Kolefnisbinding og stöðvun koltvíoxíðslosunar frá framræstu landi

Votlendi og viðkvæm svæði á Íslandi ber að vernda, landvernd.is
Landvernd vill að Ísland verði kolefnishlutlaust ríki sem allra fyrst. Ganga þarf á kolefnisskuld jarðarinnar með kolefnisbindingu.

Landvernd tekur þátt í tveimur verkefnum sem miða að því að binda kolefni og draga úr losun koltvíoxíðs út í andrúmsloftið.

Kolviður

Landvernd og Skógræktarfélag Íslands stofnuðu Kolvið árið 2008. Kolviður er kolefnissjóður sem gerir fyrirtækjum og einstaklingum kleift að binda kolefni með skógrækt og landgræðslu og kolefnisjafna með því starfsemi sína.

Bindum kolefni með skógrækt

Starfsemi sjóðsins lá að mestu niðri í allmörg ár eftir efnahagshrunið en nú fer áhugi á kolefnisjöfnun aftur vaxandi. Á árunum 2017 og 2018 hafa stofnendur Kolviðar unnið að frágangi stefnuskjals sem m.a. skilgreinir hlutverk, helstu gildi og framtíðarsýn sjóðsins ásamt því að leggja fram stefnumótandi áherslur og aðgerðir til næstu fimm ára. Í þessari vinnu hefur Landvernd lagt áherslu á að viðskiptavinir sjóðsins geti kolefnisjafnað sig með ræktun og endurheimt hreinna birkiskóga, auk hinna hefðbundnu blandskóga.

Votlendissjóðurinn

Landvernd er aðili að Votlendissjóðnum sem stofnaður var snemma árs 2018. Markmið sjóðsins er að stöðva losun 10 milljón tonna af koltvíoxíði með því að endurheimta votlendi landsins, en stórum hluta þess var raskað með ríkisstyrktri framræslu um og eftir miðja síðustu öld. Losun frá framræstu votlendi er talin nema um eða yfir 70% af heildarlosun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi. Með endurheimt mýranna næst því mikilvægur árangur í loftslagsmálum en líka í almennri náttúruvernd því mýrarnar gegna margvíslegu hlutverki öðru en að tempra loftskipti, þær eru líka búsvæði plantna og dýra, miðla vatni, tempra flóð og bæta vatnsgæði.

Endurheimt votlendis

Votlendissjóðurinn hefur þann tilgang einan að tengja saman þá sem eiga framræst votlendi og þá sem vilja greiða fyrir endurheimt þess undir formerkjum samfélagslegrar ábyrgðar. Landeigendur og fyrirtæki fá viðurkenningu fyrir framlag sitt m.a. í formi vörumerkis sem nýta má í markaðslegum tilgangi. Til að staðfesta raunverulegan árangur munu sérfræðingar Landgræðslu ríkisins meta losun gróðurhúsalofttegunda fyrir og eftir endurheimt og fylgjast með breytingum á hæð grunnvatns. Þá munu Fuglavernd og Rannsóknarsetur Háskóla Íslands á Suðurlandi þjálfa sjálfboðaliða í að telja fugla sem mælikvarða á árangur í endurheimt lífbreytileika.

Ert þú í Landvernd?

Taktu afstöðu með náttúrunni og gakktu í Landvernd
Scroll to Top