Þátttaka í ákvarðanatöku

Landvernd virkan þátt í stefnumótun í umhverfismálum með gerð umsagna um fjölda þingmála, skipulagsmál sveitarfélaga, áætlanagerð og einstakar framkvæmdir á vegum einkaaðila og hins opinbera. Landvernd beitir sér einnig í ákvarðanatöku er varðar umhverfismál, m.a. með því að láta reyna á stjórnsýsluákvarðanir og reka mál fyrir dómstólum. Fulltrúar samtakanna eiga sæti í starfshópum  á vegum hins opinbera, taka þátt í opnum fundum um margvísleg málefni og vekja athygli á umhverfismálum í fjölmiðlum. Samtökin virkja önnur félagasamtök og einstaklinga með sér í þessu starfi. Landvernd byggir vinnu sína á grundvelli árósasamningsins og innleiðingu hans í íslensk lög. Samningurinn veitir almenningi og félagasamtökum sem starfa að umhverfisvernd rétt til aðgangs að upplýsingum, þátttöku í ákvarðanatöku og aðgang að réttlátri málsmeðferð í umhverfismálum. 

Drög að breytingum á starfsreglum harðlega gagnrýndar

Landvernd gagnrýnir harðlega málsmeðferð og ákveðin efnisatriði í drögum að breytingum á starfsreglum verkefnisstjórnar rammaáætlunar um vernd og orkunýtingu landsvæða, sem umhverfis- og auðlindaráðuneytið auglýsti til umsagnar í byrjun febrúar. Telur Landvernd málsmeðferðina ekki standast lög og aðkomu Landsvirkjunar að gerð draganna hingað til óeðlilega og óásættanlega, enda endurspegla drögin kröfur Landsvirkjunar. Vísað er til bréfaskifta og fundar Landsvirkjunar og umhverfis- og auðlindaráðuneytis og aðkomu Landsvirkjunar að drögunum á fyrri stigum, í gegnum atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið, að því er virðist án vitneskju umhverfisráðuneytis. Á sama tíma hafa aðrir ekki átt kost á þátttöku í samningu draganna fyrr en í almennri kynningu þeirra, þ.m.t. önnur orkufyrirtæki, ferðaþjónustan, útivistarhópar og náttúruverndarsamtök.

Athugasemdir Landverndar má finna í skjali hér að neðan. Landvernd gagnrýnir sérstaklega tvö efnisatriði: Ákvæði um yfirstjórn umhverfisráðherra sem opnar á möguleika á pólitískum afskiptum ráðherra og ákvæði sem gera mun orkufyrirtækjum kleyft að fá virkjunarhugmyndir í gildandi verndarflokki rammaáætlunar teknar upp aftur og aftur í rammaáætlun, hugmyndir sem eru á svæðum sem Alþingi er búið að ákveða að beri að friðlýsa. Í báðum tilvikum er stórlega vegið að faglegu sjálfstæði verkefnisstjórnar og sátt um rammaáætlun.

Landvernd leggur til að ákvæði um að umhverfisráðherra fari í framtíðinni með yfirstjórn verkefnisstjórnar og faghópa, sem Landsvirkjun lagði til í bréfi til atvinnuvegaráðuneytis 28. janúar, verði tekið út. Tillagan vegur að faglegu sjálfstæði rammaáætlunar og opnar á pólitísk afskipti ráðherra. Að mati Landverndar er það alls ekki við hæfi eða í samræmi við anda laganna að ráðherra hafi hér stjórnunarvald yfir faglegri nefnd sem er honum sjálfum til ráðgjafar.

Landvernd gagnrýnir einnig harðlega ákvæði um endurmat virkjunarhugmynda og landsvæða sem þegar er búið að flokka í verndar- eða orkunýtingarflokk gildandi rammaáætlunar. Með nýju ákvæði yrði nægjanlegt fyrir orkufyrirtæki að breyta virkjunarhugmynd, t.d. í verndarflokki, lítilsháttar til að verkefnisstjórn yrði að taka hana og landsvæðið sem hún er á upp til endurmats. Lögin eru skýr um faglegt sjálfstæði verkefnisstjórnar þegar kemur að slíkum málum, en breytingar á starfsreglunum myndi afnema þetta sjálfstæði. Landvernd telur það ekki standast lög. Ljóst má vera að sterk rök þarf til þess að endurflokka virkjunarhugmyndir í verndarflokki þar sem rík verndarsjónarmið liggja að baki slíkri flokkun. Af lögunum verður ekki annað séð en slík heimild sé undantekning. Mikilvægt er að faglegt sjálfstæði verkefnisstjórnar sé virt þegar kemur að endurmati.

Landvernd krefst þess að hlutverk og verksvið Orkustofnunar annarsvegar og verkefnisstjórnar rammaáætlunar hinsvegar, endurspegli lögin um rammaáætlun. Hlutverk Orkustofnunar er afmarkað skv. rammaáætlunarlögunum, en það felst í að taka við beiðnum orkufyrirtækja um mat á hugsanlegum orkunýtingarkostum og undirbúa fyrir verkefnisstjórnina, sem undirstofnun ráðuneytis orkumála. Orkustofnun kemur hinsvegar ekki á neinn hátt að ákvörðunum um endurmat skv. 3. mgr. 9. gr. rammaáætlunarlaganna. Hún getur á hinn bóginn, líkt og hver annar lögaðili eða einstaklingur, lagt inn beiðni um endurskoðun til verkefnisstjórnarinnar. Þetta afmarkaða hlutverk Orkustofnunar er einnig endurspeglað í reglugerð um virkjunarkosti í verndar- og orkunýtingaráætlun nr. 530/2014, frá 5. júní 2014.

Gefi ráðherra umhverfismála tillögurnar óbreyttar út, er rammaáætlun í algjöru uppnámi. Með breytingunum yrði hægt að setja virkjanahugmyndir á landsvæðum í verndarflokki áætlunarinnar aftur og aftur í mat þrátt fyrir að Alþingi hafi ákveðið friðun þeirra. Það eina sem gæti þá bjargað þessum náttúruperlum er að umhverfisráðuneytið friðlýsi þær, en hvorki hefur fjármagni verið veitt í eða vinna verið unnin til undirbúnings þess síðastliðin tvö ár.

Þar sem ekki hefur verið fylgt málsmeðferðarreglum er lög mæla fyrir um, leggur Landvernd til að ráðuneyti umhverfismála sendi drögin og þær umsagnir sem um þau berast til verkefnisstjórnar rammaáætlunar, sem leggi í framhaldinu fram tillögur til ráðuneytisins um nýjar starfsreglur, líkt og lög kveða á um. Verkefnisstjórnin getur þannig metið gildandi starfsreglur, drög ráðuneytisins og umsagnir sem um þau berast sjálfstætt. Tillögur verkefnisstjórnar færu svo á ný í almenna kynningu.

Landvernd umsögn um tillögu að breytingu á starfsreglum nr. 515/2015
Tögg

Vista sem PDF

Þrjár stoðir Árósasamningsins

Í brennidepli

foss_hvalá.PNG
Fyrirhugað athafnasvæði Hvalárvirkjunar friðlýst?
Stjórn Landverndar fagnar tillögum Náttúrufræðistofnunar Íslands um að setja stórt svæði við Drangajökul á framkvæmdaáætlun náttúruminjaskrár og friðlýsa svæðið. Tillöguna, ásamt fjölda annarra svæða, hefur Náttúrufræðistofnun birt á heimasíðu sinni. Náttúrufræðistofnun Íslands hefur, eins og lög um náttúruvernd mæla fyrir um,  birt á vef sínum tillögur að svæðum sem stofnunin setur fram á B-hluta náttúruminjaskrár.  Meðal þessara svæða er Drangajökull og nágrenni hans, alls tæplega 1300 km2,

Leita í gagnasafni

foss_hvalá.PNG
Fyrirhugað athafnasvæði Hvalárvirkjunar friðlýst?
Stjórn Landverndar fagnar tillögum Náttúrufræðistofnunar Íslands um að setja stórt svæði við Drangajökul á framkvæmdaáætlun náttúruminjaskrár og friðlýsa svæðið. Tillöguna, ásamt fjölda annarra svæða, hefur Náttúrufræðistofnun birt á heimasíðu sinni. Náttúrufræðistofnun Íslands hefur, eins og lög um náttúruvernd mæla fyrir um,  birt á vef sínum tillögur að svæðum sem stofnunin setur fram á B-hluta náttúruminjaskrár.  Meðal þessara svæða er Drangajökull og nágrenni hans, alls tæplega 1300 km2,

Berggangur_Hverfisfljot.jpg
Umsögn um frummatsskýrslu um Hverfisfljótsvirkjun
Stjórn Landverndar hefur birt umsögn um frummatsskýrslu um Hverfisfljótsvirkjun.

Mynd/Mannvit
Nýtt framkvæmdaleyfi Brúarvirkjunar kært og krafist stöðvunar framkvæmda
Samtökin telja að málsmeðferð Bláskógabyggðar við veitingu nýs framkvæmdaleyfis sé andstæð lögum og að á henni séu bæði form- og efnisannmarkar sem eigi að leiða til ógildingar. Krafa samtakanna um stöðvun framkvæmda byggir m.a. á frétt í Morgunblaðinu frá í gær (26. mars 2018) um að byrjað verði að setja niður vinnubúðir á virkjunarstað í þessari viku og að strax eftir páska muni starfsmenn Ístaks hefjast handa um framkvæmdir.

rsz_trevor-cole-385287-unsplash.jpg
Málsmeðferð vegna Hornafjarðarvegar kærð
Landvernd og Hollvinir Hornafjarðar hafa kært frávísun Héraðsdóms Reykjavíkur á máli samtakanna gegn Vegagerðinni og Sveitafélaginu Hornafirði til Landsréttar, en í því máli fóru Landvernd og Hollvinir Hornafjarðar fram á að Héraðsdómur ógilti ákvörðun Sveitarfélagsins Hornafjarðar um að veita Vegagerðinni framkvæmdarleyfi fyrir vegkafl á Hringvegi 1 milli Hólms og Dynjanda í Hornafirði.  Þess er krafist af hálfu Landverndar og Hollvina Hafnarfjarðar að úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur verði