Lýst eftir höfnum – umsóknir fyrir 15. febrúar 2005

Landvernd fór með umsjón Bláfánans á árunum 2002-2018, landvernd.is
Um þessar mundir er verið að senda öllum hafnarstjórnum, sem eru liðlega 40 á Íslandi, bréf um Bláfánann. Í bréfinu er hvatt til þátttöku í Bláfánanum sem er verkefni sem getur veitt gagnlega leiðsögn um hvernig betur megi vernda umhverfið, bæta öryggismál og aðstöðu og auka fræðslu um umhverfið. Umsóknarfrestur er til 15. febrúar n.k.

Bréf til hafnarstjórna

Með þessu bréfi viljum við vekja athygli ykkar á Bláfánanum. Við hvetjum ykkur til að hugleiða hvort þátttaka í Bláfánanum geti ekki veitt ykkur gagnlega leiðsögn um hvernig betur megi vernda umhverfið, bæta öryggismál og aðstöðu og auka fræðslu um umhverfið.

Hvað er Bláfáninn?
Bláfáninn er alþjóðlegt merki sem hefur þann tilgang að stuðla að verndun umhverfis smábátahafna og baðstranda. Smábátahöfnum er veittur Bláfáninn hafi þær lagt sig fram um að vernda umhverfið, bæta öryggismál og aðstöðu í höfninni og veita fræðslu um náttúruna og umhverfisvernd. Þessi viðleitni á að treysta verndun umhverfis hafnarinnar og alla þá þjónustu sem höfnin býður upp á og vera öllum þeim sem nota eða heimsækja höfnina til hagsbóta.

Á árunum 2003 og 2004 fengu hafnirnar í Stykkishólmi og í Borgarfirði Eystra Bláfánann fyrstar hafna á Íslandi. Í heiminum eru um 3.000 staðir, strandir og smábátahafnir, í liðlega 30 ríkjum sem eiga samleið með Bláfánanum.

Bláfáninn er eitt af verkefnum Foundation for Environmental Education sem samtökin Landvernd eiga aðild að. Landvernd annast Bláfánann á Íslandi og skipuleggur innleiðingu hans í samstarfi við Fiskifélag Íslands, Félag umhverfis- og heilbrigðisfulltrúa, Hafnasambandið, Umhverfisstofnun, Samtök ferðaþjónustunnar og Slysavarnarfélagið Landsbjörg. Verkefnið nýtur bæði stuðnings samgönguráðuneytis og umhverfisráðuneytis.

Skilyrði fyrir Bláfána smábátahafnar
Smábátahafnir geta fengið Bláfánann uppfylli þær tilgreind skilyrði. Meðal þess sem litið er til er:
· að markvisst sé unnið að því að bæta umhverfi hafnarinnar
· að höfnin hafi á sér yfirbragð snyrtimennsku og hreinleika
· að höfnin hafi tiltækan björgunarbúnað
· að í eða við höfnina sé stunduð ferðaþjónusta í einhverjum mæli
· að boðið sé upp á þrifaleg salerni og þvottaaðstöðu
· að til staðar sé móttaka fyrir flokkaðan úrgang
· að höfnin sé vel lýst og rafmagnstenging fyrir báta sé fyrir hendi
· að höfnin hafi búnað til að taka á móti hættulegum úrgangi
· að veittar séu upplýsingar um hvernig beri að vernda viðkvæm
svæði sem kunna að vera í nágrenninu.

Þessi atriði og fleiri kröfur eiga að stuðla að því að það sé í senn bæði ánægjulegt og öruggt að fara um og dvelja í eða við höfnina.

Umsókn um Bláfánann skal berast fyrir 15. febrúar
Hafnarstjórnir sem sækjast eftir Bláfánanum á árinu 2005 þurfa að leggja inn umsókn eigi síðar en 15. febrúar 2005. Umsóknarneyðublaðið er að finna á heimasíðu verkefnisins https://www.landvernd.is/blafaninn. Einnig má hafa samband við skrifstofu Landverndar og fá umsóknareyðublað sent í pósti eða tölvupósti. Umsóknargjaldið er 5.000 kr. (fyrir innsenda umsókn). Verði samþykkt að veita Bláfánann þá bætist við 25.000 kr. þátttökugjald.
Landvernd og stýrihópur Bláfánans munu eftir atvikum geta veitt aðstoð við gerð umsóknar.

Þess má geta að smábátahafnir sem ekki treysta sér til að uppfylla öll skilyrði á árinu 2005 en geta sýnt fram á að skilyrðin eru uppfyllt að verulegu leyti og lýsa því yfir að áformað sé að gera frekari úrbætur, fá s.k. Bláfánaskírteini til vitnis um ágæta stöðu og góðan ásetning. Líta má á Bláfánaskírteinið sem undanfara Bláfánans. Það getur því verið eftirsóknarvert að senda inn umsókn jafnvel þó eitthvað vanti upp á að hægt sé að uppfylla allar kröfur á yfirstandandi ári.

Kynningarfundur 20. janúar
Fimmtudag 20. janúar kl. 15.00 er boðið upp á kynningarfund um Bláfánann í Reykjavík. Á fundinum verður farið nánar ofan í skilyrðin og umsóknareyðublaðið. Þeir sem hafa áhuga á að taka þátt í þessum fundi eru vinsamlegast beðnir um að tilkynna þátttöku eigi síðar en mánudag 17. janúar (með tölvupósti til tryggvi@landvernd.is). Fundurinn verður haldinn á skrifstofu Landverndar að Ránargötu 18 í Reykjavík.

Við hvetjum ykkur til að taka þátt í þessu verkefni þar sem það mun án efa leiða til fjölmargra úrbóta, bæta umhverfið og þekkingu um umhverfið, stuðla að verndun hafs og stranda, ásamt því að bæta öryggi og þjónustu við þá sem nota höfnina.

Með góðri kveðju,

F.h Bláfánans á Íslandi; Landvernd, Fiskifélag Íslands, Félag umhverfis- og heilbrigðisfulltrúa, Hafnasambandið, Umhverfisstofnun, Samtök ferðaþjónustunnar og Slysavarnarfélagið Landsbjörg.
og Landverndar.

Tryggvi Felixson, framkvæmdastjóri Landverndar

Ert þú í Landvernd?

Taktu afstöðu með náttúrunni og gakktu í Landvernd