Jóhannes Bjarki Urbancic Tómasson

býður sig fram til stjórnar Landverndar

Ég er 29 ára líffræðingur og ritari Landverndar. Ég starfa á sviði loftslagsmála og hringrásarhagkerfis hjá Umhverfisstofnun.

Mínar áherslur í stjórn eru málefni líffræðilegs fjölbreytileika og bætt samstarf milli aðila í náttúruvernd, sérstaklega við ungt fólk.

Landvernd eru stærstu og öflugustu umhverfisverndarsamtök á Íslandi og síðustu fjögur ár hef ég haft þann heiður að vera ritari Landverndar. Ég vil halda því góða starfi áfram og sækist því eftir þínum stuðningi. Mín sýn er að efla vægi Landverndar í opinberri umræðu og að samtökin geti stutt og valdeflt þá eldhuga sem fást við náttúruvernd á Íslandi. Til þess þarf Landvernd að standa á traustum fótum.

Minn bakgrunnur er úr vísindum og stjórnsýslu sem eru málaflokkar sem nauðsynlegt er að hafa góðan skilning á í stjórnarstörfum Landverndar.

Sem líffræðingur hef ég fengist við rannsóknir á líffræðilegum fjölbreytileika á Íslandi með sérstaka áherslu á birkiskóga. Á vef Landverndar má lesa tvær stuttar greinar eftir mig um það efni, Leynilegt bandalag plantna og Birki á Íslandi. Þrátt fyrir ungan aldur hef kennt í Háskóla Íslands í sjö ár, aðallega grasafræði en einnig dýrafræði, vistfræði og erfðafræði. Frá háskólanum hef ég öðlast breiða þekkingu á þeim sviðum sem ég kenni en hef sömuleiðis haft tækifæri til að hafa áhrif á unga sérfræðinga í umhverfismálum og mótað þeirra hugmyndir. Öflugt samtal við unga sérfræðinga er lykilþáttur fyrir framtíðarvelferð samtakanna og þar get ég haft áhrif.

Ég starfa sem sérfræðingur á sviði loftslagsmála- og hringrásarhagkerfis hjá Umhverfisstofnun og hef áður starfað sem sérfræðingur hjá Landgræðslunni og víðar. Í mínu starfi vinn ég í góðu samtali við aðila í umhverfismálum, bæði stjórnsýslustofnanir, fyrirtæki, einstaklinga og erlenda aðila. Mín reynsla er sú að víðtækur vilji sé til samstarfs en erfiðlega hafi gengið að koma á fót góðum samstarfsvettvangi. Ég vil að Landvernd leiði hópinn með því að sýna virkan samstarfsvilja við aðila í umhverfismálum. Í öflugra samstarfi felast óteljandi tækifæri.

Ég hef mikla reynslu af fræðslu- og miðlunarverkefnum um lífríki, náttúruvernd og loftslagsmál og mun sá bakgrunnur bæði gagnast stjórninni í fjölbreyttum málum en sömuleiðis er það traustvekjandi fyrir samtökin að hafa eftirsóttan sérfræðing með jákvæða ímynd í stjórn. Meðal verkefna má tína til námskeiðahald í Háskólalestinni, sérfræðistörf í frumkvöðlakeppni framhaldsskólanna og fræðsluverkefni um lífríki lands- og sjávar fyrir öll skólastig. Sömuleiðis hef ég verið fulltrúi Landverndar í stjórn Kolviðar og var skipaður af umhverfisráðherra í verðlaunanefnd Kuðungsins, viðurkenningar umhverfisráðuneytisins á framlagi fyrirtækja til umhverfismála þar sem ég sit fyrir hönd náttúruverndarsamtaka.

Ég vona að þið sýnið mér þann heiður og traust að kjósa mig til áframhaldandi stjórnarsetu í okkar frábæru samtökum.

Ert þú í Landvernd?

Taktu afstöðu með náttúrunni og gakktu í Landvernd