Landvernd hvetur til þess að ráðist verði í aðgerðir sem tryggja að rammasamningar sameinuðu þjóðanna, um vernd líffræðilegrar fjölbreytni (UNCBD) annarsvegar og loftslagsbreytingar (UNFCCC) hins vegar vinni saman. Bilið verði þannig brúað milli Kunming-Montréal samningsins og Parísarsáttmálans. Landvernd vitnar í bréf 145 vísindamanna um allan heim sem sent var á bæði skrifstofur samninganna og alla aðila að báðum samningum í október 2024.
“Eins og skýrsla frá sameiginlegri vinnustofu IPBES og IPCC um líffræðilega fjölbreytni og loftslagsbreytingar sýnir, eru hamfarir loftslagsbreytinga og náttúru ekki óskyld atriði – þær eru nátengdar. Breytingar á loftslagi hafa neikvæð áhrif á líffræðilega fjölbreytni, um leið og tap á líffræðilegri fjölbreytni vinnur gegn stöðugleika loftslags og setur okkur í verri stöðu til aðlögunar. Samt eru hnattræn viðbrögð til varnar hamförunum, Kunming-Montréal samningurinn og Parísarsáttmálinn, í sitthvoru lagi innan tveggja rammasamninga sem talast ekki við. Aðskilnaðurinn hindrar þjóðir í að vinna að heildarlausnum þar sem innleiðing samninganna er í ósamræmi. Lausnir við vandamálum sem stuðla að báðum krísum eru ófullnægjandi, og (ii) lausn við einum vanda getur haft neikvæð áhrif á annan vanda.”
Landvernd leggur áherslu á að efnahagur okkar byggir á náttúrunni, en meira en helmingur vergrar landsframleiðslu heimsins er meðal eða mjög háður heilbrigðri náttúru og vistkerfum (World Economic Forum & PwC, 2020).
Landvernd styður við eftirfarandi áherslur fyrir komandi samningaviðræður.
- Að aðildarríki gæti þess að aðgerðir í stefnu og aðgerðaráætlun hvers ríkis um líffræðilega fjölbreytni (NBSAPs) séu fjármagnaðar. Landvernd hvetur öll aðildarríkin til þess að gera fjárhagsáætlun í samræmi við samningsdrögin fyrir COP16 (bls 22, SBI/4/17).
- Landsákvörðuð framlög (NDCs) forgangsraði samdrætti í losun í öllum geirum ásamt því að gera grein fyrir hvernig unnið verði með fyrstu hnattrænu stöðutöku samningsins (Global Stocktake)
- Að ríkin skuldbindi sig til þess að fasa út jarðefnaeldsneyti eins hratt og mögulegt er (ásamt því að) og setji sér markmið um að draga verulega úr skaðlegum niðurgreiðslum, í takt við markmið 18 í hnattræna samningnum um líffræðilega fjölbreytni (GBF)
- Að ríki lyfti upp samningum á borð við Árósarsáttmálann og Escazú sáttmálann og standi vörð um gagnsæi og rétt almennings, grasrótar, frumbyggja og næríbúa til að taka þátt í ákvarðanatöku er varðar umhverfismál. Ríkin gæti þess einnig að einstaklingar og samtök sem sækja rétt sinn á grundvelli umhverfisverndar séu varðir gegn ofbeldi og opinberri smánun.