Leynilegt bandalag plantna

Birkiskógi vaxnar hlíðar á Íslandi. llestu um leynilegt bandalag plantna. andvernd.is
Birkiskógi vaxnar hlíðar.
Vitað er að tré tala saman með því að senda loftborin efnaboð sín á milli. Innihald skilaboðanna geta verið á alla vegu. Jóhannes Bjarki Urbancic stjórnarmaður Landverndar og líffræðingur skrifar um leynilegt bandalag plantna.

Líffræðilegur fjölbreytileiki er grundvöllur þess að náttúran geti starfað á heilbrigðan hátt. Við heyrum gjarnan fjallað um þann gríðarlega fjölbreytileika sem finna má innan dýraríkisins en því miður hefur umræðan um fjölbreytileika plantna verið lágstemmdari. Þær eru jú, allar grænar og nýta sér sömu orkuuppsprettuna – sólarljósið. Hversu fjölbreyttar geta plöntur eiginlega verið?

Plöntur geta ekki hlaupið í burtu frá vandamálum sínum

Plöntur eru fastar með rótum og geta því ekki, ólíkt okkur, staðið upp og hlaupið í burtu frá vandamálum sínum. Hvort sem þær þurfa að þola óveður eða ásókn grasbíta hafa plöntur ekki annað val en að taka því sem á þeim dynur. Til þess að auðvelda sér lífið hafa plöntur komið upp ósýnilegu samstarfi sem menn hafa aðeins nýlega náð að svipta hulunni af.

Tré tala saman

Plöntur eru bestu efnafræðingar lífríkisins. Vitað er að tré tala saman með því að senda loftborin efnaboð sín á milli. Innihald skilaboðanna geta verið á alla vegu. Sum tré senda öðrum boð þegar skordýraárás er yfirvofandi eða þegar grasbítar hafa herjað á tréð. Viðtakandi skilaboðanna getur þá undirbúið sig fyrir árásina með því að dæla varnarefnum út í laufin, ræturnar eða trjákvoðuna. Aðrar plöntur geta sent út efnaboð til frjóbera þegar blóm þeirra eru orðin fullþroskuð eða skordýrafælur þegar þau mega síður við því að lenda í skordýraárás.

Birki sem spjallar

Nýlega komust vísindamenn að því að birkitré senda frá sér mismunandi efnaboð eftir því í hvaða hæð þau vaxa, hvaða tími árs er og í hvaða ásigkomulagi trén eru, líkt og trén tali sitt eigið tungumál og segja hvert sína sögu. Þegar skordýr herja á birkitrén breytast efnaboð þeirra til annarra trjáa, en þau breytast á mismunandi hátt eftir því hversu mikill þéttleiki skordýranna er og eftir því hvaða tré sendir frá sér boðin. „Halló skógur, þetta er ég, og á mig herja þúsund lirfur. Búist undir átök!“

Birki og kúalubbar í samstarfi

En boð milli trjáa eiga sér ekki öll stað ofanjarðar. Bæði birkitré og litla systurtegund þeirra, fjalldrapi, lifa í nánu samlífi við sveppi sem tengjast trjánum í gegnum ræturnar. Trén sjá sveppunum fyrir næringu og í staðinn auðvelda sveppirnir trjánum að sækja sér vatn og næringarefni út í jarðveginn. Líkt og hjá okkur mannfólkinu virðast ekki allir vilja vinna með hverjum sem er og talsverð sérviska getur ráðið ríkjum. Nánast öll birkitré eru tilbúin að opna rætur sínar fyrir sveppnum kúalubba (Leccinum scabrum) en finnlandshnoðri (Hyaloscypha finlandica) er ekki jafn vinsæll, enda getur samstarfið milli hans og birkitrjáa verið áhættusamt. Til mikils er að vinna en hann getur gert trjánum meira ógagn en gagn, að minnsta kosti þegar illa gengur.

Sveppirnir sem tengjast trjárótunum geta bæði flutt boð og næringarefni á milli trjáa. Fjalldrapi deilir meira en tíunda hluta af allri sinni orku með öðrum trjám í gegnum rótarsveppina sem tengjast honum. Það er álíka hátt hlutfall og hann eyðir í fræframleiðslu sem þýðir að samstarfið skilar trjánum væntanlega miklum ávinningi. Ætli sá ávinningur felist í því að fá fréttir af skordýrum og grasbítum frá nágrönnunum? Eða kannski er þetta tryggingabandalag á milli trjánna, þannig að ef eitt tréð lendir í skakkaföllum gætu hin hlaupið undir bagga með því á meðan það versta dynur yfir?

Fjölbreytileikinn er margvíslegur og mikilvægur

Menn verða sífellt meðvitaðri um að fjölbreytileiki náttúrunnar er nánast ótæmandi. Því miður hefur ofuráhersla verið lögð á að líffræðilegan fjölbreytileika sé hægt að mæla í fjölda tegunda. Svo er auðvitað ekki. Líffræðilegur fjölbreytileiki er svo margvíslegur að stór hluti hans er enn óuppgötvaður og jafnvel óhugsandi. Hvað stýrir því hversu samstarfsfús birkitré eru við rótarsveppi? Hversu mikill fjölbreytileiki er raunverulega í gömlu birkiskógunum okkar? Ætli þeir tali allir sömu mállýsku? Ef þeir hittast einhvern tíma aftur, munu þeir skilja hver annan?

Greinin birtist fyrst í Ársriti Landverndar 2021-2022 þann 20. maí 2022. 

Ert þú í Landvernd?

Taktu afstöðu með náttúrunni og gakktu í Landvernd