Eyjadalsá rennur í Skjálfandafljót sem er eitt stærstu jökulvatna landsins og er vatnasvið þess enn óraskað.
Eyjadalsá

Eyjadalsá rennur í Skjálfandafljót úr Eyjadal nokkru sunnan við Þjóðveg 1 og Goðafoss. Skjálfandafljót er eitt þeirra stóru jökulvatnsfalla sem rennur enn óraskað frá jökli til sjávar og er því sérstæð jarðmyndun á landsvísu en friðlýsing fljótsins myndi vernda sérstöðu þess, landmótunarferlum, landslagsheild og lífríki. Ef yrði af Eyjadalsárvirkjun yrði mikið rask á rennsli Skjálfandafljóts og vatnasviðs þess.

Skjálfandafljót

Skjálfandafljót kemur úr Vonarskarði og rennur norður í Skjálfandaflóa. Stórbrotnar náttúruminjar er að finna í og við vatnasvið Skjálfandafljóts, eins og Goðafoss, Laufrönd og Neðribotna, Ingvararfoss, Hrafnabjargafoss, Aldeyjarfoss, Þingey, Skuldaþingsey, votlendi á Sandi og Sílalæk í Aðaldal, Gæsavötn við Gæsahnjúk, Tungnafellsjökul og Vonarskarð.

Þrjár virkjunarhugmyndir eru í Skjálfandafljóti, þ.e. Eyjadalsárvirkjun, Fljótshnúksvirkjun og Hrafnabjargavirkjun A. Faghópur I í 2. áfanga rammaáætlunar telur að Skjálfandalfljót sé meðal verðmætustu svæða landsins með tilliti til landslags og víðerna. Æskilegt er að friðlýsa Skjálfandafljót frá upptökum til ósa.

Friðlýstar minjar eru Þingey, Skuldaþingsey, Hrauntunga, Hofgarður og nafnlaust býli við Fiskiá. Þingstaðirnir tveir í Skjálfandafljóti (Þingey og Skuldaþingsey) eru með merkari og best varðveittu fornminjum á Íslandi og leifar af fjölmörgum þingbúðum sjást þar enn.

Ein sögufrægasta ferðaleið landsins Bárðargata liggur um svæðið en götuna eru ferðamenn farnir að ganga á ný.

Lífríki

Svartá og Suðurá eru lindár með miklum silungi og fuglalífi, meðal annars straumönd og húsönd, sem báðar eru á válista. Með tilkomu Eyjadalsárvirkjunar og annarra virkjana í Skjálfandafljóti er líklegt að lífríki á svæðinu breytist.

Virkjunarhugmyndir

Fyrirhuguð Eyjadalsárvirkjun í Skjálfandafljóti á móts við Eyjadalsá er áætluð með 8 MW rafafli. Virkjað yrði 24 metra fall á um 2 km löngum kafla og steinsteypt stífla yrði um 200 metra löng.

Nauðsynlegt er talið að halda Eyjadalsá óvirkjaðri til að halda vatnasviði Skjálfandafljóts óröskuðu.

Hefur þú ábendingu um svæðið?
Sendu okkur línu á natturukortid (hjá) landvernd.is

Scroll to Top