Bill McKibben átti fund með fulltrúum þingflokka

Bill McKibben hitti fulltrúa þingflokka á hádegisfundi í dag. Hann sagði að nú væri mikilvægt að einhver þjóð bryti ísinn og tilkynnti að olía, gas eða kol yrðu ekki unnin úr jörðu þótt möguleikinn á því væri fyrir hendi. Slík yfirlýsing frá íslenskum stjórnvöldum yrði markvert framlag af hálfu þjóðarinnar til að sporna gegn loftslagsbreytingum.

Bill McKibben hitti fulltrúa þingflokka á hádegisfundi á Hótel Sögu í dag. Hann er staddur hér á landi í boði Landverndar, Norræna hússins og námsbrautar í umhverfis- og auðlindafræðum við Háskóla Íslands. Hann flytur opinn fyrirlestur í Háskólabíói (sal 1) á morgun kl. 12:30. Umfjöllunarefnið er loftslagsbreytingar og barátta almennings í Bandaríkjunum gegn fyrirhugaðri olíulögn frá Kanada til Texas.

McKibben sagði á hádegisfundinum að nú væri mikilvægt að einhver þjóð bryti ísinn og tilkynnti að olía, gas eða kol yrðu ekki unnin úr jörðu þótt möguleikinn á því væri fyrir hendi. Slík yfirlýsing frá íslenskum stjórnvöldum yrði markvert framlag af hálfu þjóðarinnar til að sporna gegn loftslagsbreytingum.

Hádegisfundinn sátu Illugi Gunnarsson fyrir Sjálfstæðisflokk, Vigdís Hauksdóttir fyrir Framsóknarflokk, Árni Þór Sigurðsson fyrir Vinstri-græna, Sigríður Ingibjörg Ingadóttir fyrir Samfylkinguna og Helgi Hrafn Gunnarsson frá Pírötum. Ellý Katrín Guðmundsdóttir borgarritari sat fundinn fyrir hönd Reykjavíkur. Fulltrúi Bjartrar framtíðar forfallaðist.

Bill McKibben er höfundur fjölda bóka um umhverfismál og einn stofnenda hinnar alþjóðlegu grasrótarhreyfingar 350.org, sem berst fyrir því að verja Jörðina fyrir hlýnun andrúmslofts. Samtökin hafa samhæft um 15 þúsund fjöldafundi í 189 löndum síðan 2009.

Bill McKibben er höfundur bókarinnar „The End of Nature“ sem var ein fyrsta bók fyrir almenning um loftslagsbreytingar. McKibben skrifar í fjölmörg tímarit, m.a. The New York Times, The Atlantic Monthly, Rolling Stone og Outside. Hann kemur fram út um allan heim og er afar vinsæll og áhrifamikill fyrirlesari. Time Magazine hefur útnefnt hann sem „The planet’s best green journalist“ og árið 2010 skrifaði Boston Globe að hann væri „probably the country’s [US] most important environmentalist“.

http://www.billmckibben.com/

http://350.org/

Ert þú í Landvernd?

Taktu afstöðu með náttúrunni og gakktu í Landvernd