Landsnet neitar að afhenda skýrslu

Landsneti ber að tengja byggðir landsins en setur þjónustu við stóriðju í forgang með stóriðjulínum, höfnum stóriðju, landvernd.is
Landvernd hefur kært Landsnet hf. fyrir Úrskurðarnefnd upplýsingamála. Landvernd hafði óskað eftir því að Landsnet léti samtökunum í té skýrslu um jarðstrengi sem unnin var fyrir fyrirtækið.

Landvernd hefur kært Landsnet hf. fyrir Úrskurðarnefnd upplýsingamála. Landvernd hafði óskað eftir því að Landsnet léti samtökunum í té skýrslu um jarðstrengi sem unnin var fyrir fyrirtækið. Umrædd skýrsla er ítarleg og fræðileg skýrsla á ensku, en hinn 12. febrúar sl. kynnti Landsnet íslenska samantekt hennar með heitinu „Lagning jarðstrengja á hærri spennum í raforkuflutningskerfinu“.

Að mati Landverndar ætti hin enska útgáfa skýrslunnar að hafa ítarlegri og tæknilegri upplýsingar en hin íslenska og ætti því að vera opin almenningi og stofnunum hins opinbera, sem þannig gætu kynnt sér og nýtt sér efni hennar á faglegan hátt.

Í inngangi íslensku samantektarinnar segir

„Árið 2014 vann verkefnishópur á vegum Landsnets, með sérfræðingum á sviði jarðstrengja og jarðstrengslagna frá Íslandi og Danmörku, að umfangsmiklu rannsóknarverkefni varðandi lagningu 132 kV og 220 kV háspennustrengja á Íslandi. Markmið verkefnisins var að greina hagkvæmustu kosti við val á jarðstrengjum, lagningu þeirra og frágangi með tilliti til flutningsgetu, kerfisaðstæðna, áreiðanleika, umhverfis og kostnaðar. Verkefni sem þetta er mikilvægt fyrir Landsnet þar sem gera má ráð fyrir að jarðstrengsframkvæmdum í flutningskerfinu muni fjölga á komandi árum.“

Meðal þess er fram kemur í íslenskri útgáfu skýrslunnar er eftirfarandi:  „Niðurstöður verkefnisins voru settar fram í ítarlegri og fræðilegri skýrslu á ensku […]“. Fram kemur að tilgangur íslensku útgáfu skýrslunnar sé „[…]að veita almennar upplýsingar um helstu niðurstöður og fjalla um jarðstrengi og lagningu þeirra á almennan og fræðandi hátt fyrir sem flesta.“ Íslenska útgáfa skýrslunnar var gerð aðgengileg á heimasíðu Landsnets.

Landsnet hafnaði beiðni Landverndar á grundvelli þess að í skýrslunni væru mikilvægar upplýsingar er varða fjárhags- og viðskiptahagsmuni. 

Lesa kæru Landverndar til úrskurðanefndar upplýsingamála um gagnaleynd Landsnets

Ert þú í Landvernd?

Taktu afstöðu með náttúrunni og gakktu í Landvernd