Samstöðufundur með náttúrunni – gjöf til þingmanna

Dynkur í Þjórsá. Ljósmyndari: Árni Tryggvason
Dynkur í Þjórsá mun hverfa ef verður af Kjalölduveitu - eða Þjórsárfossavirkjun eins og mætti kalla hana. Ljósmynd: Árni Tryggvason.
Fulltrúar náttúruverndarsamtaka munu afhenda þingmönnum allra flokka veglega mynd af Dynk eftir Árna Tryggvason, en Dynkur er ein af þeim ómetanlegu náttúrugersemum sem meirihluti umhverfis- og samgöngunefndar vill færa úr verndarflokki og skrefi nær faðmi virkjanaaflanna.
Náttúruverndarsamtök á Íslandi boða til viðburðar vegna stöðu rammaáætlunar utan við Alþingishúsið þriðjudag 14. júní kl. 17.
Fulltrúar náttúruverndarsamtaka munu afhenda þingmönnum allra flokka veglega mynd af Dynk eftir Árna Tryggvason, en Dynkur er ein af þeim ómetanlegu náttúrugersemum sem meirihluti umhverfis- og samgöngunefndar vill færa úr verndarflokki og skrefi nær faðmi virkjanaaflanna. Hin helgu Þjórsárver og jökulsárnar í Skagafirði eru einnig undir.
Allir náttúruunnendur eru hvattir til að mæta tímanlega! Við erum hluti náttúrunnar og þörfnumst hennar. Nú þarfnast hún okkar!
Náttúruverndarfólk hafnar því að rammaáætlun verði afgreidd á Alþingi með pólitískum hrossakaupum á síðustu dögum þingsins. Við krefjumst þess að afgreiðslu málsins verði frestað og það tekið aftur tekið fyrir í haust með raunverulega virðingu fyrir náttúru landsins að leiðarljósi. Í haust er tími til að fara í þá heildarendurskoðun á lögum um rammaáætlun sem boðuð er í sáttmála ríkisstjórnarinnar.
Nokkrar staðreyndir um tillögu meirihlutans:
  • Úr biðflokki í nýtingarflokk á að færa Búrfellslund
  • Úr verndarflokki í biðflokk á að færa virkjanir kenndar við Héraðsvötn og Jökulsárnar í Skagafirði
  • Úr verndarflokki í biðflokk á að færa Kjalölduveitu neðst í Þjórsárverum
  • Bannað verður að friðlýsa vatnasvið Skjálfandafljóts, þar til annað verði ákveðið, þó þar séu fossar í verndarflokki
  • Virkjanahugmyndir við Héraðsvötn og Skjálfandafljót auk Kjalölduveitu eru allar í jaðri mikilvægra víðernasvæða hálendisins
  • Allt eru þetta er virkjunarhugmyndir sem Landsvirkjun hefur illa getað sætt sig við að færu í verndarflokk
  • Áratugalöng barátta náttúruunnenda fyrir varanlegri sátt um vernd hinna helgu Þjórsárvera og farvegar Þjórsár með fjórum af mestu fossum landsins, yrði að engu gerð
Afgreiðslan er í hrópandi ósamræmi við samtímann á viðsjárverðum tímum náttúruvár og sífellt harðari ágangs mannkyns á ósnortna náttúru. Með afgreiðslunni yrði barátta náttúruverndarfólks færð aftur um áratugi í boði núverandi ríkistjórnarmeirihluta.

Ert þú í Landvernd?

Taktu afstöðu með náttúrunni og gakktu í Landvernd
Scroll to Top