Fitjar eru einstakt votlendissvæði í Skorradal, landvernd.is

Friðlýsum Fitjar, votlendissvæðið í Skorradal

Share on facebook
Share on twitter
Share on email
Stjórn Landverndar styður heilshugar tillögu Umhverfisstofnunar um friðlýsingu Fitja. Stjórnin telur einnig kjörið að nýta tækifærið og tengja saman friðlýst birkiskógarvistkerfi og votlendissvæðið við Fitjar saman.

Tillaga um friðlýsingu votlendissvæðis í Skorradal gleðiefni

Umsögn um friðlýsingu votlendissvæðis Fitjaár í Skorradal

Reykjavík 25. júní 
send til Umhverfisstofnunar

Stjórn Landverndar hefur kynnt sér tillögu að friðlýsingu votlendissvæðis Fitjaár í Skorradal sem friðlands í samræmi við málsmeðferðarreglur 39. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd.
Markmið friðlýsingarinnar er að vernda víðlent, samfellt og lítið raskað votlendissvæði við Fitjaá, vernda vistgerðir og búsvæði ásamt því að styrkja verndun lífvera sem eru sjaldgæfar eða í hættu. Þá miðar friðlýsingin jafnframt að því að vernda og viðhalda tegundafjölbreytni svæðisins og vistfræðilegum ferlum sem og stuðla að ákjósanlegri verndarstöðu tegunda og fræðslu um votlendissvæðið.
Stjórn Landvernd styður þetta markmið og undirstrikar mikilvægi þess að vernda votlendisvistkerfi.
En betur má gera í náttúruvernd á þessu svæði. Aðliggjandi svæði við sunnanvert Skorradalsvatn er afar verðmætt vegna birkiskógavistkerfis. Þessu hefur sveitarstjórn gert sér grein fyrir. Í aðalskipulagi Skorradalshrepps er allt land Vatnshornsjarðarinnar skilgreint „náttúruverndarsvæði“ og mörkuð sú stefna að „vinna að stækkun friðlands birkiskógavistkerfis skv. lögum um náttúruvernd nr. 44/1999, er taki til allrar jarðarinnar Vatnshorns“ (kafli 5.12. ) fyrir utan einkalóðir vestast í landinu. Þá má minna á að fyrr á þessu ári staðfesti ráðherra ákvörðun hreppsins um að gera svæði í fram-Skorradal að „verndarsvæði í byggð“ og eru fornu þjóðleiðirnar hluti þess.

Notum tækifærið og friðlýsum stærra svæði

Nú er tækifæri til að fylgja þessari stefnu Skorradalshrepps eftir og friðlýsa stærra svæði en sem núverandi áform ná til, votlendið við Fitjaá. Stjórn Landverndar leggur til að hlíðin austan við friðland Vatnshornsskógar, út að mörkum Bakkakots verði einnig friðuð og tengi þannig fyrirhugað votlendisfriðland (sbr. auglýsinguna) því friðlandi sem fyrir er í Vatnshornsskógi. Slíkt samfellt friðland myndi hafa meira gildi en ef þessi tvö friðlönd verða ótengd. Þessa tillögu má sjá á myndinni hér fyrir ofan,.

Share on facebook
Share on twitter
Share on email
Scroll to Top