Landvernd biður um svör úr umhverfisráðuneytinu

Landvernd hefur sent umhverfisráðherra bréf til að spyrja um svör íslenskra stjórnvalda við fyrirspurn Ramsarskrifstofunnar vegna mengunarhættu frá Bjarnarflagsvirkjun á lífríki Mývatns og Laxár.

Þann 27. september 2012 sendu Landvernd og Fuglavernd skrifstofu Ramsarsamningsins bréf þar sem athygli skrifstofunnar var m.a. vakin á mögulegum neikvæðum umhverfisáhrifum af fyrirhugaðri Bjarnarflagsvirkjun á lífríki Mývatns og Laxár, en svæðið er eitt af þremur ramsarsvæðum á Íslandi. Slík svæði njóta verndar vegna alþjóðlegs mikilvægis þeirra sem votlendis- og fuglasvæði. Í kjölfarið sendi ramsarskrifstofan íslenskum stjórnvöldum bréf, dagsett 31.10.2012, þar sem spurningum Landverndar og Fuglaverndar var beint til íslenskra stjórnvalda. Enn hafa engin svör borist frá Umhverfisstofnun sem fer með málefni samningsins á Íslandi, né frá umhverfis- og auðlindaráðuneyti.

Ljóst er að ábyrgð íslenskra stjórnvalda er skýr þegar kemur að því að tilkynna ramsarskrifstofunni um mögulegar ógnir við lífríki og vistkerfi þeirra svæða sem ríki hafa kosið að setja á s.k. ramsarlista. Á ramsarlistanum eru svæði sem njóta sérstakrar verndar samkvæmt samningnum vegna alþjóðlegs mikilvægis þeirra.

Nú hefur Landvernd send umhverfis- og auðlindaráðherra bréf til að grennslast fyrir um svör íslenskra stjórnvalda og beðið ráðherra um að flýta vinnu við þetta, enda ekki gott að segja til um hvenær framkvæmdir kunna að fara á fullt skrið við byggingu Bjarnarflagsvirkjunar, sem er í nýtingarflokki í áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

Hér að neðan eru spurningarnar sem Landvernd og Fuglavernd sendu Ramsarskrifstofunni, en nánar má lesa um erindi samtakanna hér:

„Landvernd og Fuglavernd fara þess á leit við Ramsarskrifstofuna að hún krefjist þess að íslensk stjórnvöld sem bera ábyrgð á framfylgt samningsins hérlendis:

a) kanni vandlega og tilkynni Ramsar skrifstofunni um hverskonar hættur sem steðji að vistkerfi Mývatns og Laxár frá hinni fyrirhuguðu jarðhitavirkjun Landsvirkjunar í Bjarnarflagi,

b) hugleiði að tilnefna Mývatn-Laxá svæði á Montreux Record samningsins sem er nokkurs konar válisti Ramsarsvæða sem sérstök hætta steðjar að og skrifstofan fylgist sérstaklega með,

c) tryggi að viðunandi eftirlit og vötkun muni eiga sér stað af hendi framkvæmdaaðila í nánu samstarfi við viðeigandi eftirlitsaðila hins opinbera og Rannsóknastöðina við Mývatn.

Í þessu sambandi benda samtökin á að sérstaklega þurfi að leita svara við spurningum sem varða mengun frá virkjuninni. Þar ber hæst förgun affallsvatns og möguleg kæling á grunnvatnsstreymi sem getur minnkað kísilstreymi til Mývatns, sem er ein undirstaða fjölbreytts lífríkis vatnsins. Einnig benda samtökin á að Landsvirkjun hefur ekki útskýrt hvernig hún hyggist standast kröfur varðandi brennisteinsmengun frá virkjuninni.

Ert þú í Landvernd?

Taktu afstöðu með náttúrunni og gakktu í Landvernd
Scroll to Top