Sigrún Helgadóttir hlýtur riddarakross hinnar íslensku fálkaorðu

Sigrún Helgadóttir fyrrum starfskona Landverndar hlaut riddarakross hinnar íslensku fálkaorðu á þjóðhátíðardaginn. Sigrún var verkefnisstjóri Skóla á grænni grein, Grænfánaverkefnisins, frá árinu 2000 til 2008.

Sigrún Helgadóttir fyrrum starfskona Landverndar hlaut riddarakross hinnar íslensku fálkaorðu á þjóðhátíðardaginn. Sigrún var verkefnisstjóri Skóla á grænni grein, Grænfánaverkefnisins, frá árinu 2000 til 2008 og skipulagði því og stýrði verkefninu frá upphafi þess og þangað til þátttökuskólar voru komnir yfir eitt hundrað talsins og á öllum skólastigum.

Sigrún hefur helgað starfskrafta sína umhverfismálum, ekki síst við að miðla fræðslu til barna og ungmenna, en hún hefur þýtt og staðfært námsefni í umhverfisfræðum. Þá hefur hún einnig skrifað námsefni í náttúru- og umhverfisfræðum, bæði fyrir nemendur og kennara. Sigrún hefur einnig lagt mikla áherslu á mikilvægi þess að auka skilning almennings á náttúru og umhverfi. Hún var brautryðjandi í náttúrutúlkun og aukinni viðurkenningu landvarðastarfsins á Íslandi og hefur nú í seinni tíð skrifað bækur um Þjóðgarðana í Jökulsárgljúfrum og á Þingvöllum fyrir almenning.

Sigrún er því afar vel að riddarakrossinum komin og óska stjórn og starfsfólk Landverndar henni innilega til hamingju með viðurkenningu.

Ert þú í Landvernd?

Taktu afstöðu með náttúrunni og gakktu í Landvernd