Fréttatilkynning: Framtaksleysi Alþingis ljúki á vorþingi

Skrokkalda er í hættu vegna virkjanaáforma, landvernd.is
Hugmyndafræði rammaáætlunar gengur út frá röngum forsendum. Gert er ráð fyrir að allt landið sé undir til virkjana en Landvernd bendir á að íslensk náttúra skuli vera vernduð nema sérstakar aðstæður gefa tilefni til annars.

Stjórn Landverndar telur það alvarlegan ágalla á störfum Alþingis að það hafi beðið í næstum 5 ár með afgreiðslu þingsályktunartillögu um verndar- og orkunýtingaráætlun (rammaáætlun).  Alþingi hefur með þessu rýrt trúverðugleika rammaáætlunar sem faglegs vettvangs fyrir flokkun virkjunarhugmynda. 

Stjórn Landverndar styður þá faglegu aðferðarfræði sem beitt er við flokkun virkjanahugmynda í rammaáætlun. Þó telur Landvernd að hugmyndafræðin gangi út frá röngum forsendum: gert er ráð fyrir því að allt landið sé undir til virkjana nema sérstakar ástæður bendi til þess að rétt sé að vernda.  Í raun ætti viðhorfið að vera öfugt: íslensk náttúra skal vera vernduð nema ef sérstakar aðstæður gefa tilefni til annars.

Landvernd vill að Alþingi skoði ýtarlega að færa nokkrar virkjunarhugmyndir úr nýtingarflokki í biðflokk vegna þess hve langur tími hefur liðið frá því að lokaskýrsla verkefnisstjórnar rammaáætlunar var lögð fram árið 2016.  Mikið hefur breyst á 5 árum sem liðin eru. Skilningur á gildi íslenskrar náttúru fyrir efnhags- og byggðaþróun hefur aukist mjög, nýjar upplýsingar hafa komið fram um verðmæti fjölmargra svæða, til dæmis Drangajökulssvæðisins, og stofnun þjóðgarðs á miðhálendi Íslands er að verða að veruleika.

Alþingi verður að taka hlutverk sitt sem stefnumarkandi aðili um  rammaáætlun alvarlega og má ekki víkja sér undan því að taka hana til afgreiðslu nú á vorþingi.  Framtaksleysi Alþingis fram til þessa hefur skaðað rammaáætlun og náttúruvernd í landinu.

Hér að neðan má nálgast umsögn Landverndar. 

Ef nánari upplýsinga er óskað, vinsamlegast hafið samband við Auði Önnu Magnúsdóttur framkvæmdastjóra Landverndar.

Ljósmynd: Horft yfir hjarta landsins af Skrokköldu á Sprengisandi. Skrokkalda er í nýtingarflokki Rammaáætlunar.  

Ert þú í Landvernd?

Taktu afstöðu með náttúrunni og gakktu í Landvernd