Landvernd stefnir Landsneti vegna kerfisáætlunar

Landsneti ber að tengja byggðir landsins en setur þjónustu við stóriðju í forgang með stóriðjulínum, höfnum stóriðju, landvernd.is
Landvernd telur Landsnet hafa brotið lög með því að taka ekki afstöðu til nema brots af innsendum athugasemdum við gerð kerfisáætlunar og umhverfismats hennar, líkt og lög bjóða.

Landvernd hefur stefnt Landsneti hf. fyrir héraðsdóm Reykjavíkur til ógildingar á kerfisáætlun 2014-2023. Landvernd telur fyrirtækið hafa brotið lög með því að taka ekki afstöðu til nema brots af innsendum athugasemdum við gerð kerfisáætlunar og umhverfismats hennar, líkt og lög bjóða. Þá telur Landvernd kerfisáætlun vera í ósamræmi við raforkulög: Í fyrsta lagi þar sem Landsnet setji fram sína eigin raforkuspá sem engin lagaheimild sé fyrir og í öðru lagi  þar sem fyrirtækið gefi sér í þeirri spá þær forsendur  að allt að allur orkunýtingarflokkur rammaáætlunar komi til framkvæmda á næstu 10 árum. Loks bendir Landvernd á að ekki hafi í kerfisáætluninni verið fjallað um umhverfisáhrif raunhæfra valkosta, líkt og jarðstrengja eða blandaða leið loftlína og jarðstrengja.

Árið 2014 gerði Landsnet í fyrsta sinn umhverfismat á kerfisáætlun í kjölfar úrskurðar umhverfis- og auðlindaráðherra um skyldu til þess. Landvernd telur umhverfismatinu ólokið, og því hafi stjórn fyrirtækisins verið óheimilt að samþykkja kerfisáætlunina.

Landvernd telur Landsnet hafa brotið gegn hagsmunum samtakanna og félagsmanna þeirra með því að taka ekki afstöðu til athugasemda samtakanna við afgreiðslu kerfisáætlunar. Í samþykkt Landsnets á kerfisáætlunsegir m.a.: „Megin[]viðbrögð við athugasemdum munu […] koma fram við mótun næstu kerfisáætlunar og umhverfismat hennar“. Þessi frestun er óheimil en samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum áætlana ber Landsneti við afgreiðslu áætlunarinnar að hafa hliðsjón af umhverfisskýrslu og þeim athugasemdum sem borist hafa. Umhverfismatinu lýkur ekki fyrr en samráði er lokið og brugðist hefur verið við innsendum athugasemdum. Kerfisáætlun var því samþykkt áður en umhverfismati lauk, og er það ólögmætt. Landvernd unir því ekki að brotið sé gegn réttindum sem almenningi er veittur með lögum um umhverfismat áætlana, Evróputilskipunum sem þau byggja á og hinum alþjóðlega Árósasamningi, sem Ísland hefur fullgilt. Umsögn Landverndar var ein af 23 umsögnum sem Landsnet sniðgekk með þessum hætti.

Samþykkt stjórnar Landsnets á kerfisáætlun er einnig í ósamræmi við ákvæði raforkulaga því Landsnet gerði eigin raforkuspá í stað þess að ganga út frá raforkuspá Orkuspárnefndar. Lagastoð er ekki fyrir því að fyrirtækið felli sína eigin spá um raforkuþörf inn í kerfisáætlun. Í áætluninni hefur Landsnet tekið sér það bessaleyfi að ganga út frá að allt að allur orkunýtingarflokkur núverandi rammaáætlunar verði nýttur á næstu tíu árum, sem er gildistími kerfisáætlunar. Engin lagaheimild er fyrir þeim forsendum. Samkvæmt rammaáætlunarlögunum er virkjanahugmynd í orkunýtingarflokki  fráleitt það sama og að ákvörðun hafi verið tekin um að virkja. Nýtingarflokkur rammaáætlunar verður því ekki tekinn hrár upp í kerfisáætlun.

Í umhverfismatsskýrslu Landsnets eru loftlínur, jarðstrengir og blönduð útfærsla nefnd sem valkostir við gerð umhverfismats. Þrátt fyrir það gerði Landsnet bara mat á umhverfisáhrifum loftlína. Landvernd telur þetta ekki standast lög um mat á umhverfisáhrifum áætlana, en þar er kveðið skýrt á um að meta beri áhrif raunhæfra valkosta. Því bar Landsneti að meta alla valkostina þrjá. Kerfisáætlunin stenst því ekki lög.

Lögmál ehf. rekur málið fyrir hönd Landverndar.

Lesa kæru á hendur Landsneti

Ert þú í Landvernd?

Taktu afstöðu með náttúrunni og gakktu í Landvernd