú er sinnt af húsameistara ríkisins í forsætisráðuneytinu.

Landvernd hefur áður bent á mikilvægi þess að sameina verkefni á sviði náttúruverndar, m.a með tilkynningu í október 2015 og í aðsendri grein í Fréttablaðið í nóvember sl. þar sem skorað var á næstu ríkisstjórn að sameina verkefni á sviði náttúruverndar. Ríkið á yfir helming landsins og þar með fjölsótt ferðamannasvæði. Átta ríkisstofnanir og ráðuneyti hafa umsjón með landi í ríkiseigu: Þingvallanefnd (Þingvallaþjóðgarður), Vatnajökulsþjóðgarður, Umhverfisstofnun (þjóðgarðurinn Snæfellsjökull, verndarsvæði Mývatns og Laxár, og flest önnur friðlýst svæði), Skógrækt ríkisins (þjóðskógar, t.d. Þórsmörk), Landgræðsla ríkisins (Dimmuborgir o.fl.), Húsameistari ríkisins (þjóðlendur), Jarðaumsýsla ríkisins (ríkisjarðir) og Minjastofnun (verndun þjóðminja). Hlutverk allra þessara stofnana er í meginatriðum hið sama, þ.e. að tryggja vernd og sjálfbæra nýtingu landsins sem þær annast, sjá um uppbyggingu innviða og eftir atvikum að fræða ferðafólk. Ávinningur af sameiningu telur Landvernd vera m.a. mikil samlegðaráhrif af samhæfðri þekkingu sérfræðinga, stefnumörkun og verndarsýn og betri nýting mannauðs.

Landvernd telur að æskilegt væri að kanna hvort ekki ætti að sameina umsjón eða vörslu alls lands í eigu ríkisins. Landvernd beinir því til umhverfis- og auðlindaráðherra að í þeirri vinnu sem framundan er í umhverfis- og auðlindaráðuneytinu við undirbúning lagasetningar vegna boðaðra áforma verði ofangreind atriði skoðuð. Þá telur Landvernd að ný Þjóðgarðastofnun þurfi aukið rekstrar- og framkvæmdafé miðað við það sem nú fer til málaflokksins.

Ert þú í Landvernd?

Taktu afstöðu með náttúrunni og gakktu í Landvernd