Hugsum um hafið og hreinsum Ísland í Plastlausum september

Landvernd hvetur hópa og einstaklinga til að skipuleggja sína eigin strandhreinsun í september.

Í plastlausum september viljum við hjá Landvernd vekja sérstaka athygli á mengun sjávar af völdum plasts.

Plast eyðist ekki í náttúrunni heldur brotnar það niður í örplast. Ef plast er ekki endurunnið endar það oftast í landfyllingum eða í sjónum þar sem það ógnar bæði dýrum og öðrum lífverum. Með því að endurvinna plast og hætta notkun einnota plastumbúða leggur þú þitt af mörkum í að draga úr plastmengun.

Í ár ber Alþjóða strandhreinsunardaginn upp á dag íslenskrar náttúru, þann 16. september 2017.

Landvernd hvetur einstaklinga, hópa og fyrirtæki til að skipuleggja sína eigin hreinsun í september. Hreinsa má jafnt á landi sem og við sjó enda kemur um 80% þess plasts sem finnst í sjónum, af landi.
Landvernd veitir góð ráð og aðstoð fyrir þá sem hyggjast taka til hendinni, m.a. með upplýsingaveitu á síðu verkefnisins; hreinsumisland.is. Hægt er að skrá hreinsun hér og birtist hún á Íslandskorti Landverndar.

Hér hefur verið hreinsað í ár!

Plastmengun í hafi er ekki eitthvað sem á sér aðeins stað erlendis heldur er hún raunveruleg áskorun á Íslandi líkt og í öðrum löndum í heiminum.

Hver Íslendingur notar að meðaltali 40 kg af plastumbúðum á ári. Aðeins litlum hluta þessara umbúða er skilað til endurvinnslu og er meirihluti þess urðaður í jörðu. Þar sem það tekur langan tíma fyrir plast að brotna niður í örplast, má segja að allt það plast sem framleitt hefur verið frá upphafi sé enn til, hafi það ekki verið brennt.

Árlega eru urðuð hundruð þúsunda tonna af óflokkuðum úrgangi á Íslandi. Úr þessu sorpi koma gastegundir líkt og metan sem er einstaklega skaðleg gróðurhúsalofttegund. Á aðeins einum urðunarstað á Íslandi, er lágmarksmengunarvörnum haldið uppi en í stað þess að metan leki beint út í andrúmsloftið, er borað niður í ruslið og metani safnað saman til nýtingar. Ruslið okkar er beinlínis að valda hnattrænni hlýnun.

Við getum haft áhrif ef við tökum höndum saman. Segjum nei takk við einnota plastumbúðum og flokkum þann úrgang sem fellur til.

Tökum þátt í plastlausum september og hreinsum Ísland með Landvernd.

Ert þú í Landvernd?

Taktu afstöðu með náttúrunni og gakktu í Landvernd