Frumvarp um Hvammsvirkjun er brot á stjórnarskrárvörðum rétti borgaranna og gengur gegn vatnatilskipun ESB
Þetta kemur fram í lögfræðiáliti sem fimmtán náttúruverndarsamtök létu vinna fyrir sig á nýframkomnu frumvarpi umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra sem snýr að breytingum á raforkulögum og lögum um stjórn vatnamála.
Um leið og ráðherrann áfrýjaði nýföllnum dómi héraðsdóms í máli landeigenda vegna Hvammsvirkjunar lagði hann fram frumvarpið. Augljóst er að því er ætlað að hafa áhrif á leyfisveitingar fyrir Hvammsvirkjun.
í framsöguræðu á Alþingi sagði ráðherra:
„Það verður að eyða þessari óvissu og ég tel að það væri ekki forsvaranlegt að fara að bíða í einhverja mánuði eftir að Hæstiréttur mögulega eyði þessari óvissu.“
Umhverfisverndarsamtök gagnrýna þetta harðlega.
Ríkisstjórnin hefur ekki kannað hvort frumvarpið standist yfir höfuð stjórnarskrá, hvað þá vatnatilskipun Evrópusambandsins. Engin slík greining fylgir frumvarpinu. Niðurstöður lögfræðiálitsins benda þó til þess að með frumvarpinu yrðu stjórnarskrárvarin réttindi borgaranna brotin og að mikilvægur hluti fyrirhugaðra breytinga á löggjöf um stjórn vatnamála yrðu í brýnni andstöðu við skuldbindingar íslenska ríkisins skv. EES-samningum.
Í lögfræðiálitinu segir um réttinn til réttlátrar málsmeðferðar:
„Með frumvarpi umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra sýnist stefnt að því, að svipta einstaklinga þá sem eiga aðild að dómsmáli sem rekið er fyrir almennum dómstólum rétti sínum til að fá úrlausn sömu dómstóla um réttindi sín og skyldur í þessu tiltekna máli.“
Og jafnframt:
„Á grundvelli alls ofangreinds er það niðurstaða mín, að íhlutun íslenska ríkisins í yfirstandandi ágreiningi sem rekinn er fyrir æðra dómstóli og á æðra stjórnsýslustigi, með framlagningu frumvarpsins, sé brot gegn 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrár, svo sem hún verður skýrð með hliðsjón og 2. og 60. gr. hennar, sbr. einnig 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, verði frumvarpið óbreytt að lögum.“
Um skuldbindingar íslenska ríkisins vegna vatnatilskipunar ESB segir:
„Það er mín niðurstaða, sé litið til dómaframkvæmdar ESB-dómstólsins sem reifaðir eru í fyrrnefndu áliti Aðalheiðar Jóhannsdóttur prófessors fyrir íslenska ríkið, með hliðsjón af fyrrgreindum leiðbeiningum, að annar liður 2. gr. frumvarpsins sé í brýnni andstöðu við skuldbindingar íslenska ríkisins skv. EES-samningum.“
Neðangreind umhverfisverndarsamtök mótmæla harðlega framlagningu frumvarpsins og skora á umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis, sem og þingmenn alla að láta frumvarpið ekki fram ganga í óbreyttri mynd.
Landvernd
Náttúruverndarsamtök Íslands
Náttúrugrið
Verndarsjóður villtra laxastofna
Ungir umhverfissinnar
Vinir Þjórsárvera
Íslenski náttúruverndarsjóðurinn
Fjöregg, félag um náttúruvernd og heilbrigt umhverfi í Mývatnssveit
Fyrir vatnið
Náttúruverndarsamtök Suðurlands
Eldvötn í Skaftafellssýslu
Samtök um náttúruvernd á Norðurlandi
Náttúruverndarsamtök Austurlands
Náttúruverndarsamtökin Hraunavinir
Náttúruverndarsamtök Suðvesturlands
Verndarfélag Svartár og Suðurár
Samtök um vernd í og við Skjálfanda
Álitið má nálgast í heild sinni hér: 2502025 Lögfræðiálit lög um Hvammsvirkjun