Fréttatilkynning: Ísland klagað fyrir eftirlitsnefnd Árósasamningsins í fyrsta skipti

Ísland klagað fyrir eftirlitsnefnd Árósasamningsins í fyrsta skipti – Sjö umhverfisverndarsamtök kvarta vegna breytinga á lögum um fiskeldi.

Ísland klagað fyrir eftirlitsnefnd Árósasamningsins í fyrsta skipti – Sjö umhverfisverndarsamtök kvarta vegna breytinga á lögum um fiskeldi

Landvernd, Eldvötn, Fjöregg, Fuglavernd, Náttúruverndarsamtök Austurlands, Náttúruverndarsamtök Suðvesturlands og Ungir Umhverfissinnar hafa kvartað til eftirlitsnefndar Árósasamningsins vegna breytinga á lögum um fiskeldi sem brjóta gegn ákvæðum samningsins. Í byrjun október á síðasta ári breytti Alþingi lögum um fiskeldi með frumvarpi sem samþykkt var samdægurs og eftir afar takmarkaðar umræður á Alþingi. Með frumvarpinu var sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra heimilað að gefa út bráðabirgðarekstrarleyfi til fiskeldisfyrirtækja. Þann 5. nóvember síðastliðinn gaf ráðherrann út tvö slík bráðabirgðaleyfi.

Umhverfisverndarsamtökin sjö sem kvarta telja að við lagasetninguna og við útgáfu leyfa á grundvelli hennar hafi stjórnvöld brotið gegn skuldbindingum Íslands samkvæmt Árósasamningnum með eftirfarandi hætti:

  • Við bráðabirgðaleyfisveitingu (sem getur verið til allt að 20 mánaða) samkvæmt hinum nýju lögum er ekki gert ráð fyrir þátttöku almennings og samtaka almennings eins og umhverfisverndarsamtökum við ákvarðanatökuna þannig að þessir aðilar geti komið sjónarmiðum sínum að áður en leyfi er veitt. Árósasamningurinn var m.a. gerður til þess að tryggja að fleiri raddir heyrðust þegar ákvarðanir um stórar framkvæmdir eða rekstrarleyfi eru teknar. Er það grundvöllur þess að sjónarmiðum náttúru- og umhverfisverndar sé gert jafn hátt undir höfði og öðrum sjónarmiðum.
  • Hin nýja löggjöf útilokar kærurétt umhverfisverndarsamtaka vegna leyfisveitinga til óháðs og hlutlauss aðila eins og úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála.
  • Þá telja samtökin að með lagasetningunni hafi Alþingi vegið mjög að sjálfstæði úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála gagnvart löggjafarvaldinu því lögin voru sett til að hægt væri að fella úr gildi úrskurði nefndarinnar.

Nánari upplýsingar veitir Auður Önnu Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri Landverndar, audur@landvernd.is, sími 843-5370.

Ert þú í Landvernd?

Taktu afstöðu með náttúrunni og gakktu í Landvernd