Yfir tuttugu manns sóttu Alviðrudaginn

Gestir fóru í náttúruleiki, týndu plöntur og veiddu skordýr í sól og blíðu.

Landvernd stóð fyrir hinum árlega Alviðrudegi í Alviðru í Ölfusi þann 17. ágúst sl. Yfir tuttugu manns komu saman, börn og fullorðnir og fræddust um náttúruna, að þessu sinni um plöntur og skordýr. Sól og blíða var og fór fólkið í náttúruleiki og týndi síðan plöntur og veiddi skordýr og aðra hryggleysingja. Þetta var síðan allt skoðað í víðsjám inni í Alvirðubænum. Mikill spenningur varð þegar egg tóku að klekjast út á bakinu á hunangsflugu út frá hitanum á víðsjánni og töldu líffræðingar á staðnum líklegast að um væri að ræða sníkjumaura, en höfðu ekki áður séð svona. Hunangsflugunni varð ekki meint af. Börn og fullorðnir voru alsæl með þennan fróðlega og skemmtilega dag. Að lokinni dagskrá var boðið upp á vöfflur og kakó og síðustu sólargeislarnir sleiktir áður en sólin hvarf á bak við Ingólfsfjall. Dagurinn kveikti svo sannarlega áhuga barnanna sem sum hver héldu áfram skoða í nágrenni sínu eftir að heim var komið. Umsjón með verkefninu hafði Hrefna Sigurjónsdóttir varaformaður Landverndar.

Ert þú í Landvernd?

Taktu afstöðu með náttúrunni og gakktu í Landvernd