Loftslagsverkefni

„Ekki er hægt að stunda viðskipti á líflausri plánetu.“

 

 
 
 

 

Loftslagsmál

Á síðustu árum hefur hver alþjóðaskýrslan á fætur annarri varað við grafalvarlegum áhrifum hlýnunar andrúmsloftsins á vistkerfi, samfélög og hagkerfi. Andrúmsloftið hefur hitnað að meðaltali á Jörðinni um 0,85°C á síðustu 130 árum. Að gefnum mismunandi forsendum um útlosun gróðurhúsalofttegunda, gera nýjustu loftslagsspár ráð fyrir að hlýnun verði á bilinu 0,3-4,8°C fram til aldarloka, mest á háum breiddargráðum (IPCC 2013). Þeirri þróun sem hér er lýst má að stórum hluta rekja til athafna mannsins og gríðarmikilvægt er að draga úr henni.

Ísland, ásamt 192 öðrum þjóðum heims, skrifaði undir Parísarsamkomulagið á Loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í París 12. desember 2015. Ísland hefur nú fullgilt samninginn og hann hefur tekið gildi. Með samningnum stefna þjóðir heims að því að halda hlýnun jarðar af mannavöldum innan 2°C marksins og með það aukamarkmið að reyna að stefna að hún verði innan við 1,5°C, miðað við hitastig fyrir iðnvæðingu. Í stefnumörkun ríkisins í loftslagsmálum er stefnt að 50-75% samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda árið 2050 miðað við 1990 (Umhverfisráðuneytið 2007). Í aðgerðaáætlun hins opinbera í loftslagsmálum kemur enn fremur fram að Ísland hyggst leggjast á árar með Evrópusambandinu og ná fram 30% samdræti í losun árið 2020. Ríkisstjórn Íslands hefur lýst því yfir að hún hyggist fylgja Evrópusambandinu og Noregi að málum og stefna að 40% samdrætti árið 2030. Árið 2010 var sett fram áætlun þar sem skilgreindar voru 10 lykilaðgerðir og ný áætlun leit dagsins ljós undir lok árs 2015 (Samstarfshópur umhverfis- og auðlindaráðherra 2015). Aðkoma og hlutverk sveitarfélaga er hinsvegar fremur rýrt samkvæmt þessum áætlunum. Þá hafa afar fá sveitarfélög sett sér stefnu í loftslagsmálum. Reykjavíkurborg er þar ánægjuleg undantekning (Reykjavíkurborg 2016) ásamt því sem Bæjarstjórn Akureyrar hefur samþykkt að bæjarfélagið setji sér mælanleg markmið í loftslagsmálum og samþykki í kjölfarið aðgerðaáætlun og áætlun um eftirfylgni. Reykjavíkurborg, Akureyrarbær og Hveragerðisbær hafa skrifað undir sáttmála borgarstjóra um loftslagsmál og Sveitarfélagið Hornafjörður og Sveitarfélagið Fljótsdalshérað hafa nú bæst í hóp íslenskra sveitarfélaga sem setja sér stefnu í loftslagsmálum. Það er því mikil þörf á aukinni aðkomu og vinnu sveitarfélaga að loftslagsmálum.

 

Um verkefnið

Landvernd hefur frá árinu 2013, unnið að þrepaskiptu, aðgerðamiðuðu loftslagsverkefni með íslenskum sveitarfélögum sem miðar að því að aðstoða þau við að draga úr útlosun gróðurhúsalofttegunda. Verkefnið er byggt á fyrirmynd dönsku náttúruverndarsamtakanna.

Markmið

Tilgangur verkefnisins er að draga úr útlosun gróðurhúsalofttegunda í sveitarfélögum með aðstoð Landverndar. Unnið er í þremur geirum: samgöngum, orku og úrgangi.

Samstarfsaðilar

Settur hefur verið fram aðgerðarammi í fimm skrefum en prufukeyrsla hans hófst á árinu 2013 í samvinnu við Sveitarfélagið Hornafjörð.

  • Sveitarfélagið Hornafjörður
  • Sveitarfélagið Fljótsdalshérað
  • Samband íslenskra sveitarfélaga
 

Upplýsingar til þátttakenda

Hlutverk Landverndar

Hlutverk Landverndar Í verkefninu er gert ráð fyrir að starfsmaður Landverndar vinni náið með starfsfólki sveitarfélaga að allri undirbúningsvinnu sem þarf til að útbúa aðgerðaáætlun í loftslagsmálum, sem sveitarfélagið hrindir svo í framkvæmd. Þegar Landvernd verður farin að vinna með fleiri sveitarfélögum að verkefninu safnast þannig saman afar verðmæt reynsla á einn stað, hjá Landvernd, sem nýst getur fleiri sveitarfélögum.

Hlutverk sveitarfélaga

Sveitarfélög í verkefninu útnefna starfsmann sem, í samstarfi við Landvernd, safnar grunngögnum í þremur geirum er koma að sveitarfélaginu sem einingu; samgöngum, orkumálum og úrgangi. Starfsmaður sveitarfélagsins, í samstarfi við Landvernd og bæjarstjórn, útbýr aðgerðaáætlun sem sveitarfélagið ber ábyrgð á að sé framfylgt og að settum markmiðum verið náð.

Fjármögnun

Verkefnið er styrkt af umhverfis- og auðlindaráðuneytinu.