Jón Helgason er fallinn frá

Jón Helgason frá Seglbúðum, (f. 4.10.1931, d. 2.4.2019), fyrrum ráðherra og forseti Alþingis, en ekki síst, formaður Landverndar á árunum 1997- 2001, er fallinn frá.

Jón Helgason frá Seglbúðum, (f. 4.10.1931, d. 2.4.2019), fyrrum ráðherra og forseti Alþingis, en ekki síst, formaður Landverndar á árunum 1997- 2001, er fallinn frá.

Jón tók við formennsku í Landvernd þegar samtökin voru í tilvistarkreppu eftir deilur við verslunarmenn um Pokasjóð sem hafði verið kjölfesta í starfi Landverndar um nokkurra ára skeið. Landvernd þurfti undir stjórn Jóns að skipa sér uppbyggilegt hlutverk í vaxandi átökum um virkjanir og náttúruvernd. Jón var reyndur stjórnmálamaður og trúði á mátt upplýstrar umræðu og starf félagasamtaka. Hann lagði áherslu á hófstilltan málflutning og að allar tillögur og athugasemdir Landverndar skyldu rökstuddar. Eitt fyrsta verkefni hans var að skipuleggja starf þar sem meta átti gildi hálendis Íslands og möguleika til virkjana. Jón taldi að með samræðu á grundvelli bestu upplýsinga hlyti að vera hægt að standa þannig að virkjunum að þær spilltu ekki umtalsvert náttúru landsins. Þetta starf átti ríkan þátt í því að ríkisstjórnin ákvað að hefja vinnu við gerð „rammaáætlunar um vatnsafls- og jarðvarmavirkjanir„.

Jón ólst upp í Seglbúðum í Skaftárhreppi en fór þaðan til náms og lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík 1950. Síðan hafði hann forstöðu á búi móður sinnar og tók að fullu við búsforráðum í Seglbúðum 1959. Á árunum 1974 – 1995 sat Jón á alþingi fyrir Suðurlandskjördæmi, og meðal annars var hann forseti Sameinaðs Alþingis 1979 – 1983. Auk þess var hann dóms- og kirkjumálaráðherra 1983 – 1987 og landbúnaðarráðherra 1983 – 1988. Jón kom til starfa sem formaður Landverndar árið 1997 og hafði bæði jákvæð og mótandi áhrif á störf samtakanna í fjögur ár.

Eftirlifandi Jóns er Guðrún Þorkelsdóttir (fædd 21. apríl 1929).

Landvernd vottar Guðrúnu og fjölskyldu Jóns samúðar.

Ert þú í Landvernd?

Taktu afstöðu með náttúrunni og gakktu í Landvernd