Má bjóða skólanum þínum birkifræ? Skólum landsins býðst að fá birkifræ úr fræbanka Landgræðslunnar og Skógræktarinnar.

Landsátak Landgræðslunnar og Skógræktarinnar í söfnun birkifræs hófst haustið 2020 og mikill fjöldi fræja safnaðist. Skólum landsins býðst nú að fá birkifræ úr þessum fræbanka til sáningar og/eða tilraunar með spírun og vöxt. Hafðu samband við Áskel Þórisson hjá Landgræðslunni askell.thorisson(hjá)landgraedslan.is ef þinn bekkur eða skóli hefur áhuga á að fá fræ. Nánari upplýsingar um landsátakið á birkiskogur.is

Landvernd er samstarfsaðili í þessu stóra vistheimtarverkefni og eru grænfánaskólar sérstaklega hvattir til að taka þátt í að endurheimta birkiskóga landsins. Þátttaka í þessu verkefni uppfyllir skilyrði fyrir þemað vistheimt hjá Skólum á grænni grein.

Hér að neðan eru tenglar á tvö birkiverkefni á vegum verkefnisins Vistheimt með skólum. Annars vegar verkefni um fræsöfnun og sáningu birkifræja og hins vegar tilraun með spírun og vöxt birkifræja. Verkefnin eru hugsuð fyrir unglingastig grunnskóla og framhaldsskóla en auðvelt er að aðlaga þau að yngri nemendum líka.

 

Verkefni

Um birki
Þegar landnemarnir komu til Íslands á níundu öld er talið að stór hluti landsins hafi verið vaxinn birkiskógi. Í dag er einungis 1-1,5% landsins þakið birkiskógi. 

Skógarhögg, kolagerð og ofbeit stórt vandamál í gegnum aldirnar
Meginástæðan fyrir því að við höfum tapað næstum öllum birkiskógunum okkar er ósjálfbær landnýting í gegnum aldirnar, þ.e. skógarhögg, kolagerð og ofbeit. 

Birki hefur þolað öskufall og eldgos
Áður en maðurinn kom til Íslands þoldu birkiskógarnir ágætlega erfitt veðurfarið og stór eldgos. Skógur er það gróðursamfélag sem þolir hvað best öskufall og algengt er að birkiskógar séu nálægt virkum eldfjöllum. 

Birki gefur af sér mikið af fræjum
Birki þroskar yfirleitt mikið af fræi og reklunum er auðvelt að safna á haustin. Það er til mikils að vinna við endurheimt birkiskóga. 

Birkiskógar geta komið í veg fyrir aurskriður
Gróðurfar og dýralíf eykst og verður fjölbreyttara (aukinn lífbreytileiki), vatnsheldni jarðvegs verður meiri (kemur m.a. í veg fyrir aurskriður) og lækir myndast. Þar að auki verður kolefnisbinding í gróðri og jarðvegi og vistheimt er þannig loftslagsaðgerð.

Birkiskógar styðja við margar lífverur
Fjölmargar tegundir af lífverum finnast í birkiskógum, t.d. gulvíðir, loðvíðir, blæösp, reyniviður, ýmsar botngróðursplöntur, fuglar, smádýr og sveppir. Það eru ekki öll birkifræ sem verða að birkitrjám og fyrir því eru margar ástæður. Sum fræ lenda út í sjó, sum grafast of djúpt í jörðu, sum ná að spíra en ekki að róta sig, sum eru étin og sum einfaldlega vakna ekki þrátt fyrir fullkomnar aðstæður. Og það er nú ástæðan fyrir því að hvert birkitré framleiðir svona mörg fræ, í voninni að a.m.k. hluti fræjanna verði að trjám. Birkifræ verða líka að lenda á heppilegum stað svo þau nái að dafna.

Áratugur endurheimtar vistkerfa hjá Sameinuðu þjóðunum

Vistheimt fær aukið vægi hjá Sameinuðu þjóðunum á næstunni því 2021 – 2030 er áratugur tileinkaður endurheimt vistkerfa. Það liggja því mörg tækifæri í vistheimt og Ísland getur svo sannarlega tekið virkan þátt í að endurheimta vistkerfi, bæði á landi og í sjó.

Kynntu þér áratug Endurheimtar vistkerfa. 

 

Scroll to Top