Áskorun um friðlýsingu á áhrifasvæði Hvalárvirkjunar, Drangajökulssvæðinu

Við skorum á umhverfis- og auðlindaráðherra og forstjóra Umhverfisstofnunar að hraða vinnu við friðlýsingu á áhrifasvæði Hvalárvirkjunar, Drangajökulssvæðinu þannig að hægt sé að leggja friðlýsinguna fyrir Alþingi á haustþingi.
Jafnframt biðlum við til hreppsnefndar Árneshrepps að taka til skoðunar friðlýsingu á óbyggðum víðernum á skipulagssvæði hreppsins í stað Hvalárvirkjunar.

Hvalárvirkjun er fyrirhuguð á óbyggðum víðernum á Ströndum en uppi eru hugmyndir um að virkja rennsli Hvalár, Rjúkanda og Eyvindafjarðarár á Ófeigsfjarðarheiði. Virkjanaframkvæmdir felast í 5 stíflum, 4 lónum, skurðum, göngum, stöðvarhúsi, veglagningu, efnistöku og flutningi á jarðvegi. Ef af verður er ljóst að um er að ræða óafturkræf spjöll á einstöku landssvæði. Svæðið er metið mjög verðmætt óraskað en umhverfisáhrif virkjunarinnar eru talin verulega neikvæð og samfélagsleg áhrif óveruleg. Ávinningur af friðlýsingu er ótvíræður til langs tíma.

Við skorum á ráðherra, Umhverfisstofnun og Árneshrepp í ljósi þess að:

  • Friðlýsingar eru jákvæður kostur fyrir sveitarfélög.
  • Álit Skipulagsstofnunar á Hvalárvirkjun er virkjuninni mjög óhagfellt.
  • Náttúrufræðistofnun Íslands hefur lagt til friðlýsingu á áhrifasvæði virkjunarinnar.
  • Ný skýrsla Environice sem unnin var fyrir samtökin Ófeigu sýnir að til langs tíma er farsælast fyrir hreppinn að hafna virkjun og styðja við friðlýsingarferli.
  • Tillaga umhverfisráðherra til þingsályktunar um framkvæmdaáætlun náttúruminjaskrár var felld niður af þingmálaskrá yfirstandandi þings (149. þing)

Friðlýsum áhrifasvæði Hvalárvirkjunar og verndum óbyggð víðerni Stranda. Friðlýsingar eru jákvæður kostur fyrir sveitarfélög.