Gjábakkavegur, ráðherra fresti útboði

Landvernd vill fresta útboði Gjábakkavegar. Á heimasíðu Vegagerðarinnar er verkið á skrá yfir fyrirhuguð útboð þrátt fyrir að UNESCO fjalli nú um málefni Þjóðgarðsins og þá umhverfisvá sem líklega myndi hljótast af veginum.
Landvernd sendir samgönguráðherra bréf um frestun útboðs Gjábakkavegar. Landvernd fer þess á leit við samgönguráðherra að hann fresti útboði Gjábakkavegar. Á heimasíðu Vegagerðarinnar er verkið á skrá yfir fyrirhuguð útboð þrátt fyrir að UNESCO fjalli nú um málefni Þjóðgarðsins og þá umhverfisvá sem líklega myndi hljótast af veginum. Sjá bréf Landverndar til ráðherra. Ósætti hefur verið um vegstæðið og hafa umsagnaraðilar vakið máls á því að það geti spillt mikilvægum umhverfis- og náttúruverðmætum sem varði þjóðina alla. Rask á vernduðu hrauni og hætta á mengun grunnvatnsstrauma og framtíðarvatnsbóla höfuðborgarsvæðisins er meðal þess sem má nefna. Þá hafa allir helstu vatnalíffræðingar landsins varað við þeirri hættu sem köfnunarefnismengun gæti valdið lífríki Þingvallavatns. Vegurinn myndi hafa áhrif á umferðarþunga og líklega umferðarhraða í gegnum þjóðgarðinn á Þingvöllum sem er á heimsminjaskrá UNESCO. Hér má sjá að ríkir umhverfis- og náttúruverndarhagsmunir eru í húfi. Heimsminjanefnd Íslands hefur lýst þungum áhyggjum, sem sjá má í bréfi Heimsminjanefndar Íslands. Landvernd og Náttúruverndarsamtök Suðurlands hafa lagt fram tillögu um annað vegstæði sem send hefur verið öllum hlutaðeigandi aðilum sem hafa hana nú til skoðunar. Með þeirri leið (Leið 3+8) telja samtökin að unnt sé að bæta samgöngur innan Bláskógabyggðar með mun minna umhverfisraski og umhverfisógnum en fylgja myndi fyrirhugaðri leið. Æskilegt og rétt væri að yfirvöld myndu ekki aðhafast frekar í málinu fyrr en tillaga þessu hefur hlotið tilhlýðilega skoðun og málsmeðferð lýkur hjá UNESCO. Bréf Landverndar til samgönguráðherra má nálgast hér.

Ert þú í Landvernd?

Taktu afstöðu með náttúrunni og gakktu í Landvernd