Ályktun aðalfundar 2013 – Eina stofnun fyrir vernduð svæði á Íslandi

Stöndum vörð um náttúru Íslands Landvernd eru frjáls félagasamtök sem starfa að umhverfismálum til að vernda og bæta lífsgæðin í landinu. Landvernd virðir íslenska náttúru og styður sjálfbæra nýtingu hennar. Taktu afstöðu og vertu með! landvernd.is
Aðalfundur Landverndar haldinn 13. apríl 2013 sendi frá sér ályktun um nýsamþykkt náttúruverndarlög og hvatti til þess að ein stofnun yrði sett á laggirnar sem hefði með málefni allra verndaðra svæða að gera.

Aðalfundur Landverndar haldinn laugardaginn 13. apríl 2013 sendi frá sér eftirfarandi ályktun:

Samþykkt nýrra náttúruverndarlaga og sameining verndaðra svæða undir eina stofnun

Aðalfundur Landverndar 2013 fagnar samþykkt nýrra náttúruverndarlaga. Samtökin telja að með lögunum sé komin heildsteyptari og skýrari umgjörð en áður um vernd íslenskrar náttúru. Samtökin fagna sérstaklega ýmsum nýmælum laganna, þ.m.t. að markmiðssetning hefur verið styrkt, meginreglur umhverfisréttar verið lögfestar, friðlýsingarflokkar lagaðir að alþjóðlegum viðmiðunum og að nú sé í fyrsta sinn heimilt að friðlýsa heil vatnasvið. Þá er einnig ánægjuefni að í lögunum er nú að finna sérstaka kafla um framandi tegundir og akstur utan vega.

Aðalfundur Landverndar 2013 lýsir þó yfir vonbrigðum með að ekki sé skýrar kveðið á um vernd jarðvegs- og gróðurauðlindarinnar í lögunum. Jafnframt telja samtökin að tækifærið til að einfalda stjórnunarfyrirkomulag friðlýstra svæða á Íslandi hafi ekki verið nýtt og kveðið á um stofnun einnar ríkisstofnunar sem hefði umsjón með öllum vernduðum svæðum á Íslandi, þ.m.t. öllum núverandi þjóðgörðum, friðlöndum og öðrum náttúruverndarsvæðum, þjóðlendum, þjóðskógum og grónum landgræðslusvæðum í eigu ríkisins. Slík stofnun myndi stuðla að betri heildarsýn og styrkja faglega vinnu að náttúruvernd og auka hagræðingu og skilvirkni í opinberum rekstri. Samtökin skora á stjórnvöld að stuðla að sameiningu stofnana og verkefna á þessu sviði.

Ert þú í Landvernd?

Taktu afstöðu með náttúrunni og gakktu í Landvernd