Verndum náttúruna, landvernd.is

Umsögn við frummatsskýrslu Landsnets um Hólasandslínu 3

Ýmsar náttúruperlur landsins hafa verið eyðilagðar til þess að framleiða á þeim, úr þeim eða með þeim rafmagn sem að langstærstu leyti fer til stóriðju.  

Ýmsar náttúruperlur landsins hafa verið eyðilagðar til þess að framleiða á þeim, úr þeim eða með þeim rafmagn sem að langstærstu leyti fer til stóriðju.

Landsnet leggur til að styrkja byggðalínu frá Kárahnjúkavirkjun (sem á newspeak heitir Fljótsdalsvirkjun) til Blöndu.  Liður í þeirri styrkingu er Hólasandslína 3. Landsnet nefnir háa bilanatíðni og raforkuspá Orkustofnunar um mjög aukna orkuþörf til framtíðar sem rök fyrir lagningu línunnar.  Fyrirhuguð lína fer yfir fjömörg friðlýst svæði sem njóta sérstakrar verndar samkvæmt náttúruverndarlögum og því þarf rökstuðningur fyrir þessari línuleið að vera mjög sterkur. Að mati Landverndar réttlætir rökstuðningur sá sem Landsnet leggur fram ekki þessa framkvæmd og því leggja samtökin til að Landsnet fari aftur að teikniborðinu og reyni að finna aðrar og betri leiðir að sama marki.  

80% raforku fer til stóriðju

Rétt er að benda á strax í upphafi að árið 2017 var raforkunotkun allra annarra en stóriðju tæp 18% af raforkuframleiðslu landsins.  Stærsti eigandi Landsnet, Landsvirkjun er jafnframt stærsti raforkuframleiðandi landsins og hefur sögulega átt stóran þátt í því að stóriðja er ráðandi raforkukaupandi á markaði.  Í vinnu við stefnu í orkumálum kom fram að stóriðja ógnar raforkuöryggi almennings svo mjög að hópur sérfræðinga mælti með að verð til almennra notanda yrði hækkað umtalsvert til þess að tryggja þeim hópi rafmagn. Þetta var byggt á þeim grun að framleiðendur og seljendur raforku væru líklegir til þess að forgangsraða stórnotendum umfram almenna notendur meðan verð til hinnar síðarnefndu héldist lágt og þannig drægju þessir aðilar úr raforkuöryggi almennra notanda.  

Ýmsar náttúruperlur landsins hafa verið eyðilagðar til þess að framleiða á þeim, úr þeim eða með þeim rafmagn sem að langstærstu leyti fer til stóriðju.  Til þess að koma raforku til stóriðjunnar er landið sundurskorið af risastórum spennumöstrum og raflínum þvers og kruss og þessum línulögnum fylgir enn frekari eyðilegging á einstöku landi.  Landsnet leggur hér til að raskað verði enn frekar ýmsum náttúruminjum sem hafa notið sérstakrar verndar.

Landsnet gerir ráð fyrir því að um umtalsverða uppbygginu á raforkufrekum iðnaði verði að ræða til réttlætingar á þeirri miklu flutningsgetu sem fyrirhuguð Hólasandslína 3 á að hafa.  Til þess að svo verði þarf fleiri virkjanir á landið og þar af leiðandi enn frekari skemmdir á verðmætum náttúruperlum en álitlegum virkjanakostum fækkar hratt nú þegar búið er að virkja hina „low hanging fruit“ kosti og með aukinni meðvitund almennings um verðmæti óbyggðra víðerna og óspilltrar náttúru Íslands.  Að mati Landverndar er þetta óábyrg afstaða ríkisfyrirtækis og er Landsnet hvatt til þess að birta tölur um fyrirhugaða raforkunotkun stóriðju á svæðinu sem um ræðir. Skorar Landvernd á Landsnet og eigendur þess að taka þetta til rækilegrar skoðunnar og leggja metnað í að finna frekar lausnir á þeim vanda sem skapast hefur með gríðarmikilli sölu á ódýrri raforku til stóriðju heldur en að auka á vandann.

Réttlæting aðalvalkostar

Landvernd vill benda á eins og samtökin gerðu einnig í umsögn um umhverfismat áætlunar þessarar að hlutverk þess sem framkvæmir umhverfismat er ekki að réttlæta aðalkost sem framkvæmdaraðili vill ráðast í heldur að bera saman ólíka kosti sem hægt væri að ráðast í til þess að ná settu marki.  Sé markmiðið að tryggja raforkuöryggi almennra notanda (það er allra annarra en stórnotenda) á Eyjafjarðar- og Akureyrarsvæðinu er sú framkvæmd sem aðalvalkostur gerir ráð fyrir allt of stórkallaleg og veldur ónauðsynlegum umhverfisspjöllum.  Skipulagsstofnun krafði Landsnet um að meta til jafns aðalvalkost og uppbyggingu/styrkingu eftir línustæði Laxárlínu 1. Mun minna rask á svæðum sem njóta verndar yrði á þeirri leið. Landvernd telur að samanburður þessara kosta, Hólasandslínu 3 og styrkingu Laxárlínu 1,  í frummatsskýrslu sé óviðunandi (sjá nánar síðar). Því skal haldið til haga að niðurstaða umhverfismats getur leitt í ljós að umhverfisáhrif framkvæmdar, hvort sem er eftir aðal- eða samanburðarvalkostum, séu óásættanleg og því eigi ekki að ráðast í téða framkvæmd.

Forsendur, markmið og nauðsyn framkvæmdarinnar

Þá ítrekar Landvernd þær athugasemdir sem samtökin sendu inn vegna umhverfismats áætlunar um framkvæmd þessa varðandi það að forsendur framkvæmdarinnar séu óljósar í frummatsskýrslunni. Samkvæmt 61. gr. náttúruverndarlaga ber að forðast framkvæmdir sem valda raski á vistkerfum sem njóta verndar nema brýna nauðsyn beri til. Markmið framkvæmdarinnar eru skv frummatskýrslu „er að bæta orkunýtingu, auka flutningsgetu og tryggja stöðuleika raforkukerfisins á Norður- og Austurlandi.” Landvernd fellst ekki á að það sé brýn samfélagsleg nauðsyn að bæta orkunýtingu eða auka flutningsgetu langt umfram almenna notkun eins og aðalvalkostur gerir ráð fyrir.  Brýnt er að tryggja raforkuöryggi almennra notenda en aðalvalkostur, Hólasandslína 3, skýtur langt yfir markið í þeim efnum og má líkja við það að byggja sex akreina hraðbraut milli Akureyrar og Egilsstaða til að tryggja samgöngur.

Landvernd harmar það að Efla, fyrir hönd Landsnets, hafi ekki tekið til greina athugasemdir samtakanna varðandi markmið framkvæmdarinnar.  Í umsögn Landverndar um umhverfismat áætlunar frá 23. Janúar 2017 segir:

„Verður Landvernd að benda á að í ferli umhverfismats vegna annarrar stórframkvæmdar sem einnig er lögð til í drögum að framkvæmdaáætlun Landsnets, Kröflulínu 3, taldi Skipulagsstofnun nauðsynlegt að fjallað yrði um nauðsynlegt spennustig þeirrar línu, en markmið þeirrar framkvæmdar var skv. matsáætlun m.a. að auka flutningsgetu á þeirri leið. Er um þetta fjallað í ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 9. ágúst 2013 og í úrskurði úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála í máli nr. 91/2013 frá 7. maí 2015, sem hafnaði kröfu Landsets um að fella úr gildi athugasemd Skipulagsstofnunar um að umhverfismat þyrfti að fara fram á jarðstreng. Þarf að fjalla í meginatriðum um þau sömu atriði og greinir í áðurgreindri ákvörðun Skipulagsstofnunar í umhverfismati Hólasandslínu 3, þar á meðal um þörf og flutningsgetu mannvirkis.

Landvernd tekur eftir því að ekki er fjallað um í hverju truflanir á svæðinu felast, hversu miklar þær hafa verið og hvort orsaka þeirra er í þeim tilvikum að leita hjá einsökum notendum eða hvort það er einhver sérstakur hluti kerfisins sem orsakar þær truflanir. Þetta þarf að skýra, svo markmiðin séu glögg.“

Ekki verður séð að Efla og Landsnet hafi tekið mark á þessum athugasemdum þar sem ekki er að sjá nánari umfjöllun um brýna þörf svo stórrar framkvæmdar og Hólasandslína 3 er til að leysa umrædd vandamál.  Vísað er í raforkuspá til stuðnings mikilli flutningsgetu raforku en ekki er getið hvaða sviðsmynd(ir) hennar stuðst við. Þær sviðsmyndir í raforkuspá sem gera ráð fyrir verulega aukinni raforkunotkun telur Landvernd, eins og fram kom í umsögn samtakanna um Kerfisáætlun Landsnets 2018-2027 dags. 15. Júlí 2018, ekki standast skoðun. Rætt er um almenna uppbyggingu raforkukerfisins og þörf á styrkingu þess (bls. 40 frummatsskýrslu). Sú nauðsyn er vissulega raunveruleg víða en engin tilraun er gerð til að tengja hana þessari miklu framkvæmd. Á bls. 40 í frummatsskýrslu er rætt um kostnað við truflanir í raforkukerfinu en ekki gerð grein fyrir því af hverju þær truflanir stafa eða hver áætlaður kostnaður á þessu svæði sé.  Álag á flutningskerfið vegna stórnotenda er mikið þótt þeir greiði mun lægra verð fyrir raforkuna. Að mati Landverndar væri eðlilegt að stórnotendur greiddu gjald fyrir álag á raforkukerfið öðrum notendum til tjóns. Í öllu falli vantar greiningu á því hver/hverjar er(u) meginorsök truflana í raforkuflutningskerfinu á svæðinu sem stendur til að styrkja.

Þá segir einnig í umsögn Landverndar frá 23. Jan 2017:

„Ekki er unnt að ganga út frá því að 220 kílóvolta raflína með að minnsta kosti 550 MVA flutningsgetu sé sú lausn sem ein kemur til greina til að ná fram þeim markmiðum sem málefnaleg og lögmæt geta talist. Um þetta þarf að fjalla á greinargóðan hátt í umhverfismati.

Landvernd brýnir því fyrir EFLU að leggja meiri vinnu í að skilgreina með viðskiptavini sínum og rökstyðja markmiðin með tilliti til hlutverks Landsnets og greina svo hvað valkosti, í skilningi laga um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdar, eðlilegt og sanngjarnt er að útlista og bera saman. Umfjöllun um valkosti er grundvallaratriði í umhverfismati, líkt og fram kom í áðurnefndum úrskurði úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála.“

Landvernd getur ekki séð að þessi brýning hafi verið tekin til greina, ekki er skýrt í frummatsskýrslunni í hverju “raforkuóöryggi” svæðisins felst og ekki heldur hver á að nota þá miklu flutningsrýmd sem 220 kV raflína hefur.  Því verður ekki séð að þörfin fyrir svo stóra framkvæmd sem aðalvalkostur gerir ráð fyrir hafi verið réttlætt í frummatsskýrslu um Hólasandslínu 3.

Af þessum ástæðum og þar sem aðalvalkostur brýtur í bága við náttúruverndarlög og sérlög um verndun Mývatns og Laxár leggur Landvernd til að Landsnet endurgeri matsskýrslu þessa fyrir hógværari aðalvalkost þar sem ríkt tillit er tekið til náttúruverndarlaga og sérlaga um friðlýsingu svæða. Í þeirri matsskýrslu þarf að gera skýra grein fyrir því hvaða kostir geta stuðlað að því að auka afhendingaröryggi raforku á Eyjafjarðar- og Akureyrarsvæðinu með sem minnstum umhverfisspjöllum, hver bilanatíðni á svæðinu er og hvort hana megi rekja til almennrar notkunnar, eins eða mjög fárra stórra aðila.  

Raftæki á landsbyggðinni annars eðlis

Sérkennilegt er að láta að því liggja í inngangi frummatsskýrslu að raftæki á landsbyggðinni séu sérlega viðkvæm fyrir spennusveiflum í rafmagnskerfinu: „Með auknum stöðugleika minnka líkur á spennusveiflum í kerfinu, sem geta og hafa valdið tjóni á raftækjum notenda á landsbyggðinni”. Þótt þessi setning sé e.t.v. tæknilega rétt er hún hálfsannleikur og því afar villandi og greinilega gerð til að hafa áhrif á almenningsálit á landsbyggðinni.  Hið rétta er spennusveiflur geta og hafa valdið tjóni á raftækjum um allan heim, hvort sem er í borgum eða til sveita. Vísvitandi villandi ummæli af þessu tagi eru fyrir neðan virðingu fyrirtækis í ríkiseigu og verkfræðistofu (Eflu) sem vill láta taka sig alvarlega.

Óásættanlegt rask á friðlýstum svæðum

Aðalvalkostur veldur raski á 5 friðlýstum svæðum og þar á meðal eru bakkar Laxár sem þykja það merkilegir að þeir hafa verið friðlýstir með sérlögum.  

Hér er rétt að benda á að markmið friðlýsingar Laxár og Mývatns er ekki eingöngu að vernda áþreifanleg verðmæti heldur heildarupplifun svæðisins.  Þverun árinnar með gríðarstórri raflínu hefur mikil áhrif á fegurð og yfirbragð svæðisins. Mjög sterk rök þurfa að réttlæta þess háttar rask.

Óásættanlegt rask svæða sem njóta verndar

Á bls. 17 í frummatsskýrslu segir:

“Framkvæmdin raskar tæpum 5 ha af votlendi sem nýtur verndar, um 0,7 ha af náttúrulegu birki sem nýtur verndar og tæpum 13 ha af vistgerðum með mjög hátt verndargildi. Mesta röskunin verður við slóðagerð í votlendi á Fljótsheiði og Laxárdalsheiði.”

Í ljósi þess að ekki verður séð að Landsnet/Efla hafi fært nægjanlega sterk rök fyrir því að brýna nauðsyn beri til að fara í framkvæmdina sem lýst er sem aðalvalkosti í frummatsskýslu um Hólasandslínu 3 og þar sem markmið framkvæmdarinnar eru óskýr er ekki hægt að réttlæta þessi brot á náttúruverndarlögum.

Þá er með öllu óásættanlegt að réttlæta rask á svæðum, sem njóta sérstakrar verndar t.d. stórum votlendissvæðum, með því að endurheimta jafn stórt svæði annars staðar. Ofbeldisbrot á einum einstaklingi verður ekki réttlætt með því að borga fyrir sálfræðimeðferð annars einstaklings.  Það liggja margar og tryggar ástæður, vísindalega vel rökstuddar, fyrir því að votlendi stærri en tveir ha njóti sérstakrar verndar. Reyndar stóð til að færa mörkin niður í einn ha við endurskoðun náttúruverndarlaga með þeim rökstuðningi að röskun votlenda hefur verið svo stórtæk á Íslandi að eftir sitja niðurbútuð votlendi sem oftast ná ekki tveimur ha. Rask á votlendi sem nýtur verndar í náttúruverndarlögum er margfalt minna á leið samanburðarvalkostar Laxárlínu 1 (1,4 km vs. 6,3 km) en Hólasandslínu 3.

Áhrif á landslag

Forsendur Landsnets um upplifun á náttúrufegurð sem fall af bílaumferð er mjög vafasöm (sjá t.d. bls. 17, 52 og 352 í frummatsskýrslu).  Þvert á móti lítur Landvernd svo á að því óspilltari sem náttúra er, þeim mun meira virði sé hún, óháð því hvað margir bílar aka hjá á degi hverjum.  Áhrif á ferðamennsku mætti kannski meta á þennan hátt en alls ekki á útivist og landslag. Þegar rætt er um samanburðarvalkostinn, uppbyggingu Laxárlínu1, þar sem sjónræn áhrif eru mikil á hluta leiðarinnar þarf að skoða jarðstrengi en þeir eru kjörin leið til að vernda landslag og draga úr sjónrænum áhrifum.  

Ef það hversu margir sjá raflínur, væru rök til verndar landslagi væri ákjósanlegast að leggja háspennulínur um óbyggð víðerni sem Landvernd er ósammála.

Jarðstrengir

Landvernd hvetur síðan Landsnet enn og aftur til þess að endurskoða afstöðu sína til jarðstrengja.  Þrátt fyrir að jarðstrengir séu dýrari í upphafsframkvæmd og eigi ekki við á sumum svæðum er rekstrarkostnaður af þeim lægri og orkuöryggi betur tryggt sbr. skýrslu sem Landvernd lét gera í ársbyrjun um orkuöryggi á Vestfjörðum (sjá viðhengt) til dæmis vegna hættu á ísingu, vindálags og snjóþunga. Afhendingaröryggi er einmitt meginmarkmið Hólasandslínu 3 og því ber Landsneti að skoða þennan kost vel þar sem það á við.  

Uppbygging Laxárlínuleiðar 1

Samanburðarvalkosturinn, uppbygging Laxárlínu 1, hefur mun minna rask í för með sér en aðalvalkostur, Hólasandslína 3.  Færri votlendi sem njóta verndar raskast, áhrif á fugla og sérstaklega fálka eru minni, áhrif á vatnsföll eru mjög lítil og ekki þarf að raska umhverfi Laxár umfram það sem orðið er eins og aðalvalkostur gerir. Árif á jarðmyndanir eru aftur á móti töluverð og áhrifin á landslag einnig nokkur.  Landvernd mælir því með því að þegar markmið framkvæmdarinnar eru skýrð verði ráðist aftur í samanburð á þessum tveimur leiðum með það í huga að draga sem mest úr raski. Raunverulegur samanburður við uppbyggingu Laxárlínu 1 þarf að eiga sér stað eins og Skipulagsstofnun krafðist. Aðalvalkostur sem Landsnet leggur fram veldur það miklu raski á svæðum sem njóta sérstakrar verndar að vert er að skoða aðra kosti ofan í kjölin.  Þegar upp er staðað getur verið að báðir kostir valdi óásættanlegu raski og útfæra verði aðrar hugmyndir en samanburður valkosta þarf að vera fullunnin sérstaklega þegar svo mikilvæg svæði eru í húfi.

Virðingafyllst f.h. stjórnar Landverndar

Auður Önnu Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri

Viðhengi: Umsögn Landverndar vegna umhverfismat áætlana Hólasandslína 3 dags 23. jan 2017

Metsco skýrsla um jarðstrengi

Umsögn Landverndar um kerfisáætlun Landsnets dags. 15. júlí 2018

Umsögn til niðurhals

3. áfangi rammaáætlunar

Rammaáætlun fjallar um orkunýtingu og verndun landsvæða. Hún skal byggja á vísindalegri þekkingu um hvert svæði og taka tillit til vistkerfa, lífríkis, landslagsheilda, jarðfræði, umhverfisáhrifa ...
Lesa meira

Reglugerð um fiskeldi – í ljósi reynslunnar þarf að stórherða kröfur

Landvernd styður hverja þá breytingu sem setur sjókvíaeldi stífari ramma og skorður sem minnka hættu á stórslysum fyrir íslenska náttúru og vistkerfi. Landvernd sendi Matvælaráðuneytinu ...
Lesa meira
Stakihnjúkur og Tungnaá sem rennur frá vesturhluta Vatnajökuls, Hálendi Íslands - Þjóðgarður landvernd.is

Óbyggðanefnd – breytingar á lögum

Mikilvægt er að traust ríki um leyfisveitingar og aðrar stjórnsýslulegar ákvarðanir á þjóðlendum. Almenningur verður að geta treyst því að þeir sem fara með slíkar ...
Lesa meira

3. áfangi rammaáætlunar

Rammaáætlun fjallar um orkunýtingu og verndun landsvæða. Hún skal byggja á vísindalegri þekkingu um hvert svæði og taka tillit til vistkerfa, lífríkis, landslagsheilda, jarðfræði, umhverfisáhrifa ...
Lesa meira

Reglugerð um fiskeldi – í ljósi reynslunnar þarf að stórherða kröfur

Landvernd styður hverja þá breytingu sem setur sjókvíaeldi stífari ramma og skorður sem minnka hættu á stórslysum fyrir íslenska náttúru og vistkerfi. Landvernd sendi Matvælaráðuneytinu ...
Lesa meira
Stakihnjúkur og Tungnaá sem rennur frá vesturhluta Vatnajökuls, Hálendi Íslands - Þjóðgarður landvernd.is

Óbyggðanefnd – breytingar á lögum

Mikilvægt er að traust ríki um leyfisveitingar og aðrar stjórnsýslulegar ákvarðanir á þjóðlendum. Almenningur verður að geta treyst því að þeir sem fara með slíkar ...
Lesa meira

Stuðningur við friðlýst svæði í Vatnsfirði

Mikill skaði myndi hljótast af virkjun á friðlýstu svæði í Vatnsfirði. Gott væri ef Orkubú Vestfjarða sem er að fullu í eigu ríkisins léti af ...
Lesa meira

Svona hefur Landvernd áhrif

Landvernd hefur áhrif á stefnumótun og ákvarðanatöku í umhverfismálum með því að skrifa umsagnir, álykta um málefni tengd umhverfisvernd og náttúruvernd. Landvernd krefst þess að farið sé að lögum og hefur látið reyna á nokkur mál fyrir dómi.

Náttúruvernd er loftslagsvernd

Félagar í Landvernd láta sig náttúruna varða. Vertu með í Landvernd og hafðu áhrif.