Gjábakkavegur og náttúruvernd

Þingvellir. Þjóðgarðastofnun gæti elft náttúruvernd í landinu, landvernd.is
Stjórn Landverndar fagnar þeirri niðurstöðu umhverfisráðherra að nauðsynlegt sé að skoða betur möguleika til að bæta Gjábakkaveg án þess að spilla náttúruverðmætum.

Stjórn Landverndar fagnar þeirri niðurstöðu umhverfisráðherra að nauðsynlegt sé að skoða betur möguleika til að bæta Gjábakkaveg án þess að spilla mjög þeim náttúruverðmætum sem svæðið býr yfir. Umhverfisráðherra hefur með ákvörðun sinni komið á móts við þau sjónarmið sem Landvernd og fleiri aðilar komu á framfæri um mikilvægi þess að skoða betur möguleikana á því hvort núverandi vegstæði sé raunhæfur kostur.

Í matsskýrslu Vegagerðarinnar sem kynnt var á síðast ári kom fram það álit að ekki sé mögulegt að byggja upp núverandi vegastæði þar sem það geti ekki uppfylli skilyrði um hraða og öryggi. Vegagerðin tók ekki undir sjónarmið þess efnis að náttúruvernd geti verið fullgild ástæða til að miða hönnun vega við minni hraða. Stjórn Landverndar telur hins vegar að náttúruverndarsjónarmið geti og eigi að vera fullgild ástæða til að miða hraða-hönnun vega við. Stjórnin fellst ekki á þá röksemd að miða skuli hámarkshraða fyrst og fremst við aksturshegðun ökumanna. Það er ekki síður réttmæt forsenda að miða hraða-hönnun vega við náttúruverndargildi sem óneitanlega er afar hátt á þessu svæði í jaðri þjóðgarðs á heimsminjaskrá. Stjórnin kærði því úrskurð Skipulagsstofnunar, sem tók undir sjónarmið Vegagerðarinnar, til umhverfisráðherra. Þá taldi stjórna Landverndar að áform Vegagerðarinnar um staðsetningu Gjábakkavegar myndu gera vatnsvernd erfiðari og kynni að hamla nýtingu verðmætra grunnvatnsstrauma sem þar er að finna.

Ástæða er til að benda á ný skilti vegagerðarinnar um ,,leiðbeinandi hraða” við stofnvegi landsins til að vekja athygli á því að akstur á leyfilegum hámarkshraða sé ,,óráðlegur” (Framkvæmdafréttir 17. tbl./05). Uppsetningu þessara skilta er staðfesting á því að við vissar aðstæður getur verið eðlilegt að víkja frá 90 km viðmiðunni.

Stjórn Landverndar hvetur Vegagerðina til að endurvinna umhverfismat Gjábakkavegar og skoða vel þá möguleika og samfélagslega ávinning sem gæti falist í því að endurgera veginn í núverandi vegastæði hans. Stjórnin telur að eitt mikilvægt markmið vegagerðar á þessu svæði eigi að vera að gera útsýnis- og skoðunarstaði aðgengilega og þeim tilgangi verði best náð með því að nota núverandi vegastæði. Þá verði lögð áhersla á verndun vatnsauðlinda á svæðinu. Miða ber hönnuar-hraða endurbætts vega við aðstæður þannig að eðlileg tenging myndist á milli vestarihluta Gjábakkavegar og vega innan þjóðgarðarins á Þingvöllum. Í tengslum við almennar vegabætur á svæðinu mætti líta til möguleika til afkastameiri vegar sunnan vatns eins og bent var á í athugasemdum Landverndar við fyrra mat á umhverfisáhrifum.

Ert þú í Landvernd?

Taktu afstöðu með náttúrunni og gakktu í Landvernd